[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Listi fólksins í bæjarstjórn Akureyrar fengi aðeins einn mann kjörinn ef gengið væri til kosninga í dag.

BAKSVIÐ

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Listi fólksins í bæjarstjórn Akureyrar fengi aðeins einn mann kjörinn ef gengið væri til kosninga í dag. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið. Listi fólksins hefur nú 6 bæjarfulltrúa sem er hreinn meirihluti. Fylgi hans í kosningunum árið 2010 var 45% en er nú 13,1%. Samkvæmt könnuninni dreifist þetta fylgi á aðra flokka nema Bæjarlistann sem þurrkast út og Samfylkinguna sem tapar nokkru fylgi. Mest er fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins sem fengi 23,2% atkvæða og 3 bæjarfulltrúa en hefur aðeins einn núna og var með 13,3% fylgi í sveitarstjórnarkosningunum 2010.

VG með byr í seglin

Niðurstöður könnunarinnar eru að öðru leyti þær að Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Björt framtíð eru jafnstórir flokkar, með 16,7% og 16,6% fylgi sem gefur hvorum flokki tvo bæjarfulltrúa. VG hefur einn fulltrúa í bæjarstjórn, fékk 10,4% atkvæða í síðustu kosningum, en Björt framtíð var ekki í framboði 2010.

Framsóknarflokkurinn er fjórði stærsti flokkurinn á Akureyri með 14,7% fylgi. Í kosningunum fyrir fjórum árum fékk hann 12,8% atkvæða og einn bæjarfulltrúa. Fylgið í könnuninni dugar fyrir tveimur fulltrúum.

Listi fólksins sem í dag hefur hreinan meirihluta í bæjarstjórn tapar fimm af sex fulltrúum sínum. Hrapið er mikið, úr 45% atkvæða árið 2010 sem fyrr segir í 13,1% nú.

Samfylkingin nýtur minnsts stuðnings þeirra flokka sem fá fulltrúa kjörna í bæjarstjórn samkvæmt könnuninni. Fylgi hennar er 8,7% sem dugar fyrir einum bæjarfulltrúa, en er minna en í kosningunum 2010 þegar flokkurinn fékk 9,6% atkvæða.

Píratar eiga einnig fylgi á Akureyri. 3,9% mundu styðja framboð þeirra ef kosið yrði nú. Það nægir ekki til að koma að fulltrúa í bæjarstjórn.

Bæjarlistinn sem í kosningunum 2010 fékk 8,7% atkvæða og einn fulltrúa nýtur nú aðeins stuðnings 1,2% kjósenda. Listinn fengi ekki mann kjörinn.

Þetta er önnur könnunin sem Félagsvísindastofnun gerir í vetur fyrir Morgunblaðið á fylgi flokka á Akureyri. Í könnun sem birt var 23. nóvember í fyrra voru niðurstöður mjög svipaðar og nú eins og sjá má í meðfylgjandi súluriti. Tala fulltrúa framboðslista í bæjarstjórn er óbreytt á milli kannana. Breytingar eru þær helstar að Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt úr 20,7% í könnuninni í nóvember í 23,2% nú og Samfylkingin tapar fylgi, fer úr 11% þá í 8,7%. Þá sígur Framsóknarflokkurinn aðeins niður, fer úr 15,6% í 14,7%.

Könnunin var gerð dagana 18. til 23. febrúar. Spurt var: Ef sveitarstjórnarkosningar væru haldnar á morgun, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? Tvær leiðir voru notaðar til að ná til kjósenda á Akureyri. Annars vegar var hringt í 229 manna tilviljunarúrtak úr þjóðskrá meðal fólks 18 ára og eldra. Hins vegar var send netkönnun til 371 manns úrtaks úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Alls fengust 338 svör frá svarendum á aldrinum 18 til 95 ára. Var svarhlutfall 60%. Vigtaður svarendafjöldi var sömuleiðis 338.

