Þegar kemur að því að spara segir Þórhallur að það séu litlu hlutirnir sem gildi.
Þegar kemur að því að spara segir Þórhallur að það séu litlu hlutirnir sem gildi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það er sjaldan róleg stund hjá Þórhalli Vilhjálmssyni markaðsfræðingi. Hann vinnur sem kynningar- og upplýsingafulltrúi Mímis-símenntunar og rekur að auki kaffihúsið Babalú á Skólavörðustíg með eiginmanni sínum.

Það er sjaldan róleg stund hjá Þórhalli Vilhjálmssyni markaðsfræðingi. Hann vinnur sem kynningar- og upplýsingafulltrúi Mímis-símenntunar og rekur að auki kaffihúsið Babalú á Skólavörðustíg með eiginmanni sínum. Hann verður síðan fararstjóri í ferð Bændaferða til Svartaskógar og kanadísku Klettafjallanna í sumar.

Hvað eruð þið mörg í heimili?

Við erum þrjú. Ég og eiginmaður minn, hann Glenn Barkan, sem er upphaflega frá New York, og tíkin Daisy, sem er frá Hvammstanga. Við búum í krútt-húsi í krúttlegustu götunni í 101, Haðarstíg.

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

Cola Light sem ég viðurkenni vanmátt minn gagnvart.

Hvað freistar helst í matvörubúðinni?

Appelsínur ef þær eru góðar. Bestu appelsínurnar eru frá Egyptalandi.

Hvernig sparar þú í heimilishaldinu?

Þar sem við eigum ekki börn og buru sparast sérstaklega mikið í þeirri deild. Við erum mjög heimakærir og reglusamir þannig að ekki erum við að eyða neinu í áfengi og sígarettur. Maðurinn minn er ótrúlega sparsamur enda er þetta í blóðinu hjá honum. Hann hleypur stundum á eftir mér með notaða plastpoka þegar ég er á leiðinni í búðina. Það er þetta smáa sem gildir.

Hvað vantar helst á heimilið?

Vélmenni sem tekur til eins og þernan Rosie sem var hjá Jetson-teiknimyndafjölskyldunni.

Eyðir þú í sparnað?

Ég borga í viðbótarsparnað í sjóð í Bæjaralandi. Ég reikna ekki með að fá neitt úr lífeyrissjóðnum mínum hérna heima þegar að því kemur. Íslenskt viðskiptalíf lítur á lífeyrissjóði sem stað til þess að ná í peninga í alls konar verkefni og mér finnst ekki miklar líkur til þess að eitthvað verði eftir þegar yfir lýkur. Því miður. Við tölum oft um að litla kaffihúsið okkar og fasteignin sem því fylgir sé aðallífeyrissparnaðurinn okkar.

Skothelt sparnaðarráð?

Veldu áhugamál sem kostar ekki mikið. Aðaláhugamál mitt er tónlist og kórsöngur. Ég syng í Mótettukór Hallgrímskirkju. Það kostar mig ekki krónu og nærir líkama og sál. Það er mun ódýrara en að spila golf eða eiga hesta.