Langtíma verkefni Gyða Þórðardóttir við teppið sem hún byrjaði á 1942.
Langtíma verkefni Gyða Þórðardóttir við teppið sem hún byrjaði á 1942. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Stundum virðist nútíminn einkennast af því að allir eru að flýta sér. Enginn hefur nægan tíma. Alla hluti þarf að drífa af, á sem allra stystum tíma.

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn Stundum virðist nútíminn einkennast af því að allir eru að flýta sér. Enginn hefur nægan tíma. Alla hluti þarf að drífa af, á sem allra stystum tíma. Sumir hafa það fyrir lífsmottó að ef eitthvað hefur ekki verið notað í nokkurn tíma þá skal því hent. Ekki hugsa þó alveg allir svona.

Gyða Þórðardóttir er einn elsti íbúinn á Þórshöfn og verður níræð í sumar. Hún er borin og barnfædd á prestssetrinu Sauðanesi, þar sem faðir hennar var prófastur og þjónaði þar í tæpa hálfa öld. Gyða man því tímana tvenna.

Fyrir rúmum sjötíu árum byrjaði hún að sauma stórt veggteppi, þá átján ára gömul heimasæta á Sauðanesi en lagði það svo til hliðar og henti því ekki. Hún sigldi út til að mennta sig en kom aftur heim.

Teppið var alltaf geymt á góðum stað og fyrir tæpum tveimur árum tók hún það fram og lauk við það. Gyða hefur alltaf verið bráðflink saumakona og þrátt fyrir háan aldur er hún enn að sauma föt og aðstoða kunningja við lagfæringar.

Veggteppið góða prýðir nú heimili bróðursonar Gyðu og minnir um leið á gildi þess að gefa sér tíma til að varðveita suma hluti, því allt hefur sinn tíma.