Hittinn Jón Sverrisson sækir að körfu Snæfellinga en hann hitti úr öllum sex skotum sínum fyrir Stjörnuna í gær.
Hittinn Jón Sverrisson sækir að körfu Snæfellinga en hann hitti úr öllum sex skotum sínum fyrir Stjörnuna í gær. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Garðabæ Kristinn Friðriksson kiddigeirf@gmail.com Svona seint á tímabili eru allir leikir orðnir ígildi úrslitaleiks. Þetta sannaðist í gærkveldi þegar Snæfell kom í Garðabæ og freistaði þess að gera alvöru tilkall í 5. sætið.

Í Garðabæ

Kristinn Friðriksson

kiddigeirf@gmail.com

Svona seint á tímabili eru allir leikir orðnir ígildi úrslitaleiks. Þetta sannaðist í gærkveldi þegar Snæfell kom í Garðabæ og freistaði þess að gera alvöru tilkall í 5. sætið. Stjörnumenn vonuðust til að halda lífi í baráttunni um 6.-7.sætið og einnig að brjóta á bak aftur taphrinu liðsins, sem hefur angrað Teit og félaga síðustu misseri. Takið sem Stjörnumenn hafa á Snæfelli í vetur losnaði ekkert í gær því heimamenn komu vel stemmdir til leiks í gær og lönduðu góðum sigri, 93:88, eftir að hafa leitt nánast allan leikinn. Með sigrinum komust þeir því upp við hlið Snæfellinga en eiga innbyrðis viðureignina gegn þeim og eru í þessum rituðu orðum byrjaðir að verma 7. sætið.

Leikurinn var hnífjafn allan tímann en eftir fyrsta fjórðung var ljóst að varnarleikurinn yrði ekki ofan á í þessum slag; 33:31 var staðan og fengu menn tvímælalaust að njóta vafans í rangstöðunni að þessu sinni. Þó varnir beggja liða hafi ekki skartað sínu fínasta batnaði óhjákvæmilega vörn beggja liða og fengu sóknarmennirnir að njóta sín og úr varð skemmtilegur leikur. Jafnræðið var ekki algert í leiknum, því heimamenn voru ávallt einu feti framar en Snæfell hleypti þeim aldrei of langt frá sér og með smá heppni hefði liðið getað stolið sigrinum. Stjörnumenn gerðu hinsvegar vel í að halda þeim faðmi frá sér og landa sigrinum. Það geta líklega allir leikmenn Snæfells munað eitt atvik sem hefði getað brúað bilið milli sigurs og ósigurs. Eftir stendur bilið hinsvegar og ljóst að baráttan um þessi neðri sæti úrslitakeppninnar verður epísk í umfangi sínu.

Stjarnan og Snæfell eru þau lið sem hafa valdið mestum vonbrigðum í vetur en það eru allir á einu máli um það að þessi lið gætu reynst þau hættulegustu í úrslitakeppninni. Stjörnumenn stigu sitt fyrsta skref í langan tíma í rétta átt; Hairston, Shouse, Dagur og Jón voru góðir, sem og innlegg Sigurðar Dags. Viljinn og baráttan voru til staðar og þó vörnin hafi ekki skinið á marga hundsrassa þá stendur sigurinn óhaggaður sem alvöru stoð fyrir síðustu umferðirnar.

Það er afar sjaldgæft að lið taki fleiri þriggja stiga skot en tveggja, þó mér hafi iðulega tekist þetta í denn. Þetta tókst Hólmurum í gær og er kannski ein breytan í ósigursmengi liðsins í gær. Sókn liðsins var beitt á köflum; sérstaklega þegar Travis Cohn handlék tuðruna. Hann datt hinsvegar úr góðum gír fyrri hálfleiks og hætti að skora; aðeins 4 stig í seinni og 24 í heildina. Það var ekki við hann að sakast, heldur náði liðið aldrei að brjóta á bak aftur heimamenn, sem alltaf náðu að komast í 5-7 stiga forystu þegar Snæfell gerðist líklegt til að komast yfir. Nonni Mæju var aðeins svipur hjá sjón og grunar mig að meiðsli hrjái pilt. Siggi, Sveinn, Finnur og Pálmi áttu fínan leik en alltaf skorti þá þetta eina fet til að stela sigrinum og hlaupa út úr Ásgarði með hnossið. Ingi þjálfari veit alveg hvað þessi ósigur þýðir og mun án efa finna leiðir til að pressa úr mönnum þetta extra átak sem þarf til þess að klára svona leiki; mannskapurinn er til staðar. Kæmi ekki á óvart að Snæfell heimsæki 7. sætið aftur áður en yfir lýkur.

Stjarnan – Snæfell 93:88

Ásgarður, Dominos-deild karla, fimmtudag 27. febrúar 2014.

Gangur leiksins : 8:5, 20:13, 31:21, 33:31 , 39:36, 43:40, 47:43, 53:49 , 60:55, 62:61, 70:65, 75:70 , 76:75, 79:75, 88:84, 93:88 .

Stjarnan: Matthew James Hairston 26/11 fráköst/3 varin skot, Dagur Kár Jónsson 18/5 stoðsendingar, Justin Shouse 17/4 fráköst/11 stoðsendingar, Jón Sverrisson 12/6 fráköst, Marvin Valdimarsson 11/5 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 7, Fannar Freyr Helgason 2/6 fráköst.

Fráköst: 28 í vörn, 7 í sókn.

Snæfell: Travis Cohn III 24/11 fráköst/9 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 21/6 fráköst, Finnur Atli Magnússon 13/4 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 13/7 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 9/5 fráköst/7 stoðsendingar, Jón Ólafur Jónsson 4, Kristján Pétur Andrésson 3, Stefán Karel Torfason 1.

Fráköst: 22 í vörn, 16 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Garðarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.