Mögnuð Kristín Guðmundsdóttir fór gjörsamlega á kostum í undanúrslitunum í gær og skoraði 14 mörk fyrir Valskonur sem eiga titil að verja á laugardaginn.
Mögnuð Kristín Guðmundsdóttir fór gjörsamlega á kostum í undanúrslitunum í gær og skoraði 14 mörk fyrir Valskonur sem eiga titil að verja á laugardaginn. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Höllinni Pétur Hreinsson sport@mbl.is Valskonur náðu í gærkvöld þeim einstaka árangri að komast í bikarúrslit fimmta árið í röð eftir góðan sigur á liði Hauka í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins í handbolta. Urðu lokatölur 21:25.

Í Höllinni

Pétur Hreinsson

sport@mbl.is

Valskonur náðu í gærkvöld þeim einstaka árangri að komast í bikarúrslit fimmta árið í röð eftir góðan sigur á liði Hauka í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins í handbolta. Urðu lokatölur 21:25.

Haukakonur byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins en eftir það skellti hins vegar Valsvörnin í lás. Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Hauka, var að vonum svekktur eftir leik þegar blaðamaður tók hann tali. „Við vorum svolítið aumingjalegar í sókninni í dag og hvort stressið að koma í Höllina hefur verið að fara með okkur veit ég ekki, en við áttum mjög erfitt með að finna lausnir í sókninni.“

Það var einmitt tilfinning blaðamanns en Haukakonur höfðu fá svör við vörn Vals og voru oft og tíðum þvingaðar til þess að taka skot úr erfiðum færum sem öflugur markvörður Valskvenna, Berglind Íris Hansdóttir, átti ekki í vandræðum með að verja. Með hina reynslumiklu Kristínu Guðmundsdóttur í fararbroddi komust Valskonur fljótlega í þægilega fjögurra til fimm marka forustu það sem eftir lifði hálfleiks en mestur fór munurinn í fyrri hálfleik í sex mörk í stöðunni 7:13. Sjálf skoraði Kristín fjórtán mörk í leiknum og var hreint út sagt frábær.

Haukakonur höfðu verið á góðu skriði í deildinni og fyrir leikinn ekki tapað í átta leikjum í röð í bæði deild og bikar og er þar einn sigurleikur gegn Valskonum innifalinn. Hið stóra svið sem Laugardalshöllin og undanúrslit í bikar er virðast hins vegar ekki hafa farið vel í ungt lið Hauka sem kemur reynslunni ríkari úr þeim leik.

Mestur fór munurinn í níu mörk í seinni hálfleik í stöðunni 15:24 en Haukakonur neituðu hins vegar að gefast upp og 5-1 kafli þeirra þegar um tíu mínútur voru eftir gaf bæði leikmönnum og stuðningsmönnum Hauka von. Náðu þær að minnka forskot Valskvenna í fimm mörk þegar um níu mínútur voru eftir en lengra komust þær ekki og sigur Valskvenna í höfn.

Valskonur eru bikarmeistarar síðustu tveggja ára og hafa því titil að verja en þær mæta toppliði Stjörnunnar í úrslitaleik á morgun.

Haukar – Valur 21:25

Laugardalshöll, Coca Cola-bikar kvenna, undanúrslit, fimmtudag 27. febrúar 2014.

Gangur leiksins : 1:0, 2:3, 3:7, 4:9, 6:10, 8:13 , 10:15, 12:17, 14:21, 15:24, 19:25, 21:25.

Mörk Hauka : Marija Gedroit 7/2, Karen Helga Díönudóttir 4/1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 3, Ásta Björk Agnarsdóttir 2, Viktoría Valdimarsdóttir 2, Silja Isberg 1, Ragnheiður Sveinsdóttir 1, Gunnhildur Pétursdóttir 1.

Varin skot : Sólveig Björk Ásmundsdóttir 13/1.

Mörk Vals : Kristín Guðmundsdóttir 14/6, Karólína Bærhenz Lárusdóttir 8, Rebekka Rut Skúladóttir 2, Bryndís Elín Wöhler 1.

Varin skot : Berglind Íris Hansdóttir 21/1, Sigríður Arnfjörð Ólafsdóttir 2/1.

Dómarar : Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson.

Áhorfendur : 603.