Ef það er óvinnandi vegur að fylgjast með og hafa áhrif á reglusetningu samkvæmt EES-samningnum í dag hvernig yrði þá staða Íslands innan ESB?

Reglulega eru fluttar fréttir af því að Ísland sé neðarlega eða „komi illa út“ á lista Eftirlitsstofnunar EFTA yfir hversu vel EFTA-löndunum miðar í innleiðingu tilskipana evrópska efnahagssvæðisins. Fyrir þá sem telja samanburð við erlend ríki þann mælikvarða sem mestu máli skiptir þá er rétt að minna á að á listanum eru einungis þrjú lönd. Ísland kemst því á verðlaunapall telji menn það sérstakt keppikefli að ná árangri á listanum. Það sem þó skiptir hér máli efnislega er að með inngöngu í EES-samstarfið undirgengust EFTA-ríkin ekki keppni í innleiðingu reglna sem samningsþjóðirnar hafa sett sér. Það er ekkert til sem heitir „innleiðingarhalli“ eins og nefnt er í fréttum af þessum listum.

Eitt meginmarkmiða EES-samstarfsins er að stuðla að auknu frjálsræði og samvinnu í viðskiptum um allan heim en um leið að tryggja einsleitni á evrópskum markaði. Full þörf virðist vera á að rifja reglulega upp og árétta að EES-samstarfið er þó ekki einhliða samband sem rúllar reglum ESB viðstöðulaust inn í EFTA-ríkin. EES-samstarfið er tvíhliða samstarf annars vegar EFTA-ríkjanna og hins vegar ESB. Báðir aðilar hafa sama rétt við mótun reglna sem varða samstarfið og þótt margir haldi að Íslendingar þurfi að vera algerir þiggjendur evrópskra reglna þá er það ekki þannig. Innleiðing nýrra reglna á sviði EES-samningsins fer ávallt fram með aðkomu alþingis og að undangenginni afgreiðslu í sameiginlegu EES-nefndinni en í henni fer fram upptaka nýrra reglna í EES-samninginn og breyting á eldri reglum. Sameiginlega EES-nefndin hefur einnig það hlutverk að veita EFTA-ríkjunum undanþágu frá sameiginlegum reglum ef samningsaðilar eru sammála um slíkt. Hefur það verið nýtt sem skyldi af hálfu Íslands?

Það kann að vera að lagafrumvörp renni í gegnum alþingi jafnmótstöðulaust og vatnið á suðurhluta Englands um þessar mundir. Ólíkt rigningunni er innleiðing EES-reglnanna hins vegar ekki hluti af gangverki náttúrunnar. Alþingi hefur fullt forræði á því hvaða reglur eru innleiddar. Vilji þingmenn hafa á því skoðun hvaða reglur eru innleiddar geta þeir það. Telji þingmenn sig ekki hafa tíma til þess að hafa skoðun á EES-reglunum, nú eða öðrum lagafrumvörpum, eiga menn alltaf þann kost að gefa þeim ekki lagagildi hér á landi. Bíða með það þangað til þeir hafa tíma til að kynna sér málið. Og það er bara alls ekkert að því.

Sigríður Ásthildur Andersen sigga@sigridurandersen.is