Matthías ásamt Auði Ögn Árnadóttur, eiganda Salteldhúss, í kennslueldhúsinu.
Matthías ásamt Auði Ögn Árnadóttur, eiganda Salteldhúss, í kennslueldhúsinu. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Klassíska eftirrétti á borð við crème brûlée, panna cotta, tiramisu og tarte tatin er að finna á matseðlum um allan heim. Þessar dásemdir desertanna er á færi allra að gera að sögn Matthíasar Þórarinssonar matreiðslumanns. Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir gunnhildur@mbl.is

Maður heyrir oft, t.d. varðandi klassísku eggjaréttina, að fólk hræðist þá, þ.e. eggjarauðurnar, vatnsbaðið og slíkt,“ segir Matthías spurður út í hvað það sé sem vill helst flækjast fyrir fólki í tilfelli margra af klassísku eftirréttunum sem finna má á matseðlum veitingahúsa um allan heim, en eru margir þekktir að helst til flókinni framkvæmd. Leiðir hann áhugasama í allan sannleik um gerð slíkra eftirrétta á námskeiðum í Salteldhúsi þessa dagana.

Ekki bara á færi fagmanna

Á námskeiðinu kennir Matthías m.a. gerð klassískra eftirrétta úr franska eldhúsinu á borð við panna cotta, tarte tatin, pavlovur, pot au chocolat og fleira. Segir hann fyrrnefnda rétti langt í frá einungis á færi lærðra matreiðslumanna. „Þetta hljómar kannski framandi en fyrir fagmennina er þetta daglegt brauð,“ segir hann. Bætir hann við að gott sé að átta sig aðeins á efnafræðinni að baki réttunum. „Við förum aðeins í gegnum hvað er að gerast í réttunum, t.d. af hverju eggjarauðan þykknar, hvers vegna þarf að fara með sykursírópið í þennan hita til að það virki í framhaldinu og slíkt – það eru svona efnafræðipælingar að baki þessu sem stundum þarf bara að benda aðeins á og útfæra með fólki,“ segir hann.

„Fólk setur kannski fyrir sig að gera alvörusúkkulaðimús, úr hvítu súkkulaði og jafnvel dökku 65-70% hágæðasúkkulaði – en það er hægt að gera flottan mat á eldavélinni heima,“ bætir hann við.

Þrátt fyrir fágað yfirbragðið í dag bendir hann líka á að ekki hafi allir klassískir réttir stokkið fullskapaðir fram í byrjun, líkt og hin þekkta tarte tatin. „Það er eplakaka sem varð til fyrir mistök. Tartin-systur voru búnar að búa til köku sem var eitthvað ljót, svo þær ákváðu hreinlega að snúa henni við á fatinu. Þannig varð eplakaka á hvolfi vinsæl,“ segir hann léttur í bragði. Í matreiðslunni sé það oft þannig að menn hafi lagt upp með að gera eitthvað eitt sem endar sem eitthvað allt annað.

Unnið með eggið – fullt hús matar

Auk kennslu í Salteldhúsi verður ekki annað sagt en Matthías lifi og hrærist í heimi matvælageirans. Hann segist reyndar að vissu leyti líka kominn „hinum megin við borðið“ í dag, eftir að hafa starfað við matreiðslu í gegnum tíðina. Starfar hann líka sem sölumaður fyrir stóreldhús, veitingastaði og hótel hjá heildverslun í borginni. „Maður er núna farinn að þjónusta þessa yngri stráka og nýju veitingahús öll með hráefni og slíkt,“ segir hann léttur í bragði. Hann heldur engu að síður góðum tengslum við eldhúsið, m.a. með kennslu á námskeiðum. Auk eftirréttanna hefur hann m.a. kennt á jólanámskeiðum Salteldhúss, gerð tapasrétta, samsetningu matarboða o.fl. „Manni líður stundum eins og maður sé stöðugt að vinna með eggið – heildsalan er eins og fullt hús matar,“ bætir hann kankvís við og gefur hér uppskrift að hinu klassíska crème caramel.

Créme Caramel eða karamellubúðingur á hvolfi

Uppskriftin fyrir 6-8 manns

Best að nota souffleskálar sem þola hita

175 g sykur

670 ml nýmjólk

2 vanillustangir (skafið fræin úr og sjóðið í mjólkinni)

4 stór egg

Aðferð: Takið 80 g af sykrinum og 3 msk. vatn og setjið í pott. Sjóðið saman þar til það er orðið að sírópi, sjóðið þá áfram þar til sykurinn brúnast. Karamellunni er þá skipt í eldföstu skálarnar og látin kólna.

Restin af sykrinum er næst sett í þykkbotna pott, ásamt mjólk og vanillustöngum. Sjóðið þetta saman í stutta stund, dragið þá af hitanum og hellið í stóra skál. Þar er eggjum hrært saman við blönduna með písk. Sigtið síðan og skiptið á milli eldföstu skálanna (yfir karamelluna).

Skálarnar eru næst settar í ofnskúffu og vatni bætt í hana þannig að fljóti u.þ.b. 1/3 upp á skálarnar. Bakið á 150°C (á blæstri) í 40 mínútur en eggjablandan stífnar við baksturinn. Hægt er að athuga hvort þetta sé tilbúið með því að stinga tannstöngli í. Ef hann kemur hreinn úr eru egginn klár.

Látið kólna alveg – gott er að setja plastfilmu yfir skálarnar. Áður en búðingnum er hvolft á disk er ágætt að renna litlum beittum hníf meðfram jaðrinum á skálinni. Snúið snögglega við en þá kemur í ljós himneskur eggja- eftirréttur með fljótandi karamellu

Skreytið með ferskum hindberjum og/eða ferskum myntulaufum.