Þvottafólk Sólrún Lára Reynisdóttir og Ómar Már Gunnarsson, maður Grétu. Fólk er samhent og þannig má ná árangri.
Þvottafólk Sólrún Lára Reynisdóttir og Ómar Már Gunnarsson, maður Grétu. Fólk er samhent og þannig má ná árangri. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Eigin atvinnurekstur er ögrandi verkefni en skemmtilegt. Vinnudagurinn er langur og koma þarf til móts við þarfir viðskiptavina með ýmsu móti,“ segir Gréta Björg Hafsteinsdóttir sem rekur efnalaugina Geysi við Dalveg í Kópavogi.

„Eigin atvinnurekstur er ögrandi verkefni en skemmtilegt. Vinnudagurinn er langur og koma þarf til móts við þarfir viðskiptavina með ýmsu móti,“ segir Gréta Björg Hafsteinsdóttir sem rekur efnalaugina Geysi við Dalveg í Kópavogi. Geysir er gamalgróið fyrirtæki, stofnað árið 1997 af systrunum Steinþóru og Guðbjörgu Guðmundsdætrum.

Gréta, sem er lærður matsveinn, og starfaði lengi sem slík, keypt fyrirtækið fyrir um þremur árum. Var á þeim tímapunkti áfram um að skapa sér ný verkefni og vinnu. Og það tókst og þær Sólrún Lára Reynisdóttir, samstarfskona Grétu hafa nóg fyrir stafni.

Vill auka saumaskapinn

Geysiskonur þvo, þurrka, hreinsa, pressa, strauja og vinna bletti úr flíkunum svo eitthvað sé nefnt.

„Ég kem hingað klukkan hálfátta á morgnana og set tækin í gang. Þetta er heilmikið kram og vélarnar snúast allan daginn. Yfir daginn er ég síðan oft í snúningum, sæki og sendi þvott í fyrirtæki sem eru í viðskiptum við okkur,“ segir Gréta.

Fataviðgerðir og saumaskapur er sem aukageta í rekstri Grétu. Hún segist alla tíð hafa haft mikla ánægju af hverskonar saumaskap og sér finnist forréttindi að geta nú haft atvinnu af slíku. Sé raunar áfram um að efla þennan þátt í rekstrinum Bæði þurfi margir þjónustu við minni háttar fataviðgerðir og þá hefur Gréta einnig fengist við að sauma síðkjóla og herðaslár og kraga úr kanínuskinni.

Stagar í göt og festir rennilása

„Sú var tíðin að flestar húsmæður – og fjöldi karla raunar líka – gátu bjargað sér með smáræði eins og að festa lausa tölu á skyrtu, laga saumsprettu, stytta buxur og staga í göt eða festa rennilás. Stundum kemur hingað fólk sem er í miklum vandræðum vegna þessa og þá er gaman að geta orðið að liði,“ segir Gréta sem líkar vel í efnalauginni. Hefur heldur ekki sleppt taki af matreiðslunni, tekur alltaf rispur þar með mági sínum sem starfrækir veisluþjónustu og töfrar þá fram allskonar krásir.

sbs@mbl.is