[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fríða María fæddist í Reykjavík 28.2. 1974 og ólst upp í Litla-Skerjafirði.

Fríða María fæddist í Reykjavík 28.2. 1974 og ólst upp í Litla-Skerjafirði. Hún var oft í heimsókn hjá fjölskyldu í Vestmannaeyjum á sumrin, fór 11 ára með afa sínum til Færeyja og dvaldi þar hjá frændfólki sínu hluta úr sumri og dvaldi sumarlangt í Skálholti næsta sumar, er foreldrar hennar ráku þar sumarhótel.

Fríða María var í Melaskóla, Hagaskóla, stundaði nám á myndlistarbraut við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóli Íslands á grafíkdeild og lauk prófum er jafngilda BFA-gráðu. Hún stundaði síðan nám við Förðunarskóla Face Stockholm og útskrifaðist þaðan sem förðunarfræðingur 1998.

Á námsárunum var Fríða María þjónn, m.a. á Hótel Borg og vann í versluninni Borð fyrir tvo.

Farðar fyrir tísku og tónleika

Fríða María hefur starfað sjálfstætt við förðun frá 1998. Í upphafi vann hún jafnframt við leikhús, hjá Loftkastalanum 1999-2000, og við Þjóðleikhúsið 2000-2005, en hefur síðan starfað alfarið á eigin vegum.

Fríða María hefur starfað mest við auglýsingar. Auk þess sinnir hún verkefnum er lúta að tísku og við tónlistarmyndbönd, kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Kvikmyndir sem Fríða María hefur hannað förðun og hárgreiðslu fyrir eru Mamma Gógó og Desember. Auk þess hefur hún séð um förðun fyrir sjónvarpsþættina Allir litir hafsins og Tími nornarinnar. Hún hefur einnig sinnt verkefnum við tökur á erlendu kvikmyndunum Journey to the Center of the Earth og Hostel Part II.

Fríða María hefur, ásamt Guðbjörgu Huldísi Kristinsdóttur, haft yfirumsjón með förðun fyrir Reykjavík Fashion Festival undanfarin tvö ár og sinnir því starfi aftur nú í næsta mánuði. Þá hefur hún unnið í síauknum mæli við förðun fyrir hina ýmsu tónleika, s.s. Jólagesti Björgvins; Minningartónleika Ellýjar Vilhjálms og Afmælistónleika Eimskips, og mun farða fyrir KÍTÓN-tónleikana í Hörpunni sem haldnir verða nú um helgina.

Fríða María var tilnefnd til Eddu verðlauna fyrir förðun við myndina Mamma Gógó.

Allt er best í hófi

Fríða María og fjölskyldan ganga töluvert á fjöll og fara á skíði: „Ég er nú ekkert að missa mig í fjallgöngum og skíðabruni. Reyndar er eiginmaðurinn drifkrafturinn á þessum sviðum en ég tek þátt í hvoru tveggja og legg mikið upp úr hreyfingu almennt. Ég er auk þess í hlaupahópi á vegum Ármanns, stunda Zumba sem er dansleikfimi og held mér í formi í Hreyfingu heilsulind.

Að öðru leyti hef ég áhuga á menningu og listum eins og flestir aðrir og leggst í góðar bækur, einkum yfir vetrartímann.“

Fjölskylda

Eiginmaður Fríðu Maríu er Albert Þorbergsson, f. 19.1. 1974, landfræðingur er starfar á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Foreldrar hans eru Ester Albertsdóttir, f. 29.4. 1945, og Þorbergur Guðmundsson, f. 27.9. 1940, sölustjóri Suzuki á Íslandi. Þau eru búsett í Reykjavík.

Börn Fríðu Maríu og Alberts eru Sunneva Líf Albertsdóttir, f. 1.9. 1998, og Þorgeir Atli Albertsson, f. 2.3. 2003.

Bróðir Fríðu Maríu er Ingi B. Poulsen, f. 20.7. 1980, umboðsmaður borgarbúa í Reykjavík.

Foreldrar Fríðu Maríu eru Marentza Poulsen, f. 10.11. 1950, smurbrauðsjómfrú sem starfrækir veitingahúsið Café Flóru í Grasagarðinum, og Hörður Hilmisson, f. 12.12. 1947, sem starfaði lengst af sem rafvirki. Þau eru búsett í Reykjavík.