Það er smám saman verið að greiða úr blekkingarvefnum

Samfylkingin og fréttastofa „RÚV“ geta ekki sætt sig við að hafa tapað síðustu kosningum svo illa að í annála fer. Stjórnlaust æði hefur gripið báðar þessar deildir sama fyrirbæris eftir að ríkisstjórn brást loks formlega við niðurstöðum kjósenda.

Það er auðvitað mjög fróðlegt að fylgjast með óhemjuskapnum og það ættu sem allra flestir að gera. Tryllingur Samfylkingardeildarinnar er auðvitað skiljanlegri en hinnar, því að aðildin að ESB hefur verið eina mál hennar síðustu árin.

Það er velþekkt að margir verða miður sín sem missa glæpinn. Þegar það gerist að eina huggunarefnið og pólitíski björgunarhringurinn tapast í sömu andrá er ekkert undarlegt þótt andlega jafnvægið sé ekki burðugt um hríð. En það gerir svo illt verra fyrir báðar deildirnar að þær birtast þjóðinni pólitískt berrassaðar í sömu andrá. Nú er svo komið, að einungis hinir óforbetranlegu halda því enn fram að raunverulegar samningaviðræður um aðild hafi farið fram á kjörtímabilinu síðasta.

Í byrjun þess lofuðu forsprakkar hinnar tæru vinstristjórnar að samningaviðræður myndu aðeins taka 12-18 mánuði og að atkvæðagreiðsla um fullbúinn „samning“ myndi þá fara fara fram. Því var heitið að það myndi gerast árið 2012. Það reyndust blekkingar. Nú hafa sérfræðingar Hagfræðistofnunar upplýst hvað hafi verið reynt að fá fram á þessum tæpu 4 árum:

Samkvæmt samantekt um samningsafstöðu Íslands fer Ísland fram á undanþágu frá því að leggja virðisaukaskatt í kjölfar aðildar að ESB á (i) farþegaflutninga, (ii) starfsemi rithöfunda og tónskálda og (iii) útfararþjónustu svo lengi sem slíkum undanþágum er beitt í einhverju aðildarríki ESB. Jafnframt fer Ísland fram á heimild til að leggja lægri virðisaukaskatt á aðgangsgjöld að vegamannvirkjum, einkum jarðgöng, í kjölfar aðildar að ESB. Þá kemur fram í samantektinni að Ísland fari fram á fimm ára aðlögunartíma í kjölfar aðildar að ESB til að laga reglur sínar að regluverki sambandsins um heimildir ferðamanna og áhafnarmeðlima flugrekenda og skipafélaga sem koma að utan til að taka með sér áfengi og tóbak. Að endingu kemur fram í samantektinni að í samningaviðræðunum sé þörf á að fjalla um álitaefni varðandi gjaldfrjálsar verzlanir á íslenzkum flugvöllum, bæði við komu og brottför.

Þetta er nú meiri afrekalistinn! Það hefði verið meira verk fyrir ráðherrann og nefndina hans að semja um launin hennar, sem voru sjálfsagt tímabundin eins og væntanlegu undanþágurnar sem þarna var barist fyrir af hetjumóð og þrótti.

Eitt af því sem notað var til að slá ryki í augu almennings og fela fyrir honum um hvað málið snerist, var „kíkja í pakkann“-klisjan. Hún var að vísu einvörðungu ætluð almestu kjánunum. Þeim sem fara jafnan út af í fyrstu beygju. En nú hefur Hagfræðistofnun upplýst að enginn pakki var til. Það stóðu engar undanþágur til boða, nema þá í örskotsstund á meðan þjóðin var að jafna sig á að hafa verið svikin inn í sambandið. Og nú hefur verið upplýst um afraksturinn af meintu puði „samninganefndar Össurar“ eins og að framan greinir. Það hljóta margir virðulegir embættismenn í íslenska utanríkisráðuneytinu að ganga meðfram veggjunum þar þessa dagana.

Það er þeim þó vonandi huggun harmi gegn, að óleyst bráðabirgðaundanþága vegna skatts á útfararþjónustu er ekki til trafala þegar aðildarbröltið verður endanlega jarðsett í næsta mánuði.