Hægir á Verðbólga hefur ekki verið minni frá í ársbyrjun 2011. Matur og drykkir lækkuðu í febrúar en föt, skór, flugfargjöld og eldsneyti hækkuðu.
Hægir á Verðbólga hefur ekki verið minni frá í ársbyrjun 2011. Matur og drykkir lækkuðu í febrúar en föt, skór, flugfargjöld og eldsneyti hækkuðu. — Morgunblaðið/Ómar
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is „Við gerðum kjarasamningana á þessari forsendu, að það voru allar aðstæður til þess að við gætum náð verðbólgunni niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

„Við gerðum kjarasamningana á þessari forsendu, að það voru allar aðstæður til þess að við gætum náð verðbólgunni niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þessir kjarasamningar eru að skila kaupmætti,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í tilefni af nýrri mælingu Hagstofunnar á hækkun neysluverðsvísitölunnar í febrúar.

Verðbólgan hefur verið á hraðri niðurleið að undanförnu og mælist ársverðbólgan í febrúar 2,1%. Hún er komin niður fyrir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Benda Samtök atvinnulífsins á að þetta sé í fyrsta skipti í tvö og hálft ár sem verðbólgan mælist undir verðbólgumarkmiðinu. Í umfjöllun greiningardeildar Arion banka segir að ekki hafi mælst jafn lítil hækkun í febrúarmánuði síðan árið 2009. Lítil merki séu um verðbólguþrýsting um þessar mundir.

Lækkun verðbólgunnar var eitt meginmarkmið kjarasamninganna á almenna vinnumarkaðinum sem gerðir voru í desember. „Þetta sýnir með ótvíræðum hætti að þetta var hægt og hefur gengið eftir. Verkefnið er að viðhalda stöðugu umhverfi áfram,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Hann segir þetta jafnvel enn betri þróun en menn þorðu að vona. Þegar setið var við samningaborðið í desember töldu menn verulegar líkur á að verðbólgan gæti farið niður fyrir 2,5% í febrúar.

,,Nú hefur það gengið eftir og vel það. Þetta styður mjög vel við kjarasamningana sem gerðir voru og það markmið að þeir skiluðu raunverulegri kaupmáttaraukningu. Verkefnið fram á veginn er að tryggja að við náum að halda okkur í þessu umhverfi áfram.

Það er líka gleðiefni í þessu að við sjáum að undirliggjandi verðbólga án húsnæðis er nær engin. Það er fyrst og fremst húsnæðisliðurinn sem knýr verðbólguna áfram í þessum tólf mánaða takti og það er í sjálfu sér jákvætt fyrir verðbólguhorfur út þetta ár að krafturinn í hækkunum húsnæðisliðarins virðist vera heldur minni en gert var ráð fyrir. Það ætti að auðvelda okkur þá vinnu að halda verðbólgunni innan 2,5% marksins á komandi mánuðum,“ segir Þorsteinn.

Gylfi telur allar líkur á því að launavísitalan hækki um tæp 4% á þessu ári ef reiknaðar eru bæði umsamdar launahækkanir og undirliggjandi þættir kjarasamninga á borð við starfsaldurshækkanir. „Það þýðir þá miðað við þetta að kaupmáttaraukningin verði tæplega 2%,“ segir hann.

Gylfi segir allar forsendur fyrir því að takast megi að halda verðbólgunni vel undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans það sem eftir lifir ársins. ,,Við ætlum að reyna að festa þetta í sessi. Það er markmið aðfararsamningsins en mér finnst svolítið skorta á skýrari aðkomu stjórnvalda,“ segir hann.

Gylfi bendir á að bæði greiningaraðilar og Seðlabankinn spá auknum verðbólguþunga á árunum 2015 og 2016 sem sé mikið áhyggjuefni ef það gengur eftir.

11% hækkun flugfargjalda

Samkvæmt skýringum Hagstofunnar á breytingum neysluverðsvísitölunnar er vetrarútsölum víða lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 7,1% milli janúar og febrúar. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 11,0% (0,14% vísitöluáhrif) en verð á dagvörum lækkaði um 0,6%.

„Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,1% og vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 0,8%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,5% sem jafngildir 1,9% verðbólgu á ári (0,4% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis),“ segir í skýringum.

Húsnæðið vegur þungt

Verð á mat- og drykkjarvörum lækkaði frá því í janúar en ASÍ benti í gær á að lítið bóli þó á lækkun á innfluttum matvörum þrátt fyrir mikla gengisstyrkingu undanfarna mánuði og yfirlýsingar forsvarsmanna matvöruverslana um lækkanir á vöruverði.

Gylfi Arnbjörnsson bendir á að húsnæðisliðurinn vegur þungt eða meira en helming af þeirri breytingu sem varð á neysluverðsvísitölunni. Á 12 mánaða tímabili er hækkun hans 7,4% en líta þurfi á fleiri liði s.s. 4,6% hækkun búvara miðað við tólf mánaða tímabil og 3,7% hækkun opinberrar þjónustu.

Æði margir, s.s. opinberir aðilar, landbúnaðarkerfið o.fl. þurfi því að meta stöðu sína og ábyrgð. Menn muni eflaust sökkva sér niður í að greina hvað þarna er á ferðinni í framhaldinu.