[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Kannski muna einhverjir af minni kynslóð eftir sjónvarpsþáttum með nafninu sem er í fyrirsögninni hér að ofan.

Fréttaskýring

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Kannski muna einhverjir af minni kynslóð eftir sjónvarpsþáttum með nafninu sem er í fyrirsögninni hér að ofan. Hún kom allavega upp í hugann þegar þrír landsliðshópar yngri karlalandsliða Íslands í fótbolta voru skoðaðir en þeir voru tilkynntir í vikunni vegna verkefna á næstu dögum.

Í landsliðunum U21 árs, U19 ára og U17 ára eru hvorki fleiri né færri en 20 piltar sem eru á mála hjá erlendum félögum.

Tíu í U21 árs liðinu sem leikur Evrópuleik í Kasakstan næsta miðvikudag, sjö í U19 ára liðinu sem mætir Svíum í vináttulandsleikjum í Kórnum og Egilshöll á þriðjudag og fimmtudag, og þrír í U17 ára liðinu sem leikur vináttuleiki við Norðmenn í Kórnum í dag og á sunnudaginn.

Bæði yngri liðin komust í milliriðla Evrópukeppninnar og leikir þeirra á næstu dögum eru liður í undirbúningi fyrir þau verkefni. Strákarnir í 21 árs landsliðinu eru í hörkuslag um að komast í umspil fyrir úrslitakeppni Evrópumótsins og sigur í Kasakstan yrði stórt skref á leiðinni þangað.

Og það magnaða er að fjórir sem eru í 21 árs hópnum eru enn gjaldgengir í U19 ára liðið, þar með taldir báðir markverðirnir, Rúnar Alex Rúnarsson og Frederik Schram. Hlutföllin eftir aldri eru því sex, ellefu og þrír.

Eins og sjá má á kortinu til hliðar dreifast piltarnir á félög víðsvegar um Evrópu.