Það skiptir varla máli hvert farið er í stórborgum nú til dags, víðast hvar má ganga að þeim veitingastöðum vísum sem bjóða upp á rétti í anda ýmissa þjóða eða þjóðarbrota.

Það skiptir varla máli hvert farið er í stórborgum nú til dags, víðast hvar má ganga að þeim veitingastöðum vísum sem bjóða upp á rétti í anda ýmissa þjóða eða þjóðarbrota. Þetta á ekki síst við í Bandaríkjunum, þar sem matreiðsla Ítala, Japana, Mexíkana, Frakka, Kínverja, Taílendinga og fleiri þjóða nýtur mikilla vinsælda.

Huffington Post birti á dögunum lista yfir átta lönd til viðbótar, hvers matreiðsla hefur ekki náð fótfestu í Bandaríkjunum að neinu marki en verðskuldar það fyllilega að mati miðilsins. Þar var Ísland ofarlega á blaði eða í öðru sæti. Framar lenti einungis Laos. Þykir matreiðsla landans bæði áhugaverð og vænleg til vinsælda.

Bent er á að fjölbreytt sjávarfang og ljúffengt lambakjöt einkenni matarmenninguna hér á landi, auk þess sem „jógúrt-líki osturinn“ skyr sé u.þ.b. að slá í gegn vestanhafs. Því sé vert að gefa íslenska eldhúsinu gaum.

Önnur lönd, sem einnig þykir vert að gefa gaum í eldhúsinu, eru Sri Lanka, Síle, Nígería, Macau, Ungverjaland og Bólivía.