Mývatnsöræfi Þórhallur Kristjánsson við jarðýtu sína, staddur við gatnamót að Hverum austan Námafjalls.
Mývatnsöræfi Þórhallur Kristjánsson við jarðýtu sína, staddur við gatnamót að Hverum austan Námafjalls. — Morgunblaðið/Birkir Fanndal
María Margrét Jóhannsdóttir mariamargret@mbl.is Ákveðið hefur verið að fresta fækkun snjómokstursdaga á Möðrudalsöræfum á leiðinni milli Egilsstaða, Mývatns og Vopnafjarðar til mánudags en ákvörðunin átti að taka gildi í dag.

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Ákveðið hefur verið að fresta fækkun snjómokstursdaga á Möðrudalsöræfum á leiðinni milli Egilsstaða, Mývatns og Vopnafjarðar til mánudags en ákvörðunin átti að taka gildi í dag. Margir hafa mótmælt þessari ákvörðun um fækkun snjómokstursdaga og bent á þær neikvæðu afleiðingar sem ákvörðunin hefði í för með sér.

„Þetta er algjörlega óásættanlegt,“ segir Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. „Það er verið að einangra allan fjórðunginn með þessu. Við höfum miklar áhyggjur af öryggi íbúa fjórðungsins en við vitum aldrei hvenær á þarf að halda að koma sjúklingum til Akureyrar. Vissulega er flugvöllur á Egilsstöðum en hann getur líka lokast. Þá hefur þetta áhrif á atvinnulífið en frá Seyðisfirði gengur ferja og þangað er mikill fiskflutningur. Sá fiskur kemur að mestu leyti frá Eyjafjarðarsvæðinu. Það er verið að fara aftur um ansi mörg ár ef þetta á að vera svona,“ segir Gunnar.

Skerðir heilbrigðisþjónustu

Kristín Albertsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, telur þessa ráðstöfun ekki ógna ör-yggi íbúa svæðisins en hafi hins veg-ar áhrif á þjónustu stofnunarinnar.

„Þetta hefur einhver áhrif á okkar þjónustu hvað varðar sjúkraflutn-inga. Við reynum að keyra þegar þess er kostur en flestir bráðaflutningar fara með flugi og þá sérstaklega yfir vetrartímann. Þá eigum við í mjög góðu samstarfi við Vegagerðina sem hefur verið okkur innan handar þegar á þarf að halda.

Þetta kann hins vegar að hafa áhrif á sjúkraflutninga milli stofnana svo sem þegar flytja þarf sjúkling sem hefur verið í aðgerð á Akureyri til sjúkralegu og endurhæfingar hér á umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað. Þá gæti þetta þýtt fleiri legudaga á annarri hvorri stofnuninni,“ segir Kristín.

Víðtækar afleiðingar

Breyting þessi hefur víðtækar afleiðingar en Strætó hefur í kjölfar þessa þurft að fækka akstursdögum á leið 56 úr fjórum í þrjá enda aðeins fært fyrir strætó þá daga sem mokað er. Um leið og færð lagast mun Strætó hefja á ný akstur samkvæmt leiðarvísi. Þá sendi sveitarstjórn Skútustaðahrepps frá sér ályktun í gær þar sem ákvörðun þessi var hörmuð.

Ryður snjó á jarðýtu sinni

Mikið fannfergi er á fjallvegum og víða ófært um Mývatnsöræfi. Samkvæmt upplýsingum frá Birki Fanndal í Mývatnssveit er t.d. ófært fyrir bíla að bílastæðinu við Hveri og hafa ferðamenn því skilið bílana eftir á þjóðveginum.

Þá hefur Þórhallur Kristjánsson unnið á jarðýtu sinni við að fletja út snjóruðninga meðfram þjóðveginum á Austurfjöllum, vestan Jökulsár. Hann segir mikla ruðninga vera víða á þeirri leið. Þá er önnur ýta úr Mývatnssveit austan Jökulsár í samskonar verkefni á Biskupshálsi.

Þórhallur telur að erfitt gæti reynst að halda opnum þjóðveginum með venjulegum sköfubílum. Ef ekkert væri aðhafst nema tvo daga í viku gæti fannfergið orðið óviðráðanlegt.