Akraneskaupstaður mótmælir áframhaldandi gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum eftir að Spölur afhendir þau ríkinu árið 2018, en það ár er gert ráð fyrir því að skuldir vegna ganganna verði uppgreiddar.

Akraneskaupstaður mótmælir áframhaldandi gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum eftir að Spölur afhendir þau ríkinu árið 2018, en það ár er gert ráð fyrir því að skuldir vegna ganganna verði uppgreiddar. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs á Akranesi, sem samþykkt var í gær.

Þar kemur fram að mikilvægt sé að huga þegar að tvöföldun Hvalfjarðarganga í því skyni að auka öryggi vegfarenda. Bæjarráðið telur hins vegar að íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja á Akranesi og Vesturlandi geti ekki einir landsmanna búið við sérstakar álögur vegna nauðsynlegra úrbóta í samgöngumálum.

Frá því að Hvalfjarðargöng voru opnuð hafi átt sér stað úrbætur í vegamálum víða á landinu, m.a. með tvöföldun Reykjanesbrautar og undirbúningi að breikkun Suðurlandsvegar. Íbúar á þessum svæðum hafi ekki þurft að greiða sérstakt gjald fyrir þær framkvæmdir.

Fagna Sundabraut

„Akraneskaupstaður fagnar framkominni þingsályktunartillögu um að setja Sundabraut aftur á samgönguáætlun. Lagning Sundabrautar skiptir miklu máli fyrir íbúa á Akranesi þar sem hún styttir vegalengdina til Reykjavíkur um tíu kílómetra. Þá hafa bættar samgöngur áhrif á núverandi atvinnustarfsemi og uppbyggingaráform á Akranesi og í nágrenni,“ segir í bókuninni.