Jozef Gabcík
Jozef Gabcík
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókin sem undanfarið hefur trónað á toppi metsölulista Eymundssonar er stórkostleg saga um hetjuskap og þær fórnir sem fólk er reiðubúið að færa í baráttu við hið illa.

Bókin sem undanfarið hefur trónað á toppi metsölulista Eymundssonar er stórkostleg saga um hetjuskap og þær fórnir sem fólk er reiðubúið að færa í baráttu við hið illa. HHhH eftir Laurent Binet í þýðingu Sigurðar Pálssonar er marglofuð verðlaunabók sem hlýtur að hafa djúp áhrif á alla lesendur.

Ein af fjölmörgum hetjum bókarinnar er Jozef Gabcík , sem hér sést mynd af, en hann fékk það verkefni ásamt Jan Kubiš að drepa Reinhard Heydrich , hættulegasta mann þriðja ríkisins. Í HHhH segir Laurent Binet frá tilræðinu við Heydrich, aðdragandanum og eftirleiknum. Hann leggur sig fram við að leita sannleikans og öll smáatriði skipta hann máli. Hann lifir og hrærist í frásögn sinni og lesandinn getur ekki annað en fylgt honum. Binet tekur sterka afstöðu með hetjum sögunnar, sem eru ekki bara Gabcík og Kubiš sem vissu mætavel að þeir væru að taka að sér verkefni sem nær engar líkur væru á að þeir kæmust lifandi frá. Þarna eru fleiri hetjur, fólk sem lagði líf sitt í hættu til að aðstoða og vernda þessa menn, og eins og höfundur segir sjálfur bendir ekkert til þess að þessir sömu einstaklingar hafi séð efir því. Bókin er saga um hetjudáðir venjulegs fólks sem reis yfir ömurlegar aðstæður, horfðist í augu við hættuna og tók ákvörðun sem því fannst vera siðferðilega rétt. En þar sem eru hetjur eru líka svikarar sem eru tilbúnir að framselja félaga sína fyrir silfurpeninga. Þannig var einnig í Prag árið 1942. Og hefnd nasista var ægileg.

Það er stigvaxandi spenna í þessari stórmerkilegu bók þar sem höfundur fylgir staðreyndum málsins og tekur sterka afstöðu og leyfir sér að sýna tilfinningar og einmitt það á þátt í því að gera bókina svo sérstaka. Binet veit að hann er að segja sögu sem hljómar ótrúlega en er sönn. Hann hyllir hetjur sem færðu fórnir og fordæmir þá sem tóku afstöðu með illskunni eða gerðu sig seka um ófyrirgefanlega heimsku.

Það er örugglega of oft sagt að bók sé ógleymanleg, en það er sannarlega ekki ofmælt þegar þessi bók á í hlut. Ekki missa af henni.