Pálína Gunnlaugsdóttir
Pálína Gunnlaugsdóttir — Morgunblaðið/Ómar
Íþróttakempur leynast víða í samfélaginu og þær eru á ýmsum aldri. Þær koma í öllum stærðum og gerðum en eiga það það sameiginlegt að vera eða hafa verið í góðu líkamlegu formi einhvern tímann í lífinu.

Íþróttakempur leynast víða í samfélaginu og þær eru á ýmsum aldri. Þær koma í öllum stærðum og gerðum en eiga það það sameiginlegt að vera eða hafa verið í góðu líkamlegu formi einhvern tímann í lífinu. Kempurnar eru sem betur fer til í að deila reynslu sinni með okkur og veita okkur góð ráð. Kempa dagsins er Pálína María Gunnlaugsdóttir, landsliðskona í körfubolta og leikmaður Grindavíkur.

Gælunafn : Pálí – en það eru ekki allir sem fá að nota þetta nafn, aðeins útvaldir.

Íþróttagrein : Körfubolti.

Hversu oft æfir þú á viku? Það eru skipulagðar æfingar sex sinnum í viku en ég reyni að komast í lyftingasalinn a.m.k. fjórum sinnum í viku.

Hvernig æfir þú? Ég fer í lyftingasalinn og tek ólympískar lyftingar ásamt því að skjóta mikið.

Henta slíkar æfingar fyrir alla? Ég held því fram að þessar ólympísku séu svona alhliða, taki á öllum vöðvum. Auðvitað eru misjafnar skoðanir á þessu, en mér líkar þetta og það er það sem skiptir máli, að maður sé ánægður í því sem maður er að gera.

Hver er lykillinn að góðum árangri? Svefn, heilsa, mataræði, hugarfar og markmiðasetning.

Hvað er það lengsta sem þú hefur hlaupið? Ég veit ekki hvað maður hleypur ca. langt í einum körfuboltaleik, en það lengsta sem ég hef tekið í útihlaupi eru 11 km. Það var bara núna á síðasta ári, á sunnudeginum eftir Reykjavíkurmaraþonið – ég var svo fúl því ég þekkti svo marga sem fóru í hlaupið og hlupu 10 km. Ég gat hreinlega ekki verið minni kona og ekkert hlaupið þannig að ég stökk út um kl. 21:00 á sunnudeginum og hljóp 11 km á 58 mín.

Líður þér illa ef þú færð ekki reglulega útrás fyrir hreyfiþörfina? Já sbr. sunnudaginn eftir Reykjavíkurmaraþonið – ég hreinlega gat ekki látið vinna mig. Ég tapa aldrei.

Hvernig væri líf án æfinga? Úff, ég get ekki ímyndað mér það. En væri þá ekki bara eitthvað annað sem kæmi í staðinn, ég myndi líklega alltaf vera að þrífa – einhvers staðar þyrfti ég að eyða orku! Það er ágætis brennsla í skúringum.

Hvað er það lengsta sem hefur liðið á milli æfinga hjá þér? Núna í meiðslunum hreyfði ég mig ekki í fimm vikur og tók það mjög mikið á andlega. Bæði fyrir sjálfa mig og þá sem standa mér næst, því ég var ekki sú hressasta í skapinu. En mér leið rosalega vel eftir fyrstu útrásina sem ég fékk eftir meiðslin.

Ertu almennt meðvituð um mataræðið? Já, ég er mjög meðvituð um það sem ég læt ofan í mig.

Hvaða óhollustu ertu veik fyrir? Ég elska súkkulaði og ég er sjúk í nammiland!

Hvað ráðleggurðu fólki sem vill bæta mataræðið? Vera meðvitað um það sem það lætur ofan í sig. Minnka skammtana og borða oftar. Reyna frekar að fá sér eitt epli í stað súkkulaðis.

Hvaða gildi hefur hreyfing og líkamsrækt fyrir þig? Mjög mikið, það skiptir mig miklu máli, bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu, að fá útrás. Ég er mjög orkumikil að eðlisfari og einhvers staðar þarf þessi orka að leysast úr læðingi, annars er ég bara leiðinleg og óþolandi, öll á iði, alltaf að standa upp og gera eitthvað annað.

Hver eru erfiðustu meiðsl sem þú hefur orðið fyrir? Núna á þessu tímabili sleit ég innra liðband í hnénu ásamt því að það kom gat á liðpokann.

Hversu lengi varstu að ná þér aftur á strik? Ég er enn að ná mér á strik en þetta gerðist síðustu vikuna í nóvember 2013. Ég hvíldi fyrst alveg í fimm vikur og byrjaði þá að hjóla og gera svona grunnhnéæfingar. Ég spilaði minn fyrsta leik fyrir tveimur vikum.

Hvað eru algeng mistök hjá fólki við æfingar? Ekki næg fjölbreytni og/eða ofþjálfun. Líkaminn þarf líka hvíld og hún er ekki síður mikilvæg.

Hver er erfiðasti mótherjinn á ferlinum? Þegar við vorum að spila í Evrópukeppninni hitti maður fullt af góðum og efnilegum stelpum. Það var mjög erfitt að spila við þær og ég held að ég hafi oft fengið verðugt verkefni að spila vörn á móti bestu leikstjórnendum í Evrópu. Eins fannst mér mjög erfitt að mæta vinkonum mínum í Keflavík í fyrsta leik á þessu tímabili, en ég skipti yfir til Grindavíkur. Það var mjög erfitt að spila við gömlu liðsfélagana, mjög tilfinningaríkur leikur.

Hver er besti samherjinn? Besti samherji sem ég hef átt er Helena Sverrisdóttir, við leiddumst í gegnum alla yngri flokkana og svo spilum við saman í landsliðinu. Hún er alveg magnaður leikmaður.

Hver er fyrirmynd þín? Mamma og pabbi, stórkostlegt fólk. Ég er ótrúlega stolt af þeim, þau hafa kennt mér margt í gegnum tíðina, ekki kannski mikið í körfubolta, heldur um lífið sjálf, ásamt því að vera ómetanlegur stuðningur í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.

Hver er besti íþróttamaður allra tíma? Ég hef alltaf haft mikið dálæti á Michael Jordan og Chris Mullen. En mér finnst Usain Bolt líka mjög duglegur.

Skemmtileg saga/uppákoma frá ferlinum? Ég á nokkrar góðar sögur af ferlinum; bæði af því sem hefur gerst innan vallar sem utan hans. Þær eru nú yfirleitt meira krassandi sem gerast í góðum hópi eftir leik eða keppni og ég held að það sé best að geyma þær. En ég er með eina sem lýsir mér pínulítið. Það var þannig að við vorum að spila í Grafarvogi fyrir þremur árum og ætluðum að hafa eitthvert húllumhæ eftir leikinn. Ég mætti með fjögur pör af skóm í leikinn – en ekkert af þeim var körfuboltaskór heldur allt 10 cm hælar! Ég hef alltaf sagt „always look your best“ – ég hef greinilega ætlað að skarta öllu í leiknum og körfuboltaskór óþarfir.

Skilaboð að lokum? Ég heyrði mjög gott kvót um daginn sem mér finnst æðislegt og ætla að fá að setja hérna inn: „Losers quit when they're tired. Winners quit when they've won.“