Konur vilja Bjarta framtíð

Þegar rýnt er í niðurstöður könnunarinnar með tilliti til kynferðis þátttakenda kemur í ljós að fylgi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er nokkru meira meðal karla en kvenna. Þessu er öfugt farið hjá Bjartri framtíð þar sem stærsti hluti stuðningsmanna er kjósenda. Ætla 27% kvenna að kjósa flokkinn en aðeins 8% karla.

Verulegur munur er einnig á stuðningi við Bjarta framtíð eftir aldri þátttakenda. Nýtur flokkurinn mests stuðnings meðal yngstu kjósendanna, á aldrinum 18 til 29 ára, eða 33%. Skipting aldurshópanna er jafnari hjá öðrum framboðum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð á flesta stuðningsmenn úr hópi kjósenda 60 ára og eldri, 25%.

Kjósendur sem aðeins eru með grunnskólanám að baki eru fjölmennastir meðal stuðningsmanna Bjartrar framtíðar og Lista fólksins. Meðal fólks með háskólamenntun nýtur Sjálfstæðisflokkurinn mests stuðnings, 27%.

Atkvæði Bæjarlistans til Sjálfstæðisflokksins

Stuðningur við flokkana skiptist einnig nokkuð eftir tekjum þátttakenda. Meðal lágtekjufólks nýtur Björt framtíð mests stuðnings, 34% Meðal hátekjufólks, fólks með 600 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun, er mestur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn, 38%, og Framsóknarflokkinn, 35%.

Athugun á því hvernig þátttakendur kusu í bæjarstjórnarkosningunum 2010 leiðir í ljós að flestir sem kusu Bæjarlistann þá, 46%, ætla núna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. 23% þeirra ætla að kjósa Framsóknarflokkinn. Þá ætla 27% þeirra sem kusu Lista fólksins síðast nú að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Athygli vekur að 22% þeirra sem kusu Samfylkinguna í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri árið 2010 styðja nú Sjálfstæðisflokkinn.

„Maður hlýtur að vera ánægður“

• „Hryllilegt,“ segir oddviti Samfylkingarinnar • „Bæjarbúar vilja skýrari sýn,“ segir oddviti VG • „Á eftir að breytast,“ segir oddviti Lista fólksins „Þetta slær mig ágætlega. Maður hlýtur að vera ánægður með þessa niðurstöðu, en vissulega vildi ég sjá hærri hlutfallstölur,“ sagði Gunnar Gíslason, nýr oddviti sjálfstæðismanna á Akureyri, þegar Morgunblaðið leitaði álits hans á niðurstöðum könnunar Félagsvísindastofnunar á fylgi flokkanna í bænum.

„Við leggjum áherslu á að ná til stærri hóps kjósenda, en þetta er betri árangur en í síðustu könnun og veruleg aukning frá kosningunum 2010. Maður gerði sér vonir um meira, en kannski er það ekki raunsætt í ljósi atburða í stjórnmálum síðustu daga, ef þeir hafa þá einhver áhrif hér,“ sagði Gunnar.

Gunnar sagði ljóst að yrðu úrslit bæjarstjórnarkosninganna í vor eins og könnunin sýnir væri ekki hægt að mynda meirihluta án þátttöku þriggja flokka. Það væri nokkru snúnara en myndun tveggja flokka meirihluta, „en það er bara verkefni sem maður færi í að leysa og held að verði ekki tiltökumál,“ sagði hann.

Gunnar Gíslason kvaðst ekki hafa skýringu á afhroði Lista fólksins sem myndar meirihluta í bæjarstjórn. „Helsta skýringin er að í síðustu kosningum hafi mikið óánægjufylgi færst yfir til listans og kannski er það að snúa aftur heim eins og sagt. Svo er stuðningur við ný framboð, Bjarta framtíð og Pírata, og það gæti haft áhrif á þetta,“ sagði hann.

