Ragnar Sigurgeirsson fæddist á Akureyri 27. júní 1942. Hann lést á bráðamóttöku Landspítalans 18. febrúar 2014.

Foreldrar hans voru Sigurgeir Guðmundsson, f. 20. júní 1916, d. 3. október 1979, og Þóra Ingibjörg Sigurjónsdóttir, f. 7. apríl 1916, d. 13. nóvember 1966. Systkini Ragnars eru Jónína Guðbjörg, f. 2. ágúst 1937, Guðjón Ingvar, f. 30. júní 1939, Sigurjón Eðvarð, f. 8. ágúst 1940, Ingunn Elísabet, f. 18. maí 1944, Ólöf Stefanía, f. 20. júní 1945, Hildur Björk, f. 29. janúar 1947, Agnes, f. 6. desember 1948, Ragnheiður, f. 4. nóvember 1950, og Sigmundur Brynjar, f. 23. maí 1958. Barnsmóðir Ragnars var Margrét Þorláksdóttir, f. 20. desember 1940, d. 18. janúar 1990, en þau áttu saman einn son, Þorlák, f. 12. september 1961. Kona hans er Álfhildur Hjördís Jónsdóttir, f. 4. maí 1944. Dóttir þeirra er Margrét Erla, f. 10. október 1982. Fyrir átti Álfhildur 4 börn, Helenu, f. 1. janúar 1964, Björgvin Þór, f. 21. nóvember 1965, Einar Óðinn, f. 29. nóvember 1971, og Lindu Dögg, f. 27. ágúst 1974. Ragnar kvæntist hinn 3. ágúst 1963 Svanhildi Sigurðardóttur, f. 16. febrúar 1945. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Helena, f. 20. október 1962, búsett í Kaupmannahöfn. Börn hennar eru Lilja, f. 7. desember 1980, Stefán Björn, f. 15. október 1994 og Axel Örn, f. 22. janúar 1997, 2) Hjalti Þór, f. 6. apríl 1965. Kona Hjalta er Kristrún Hauksdóttir, f. 14. júní 1964. Börn þeirra eru Davíð Þór, f. 3. júní 1983, Daníel Þór, f. 14. febrúar 1985, Dagmar Ýr, f. 29. maí 1987, Svanhildur, f. 3 júlí 1989 og Danival Snær, f. 15. september 1994. 3) Andri, f. 9. apríl 1968. Kona Andra er Rósa Ólafsdóttir, f. 6. desember 1970. Börn þeirra eru Alda Björk, f. 29. júní 1996, og Arnar Logi, f. 26. janúar 2004. Eftirlifandi sambýliskona Ragnars er Lilja Tómasdóttir, f. 30. mars 1943. Dætur Lilju af fyrra hjónabandi eru Inga, f. 30. september 1966, Hrefna, f. 5. febrúar 1971, og Ásta Jóna, f. 11. maí 1977.

Ragnar ólst upp á Akureyri en dvaldi flest sumur á Kálfborgará í Bárðardal. Hann var lærður vélvirki. Ragnar flutti til Vestmannaeyja árið 1962 þar sem hann starfaði við sjómennsku, vélvirkjun og járnsmíði en lengst af starfaði hann sem vélamaður í frystihúsinu Eyjabergi. Einnig var hann með verslunarrekstur í Friðarhafnarskýlinu í fáein ár. Árið 1982 flutti hann til Reykjavíkur og hóf fljótlega störf í Álverinu í Straumsvík þar sem hann starfaði í 27 ár, en hætti þar störfum sökum aldurs. Síðstu árin var hann í hlutastarfi í heildverslun sonar síns.

Útför Ragnars fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 28. febrúar 2014 kl. 13.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Guð geymi þig, elsku pabbi, tengdapabbi og afi.

Andri, Rósa og börn.

Mágur minn og vinur, Ragnar Sigurgeirsson, er látinn eftir erfið veikindi og við vinir hans og ættingjar syrgjum óvenju góðan dreng, sem gat glatt okkur og hresst með sínu kraftmikla eðli; hressileika sem átti engan sinn líka.

Ragnar var fæddur á Akureyri og var lengi til sjós og fór til Vestmannaeyja og bjó þar um hríð. Hann var kominn í land þegar gosið mikla kom í Eyjum, en hann fór ekki til fastalandsins eins og flestir heldur varð eftir til að hreinsa og taka til og bjarga verðmætum.

Ragnar skilur eftir ótal góðar minningar um óvenju góðan og hjálpsaman dreng, sem var ekki verkhræddur og réðst á verkefnið með krafti, sem var oft samfara kunnáttu hans og verksviti. Ragnar var góður vinur vina sinna, enda vinmargur og eiga margir góðar minningar um þennan góða dreng. Ragnar hafði áveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og hafði unun af að rökræða og gerðist þá oftar en ekki andsnúinn skoðunum viðmælanda síns til að fá fram rökræður um hlutina.

Við Ragnar horfðum oft á enska boltann saman og fengum okkur stundum bjórglas og höfðum góða stund. Hann var stuðningsmaður Liverpool en ég fylgdi Man. United. Var oft glatt á hjalla hjá okkur á þessum stundum.

Rangar bjó síðustu árin á Skúlagötu 20, í íbúð sem hann keypti og gerði hlýlega eins og hans var von og vísa. Nokkrum mánuðum eftir að hann hafði keypt þessa íbúð var Ragnar kosinn í húsnefnd, því menn höfðu fljótlega uppgötvað að þar fór maður sem hafði vit á hvernig ætti að halda húsinu við og hvað þyrfti að laga og eða gera við með sem minnstum tilkostnaði. Þannig var Ragnar. Ég sakna Ragnars, en geymi ljúfar minningar um góðan dreng.

Blessuð sé minning Ragnars Sigurgeirssonar.

Gunnar Gunnarsson.