Sigmundur Benediktsson yrkir um veðurfarið: Þurrar tíðir þorrinn bjó, þægur gekk úr hlaði. Akranes með engan snjó enn í sólskinsbaði. Þó á blíðu lítt sé lát leiðan vana kenni: Hafa skal á Góu gát, gustar oft frá henni.

Sigmundur Benediktsson yrkir um veðurfarið:

Þurrar tíðir þorrinn bjó,

þægur gekk úr hlaði.

Akranes með engan snjó

enn í sólskinsbaði.

Þó á blíðu lítt sé lát

leiðan vana kenni:

Hafa skal á Góu gát,

gustar oft frá henni.

Jón Gissurarson segir á þriðjudag, að nánast engin úrkoma hafi verið síðan fyrir jól, þótt norðanátt hafi verið ríkjandi í vetur. – „Snjór er því lítill og enginn t.d. í Hólminum. Heiðríkja hefur hefur verið undanfarna daga og því sólskin á daginn:“

Sólin vermir seim og drengi,

sífellt lengist hennar ganga.

Hér er allt í góðu gengi,

gefst því einnig margt til fanga.

Ingólfur Ómar Ármannsson sendi Vísnahorninu þessar hringhendur:

Ekkert þjakar andans mátt,

óðarkvakið glæðist

ljóðavakan lifnar dátt,

lipur staka fæðist.

Ljóða klingir hróður hér,

halir slyngir una,

óðar syngur vísnaver,

vandar hringhenduna.

Vigdís Hauksdóttir er umdeild, enda beinskeytt í sínum orðræðum. Hjálmar Freysteinsson orti:

Margt tókst Vigdísi að vinna

sem var ekki á færi hinna.

Gott dæmi er það,

hún gerði mig að

Evrópusambandssinna.

Hallmundur Kristinsson yrkir:

Frá telpunni Tinnu í Vogum

tárin þau streymdu í bogum.

Er gaman varð grátt

hún grenjaði hátt

með áköfum ekkasogum.

Jón Ingvar Jónsson er á öðrum nótum:

Veit ég bara varla hvort

versni og breytist tímar,

allir kjafta upp á sport

enda snjallir símar,

þó er sjaldan illa ort

ef það bara rímar.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is