Kallað eftir skýrari sýn

„Mér líst ágætlega á þessar tölur,“ sagði Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, oddviti Vinstri grænna. „Ég get ekki annað en verið ánægð með að okkar fylgi sé á uppleið. Ég trúi því að þarna sé málflutningur okkar og starf síðast liðin fjögur ár að skila sér.“

Andrea kvaðst ekki hafa skýringu á afhroði Lista fólksins. Raunar væru menn enn að reyna að átta sig á úrslitunum fyrir fjórum árum. Fylgistapið núna væri mjög mikið miðað við að listinn hefði fylgt þeirri stefnu að halda í horfinu í bæjarmálum. „Líklega eru bæjarbúar að kalla eftir skýrari framtíðarsýn en nú er,“ sagði hún. Andrea kvaðst ekki hafa áhyggjur af því að erfiðlega myndi ganga að mynda nýjan meirihluta ef þetta yrðu úrslit kosninganna. Það gæti skapað möguleika á að gera tilraun með samstarf margra flokka, ekki bara minnsta mögulega meirihluta. Hefð væri fyrir góðri samvinnu flokka á milli á Akureyri.

„Hryllilegt“

„Þetta er hryllilegt,“ sagði Logi Már Einarsson oddviti Samfylkingarinnar. „Tölurnar eru mjög slæmar og ég hef ekki aðra skýringu á þessu en að við erum ekki að ná í gegn með okkar málstað. En við getum samt ekki gert annað en að halda ótrauð áfam.“

Logi Már kvaðst ekki hafa skýringu á afhroði bæjarstjórnarmeirihlutans. „En væntanlega hefur það reynst þeim þungt í skauti að vera svona mörg óreynd með hreinan meirihluta.“ Logi taldi að ekki yrði erfitt að mynda nýjan meirihluta í bæjarstjórn ef þetta yrðu úrslitin. „En það verður þá án okkar þátttöku,“ bætti hann við.

„Þetta eru vonbrigði og allt annað en við finnum í bænum,“ sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti Lista fólksins og forseti bæjarstjórnar Akureyrar.

Úrslitin verða önnur

„Ég er alveg rólegur yfir þessu enda ennþá langt til kosninga. Við höfum ekki verið að kynna okkar lista eins og ýmsir fleiri hafa verið meira í að undanförnu. En ég er algjörlega sannfærður um að kosningarnar munu verða á allt annan veg en þessar tölur segja,“ sagði hann.

Bæjarstjórar tólf frá 1919

Bæjarstjórn hefur verið starfrækt á Akureyri frá 1863. Í nærri hálfa öld gegndi sýslumaðurinn störfum bæjarstjóra. Fyrsti bæjarstjórinn var ráðinn 1919, Jón Sveinsson. Hann gegndi starfinu til 1934 að Steinn Steinsen tók við og var til 1958. Magnús Guðjónsson var bæjarstjóri til 1967 en þá tók Bjarni Einarsson við og var til 1976. Næsti bæjarstjóri var Helgi H. Bergs til 1986. Bæjarstjóraskipti eftir það tengjast breytingum á meirihluta bæjarstjórnar. Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynduðu meirihluta 1986 og réðu Sigfús Jónsson bæjarstjóra. Árið 1990 mynduðu Alþýðubandalag og Sjálfstæðisflokkur meirihluta og réðu Halldór Jónsson bæjarstjóra. Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur mynduðu meirihluta 1994 og þá var Jakob Björnsson fyrsti bæjarstjórinn á Akureyri sem jafnframt var pólitískur leiðtogi meirihlutans. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Akureyrarlistinn mynduðu meirihluta 1998 var oddviti stærri meirihlutaflokksins, Kristján Þór Júlíusson, ráðinn bæjarstjóri. Gegndi hann starfinu til ársins 2006. Það ár varð Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri, fyrst kvenna. Hermann Jón Tómasson svo við starfinu 2009 og gegndi til loka kjörtímabilsins. Núverandi bæjarstjóri er Eiríkur Björn Björgvinsson.