[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Hreystin skein af Finnunum Miikka Eskola og Sami Salmenkivi þegar blaðamaður hitti þá í gærmorgun í húsakynnum Mjólkursamsölunnar (MS) á Bitruhálsi.

Viðtal

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Hreystin skein af Finnunum Miikka Eskola og Sami Salmenkivi þegar blaðamaður hitti þá í gærmorgun í húsakynnum Mjólkursamsölunnar (MS) á Bitruhálsi. Þeir borða enda mikið af íslensku skyri en Miikka og Sami eru mennirnir á bak við gríðarlega aukið skyrát Finna. Þeir eru staddir hér á landi m.a. vegna Food and Fun matarhátíðarinnar og hlakka mikið til að bragða á öllum kræsingunum sem verða á boðstólum. Mika Leppäjärvi er líka með í för en hann situr ekki viðtalið, hefur í öðru að snúast enda mörgum erindum að sinna varðandi skyrviðskiptin í nokkurra daga stoppi þeirra hér.

Skyrævintýrið í Finnlandi hófst á skemmtilegan máta fyrir rúmum þremur árum síðan. Miikka, Sami og Mika eru með lítið markaðsfyrirtæki í Helsinki og voru þá með til hliðar smá innflutning, aðallega á mjólkurvörum. Á þessum tíma voru þeir með augun opin fyrir nýrri vöru til að koma með inn á markaðinn.

„Ég kom til Íslands í frí með þáverandi kærustunni minni. Við fórum hringveginn og ég borðaði skyr nánast allan tímann, varð bara ástfanginn af þessari vöru,“ segir Miikka glettinn og Sami bætir við söguna: „Það voru mörg símtölin sem við fengum frá honum úr fríinu um að skyrið væri hið eina rétta. Við höfðum verið að leita að sambærilegri vöru og svo fann hann hana fyrir tilviljun,“ segir Sami.

Þá fór boltinn að rúlla.

160 tonn af skyri í janúar

Þeir gerðu samstarfssamning við MS og munu framlengja hann í dvöl sinni hér á landi núna. Vöxturinn er mjög hraður. Söluaukningin hjá þeim í janúar var 220% og þeir seldu 160 tonn af skyri í janúar á móti tæpum 50 tonnum í fyrra. Búist er við að fyrirtæki þeirra, Skyr Finland Oy, nái að velta nálægt 1,5 milljörðum kr. á þessu ári. Skyrið er líka núna orðið nánast það eina sem fyrirtækið einbeitir sér að.

Skyrið sem er selt í Finnlandi er framleitt í Danmörku og á Íslandi. Í byrjun febrúar ákvað MS að fjárfesta í tækjum fyrir um 180 milljónir kr. í mjólkurbúi á Jótlandi í Danmörku, aðallega til að geta annað eftirspurn og mætt þeim mikla vexti sem er fyrirsjáanlegur í skyrsölu í Finnlandi á þessu ári.

Skyr er framleitt í Danmörku samkvæmt sérleyfi frá MS. Framleiðslan þar nam í fyrra um 1700 tonnum en með nýju vélunum gæti hún farið upp í 2.500 tonn. Áætlað er að salan í Finnlandi nemi 1.800 tonnum á þessu ári, 1.400 tonn munu koma frá Danmörku og 400 tonn frá Íslandi en það er allur tollkvóti ESB. Sala á skyri jókst um 56% á Norðurlöndunum á síðasta ári og er markaðurinn þar orðinn tvisvar sinnum stærri en á Íslandi í magnsölu.

„Varan er svo góð og passar vel inn í finnskan markað og hefur notið mikillar velgengni. Finnski mjólkurvörumarkaðurinn er mjög stór og mikil samkeppni á honum. Þess vegna bjuggumst við ekki við að skyrið yrði vinsælt svona hratt en vonuðumst auðvitað til þess,“ segir Sami og bætir við að engin ein ástæða sé fyrir vinsældunum en tíminn hafi verið réttur, neytendur að leita að próteinríkum vörum og svo sé mjúk áferð skyrsins aðlaðandi auk þess sem skyrið sé ein besta mjólkurvara í heimi.

Það tók um tvö ár fyrir skyrið að festa sig í sessi en vinsældir þess ruku upp í fyrra. Spurðir út í áframhaldið segjast Sami og Miikka ætla að stækka vörulínuna, koma inn með fleiri bragðtegundir og jafnvel hefja sölu á skyrdrykkjum.