Á dögunum hafði Víkverji á tilfinningunni að hann væri í stjörnustríði og ef einhver hefði komið með eld of nálægt er hætta á að kviknað hefði í honum og hann sprungið, svo mikill var hitinn.

Á dögunum hafði Víkverji á tilfinningunni að hann væri í stjörnustríði og ef einhver hefði komið með eld of nálægt er hætta á að kviknað hefði í honum og hann sprungið, svo mikill var hitinn. Hann reyndi að lækka hitann með því að leggja rakan, kaldan þvottapoka að helstu hitasvæðunum, en við það urðu þau bara stærri og þar með jókst íkveikjuhættan og sprengihættan.

Fréttamenn velta sér stöðugt upp úr því hvað gerist, hvar, hvenær og hvernig. Flensan sækir líka í stafinn „h“, því alvöru flensusjúklingur er með mikinn hita, hálsbólgu, hósta og beinverki eða heinverki, eins og þeir segja fyrir austan. Með þetta í huga er augljóst að fréttamenn eru í flensuáhættuhópi og því andar Víkverji rólega.

Það er líka gott að vera fréttamaður með flensu vegna þess að fréttamaðurinn heldur að hann þurfi að lesa öll blöð, hlusta á alla útvarpsfréttatíma og horfa á alla sjónvarpsfréttatíma, en þegar hann er með flensu hefur hann ekki kraft til þess að halda á dagblaði, bara ipad, hefur ekki eirð í sér til þess að hlusta á útvarp og getur ekki horft á sjónvarp vegna svima. Flensan gerir honum sem sagt mögulegt að hlaða batteríin á tvöfaldan hátt, annars vegar með því að vera laus við daglegt áreiti og hins vegar með því að vinna á veikindunum með viðurkenndum og óviðurkenndum aðferðum. Tveir fyrir einn með ipadinn við hönd.

Í vikunni hitti Víkverji konu sem sagðist vera með flensu og hefði verið lengi. Mætti samt alltaf í vinnuna og smitaði samstarfsfólkið vinstri hægri. Víkverji benti henni á að henni væri nær að vera heima og ná fjandanum úr sér. Það er nefnilega engum greiði gerður með því að flensast upp á aðra. Á tímum aðhalds og niðurskurðar má líka benda á að flensa er ein besta losunaraðferð sem um getur og sá sem liggur heima með flensu getur verið viss um að missa nokkur kíló.