Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Svifryksmengun í Reykjavík mældist hæst rúmlega fjórfalt meiri en hún mældist hæst í Peking miðvikudaginn 19. febrúar.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Svifryksmengun í Reykjavík mældist hæst rúmlega fjórfalt meiri en hún mældist hæst í Peking miðvikudaginn 19. febrúar. Heilbrigðisfulltrúi hjá Reykjavíkurborg bendir þó á að ólíku sé saman að jafna þar sem á Íslandi hafi þennan dag svifrykið verið mestu sandur en í Peking séu ýmis skaðleg efni í svifrykinu sem tengist iðnaði í borginni. „Það er engan veginn raunhæft að bera Reykjavík saman við Peking þegar kemur að loftmengun. Þar eru reykspúandi verksmiðjur og allt aðrar aðstæður þegar að þessu kemur,“ segir Kristín Lóa Ólafsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Svifryk mældist 2.113 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásveg klukkan 13.30 umræddan miðvikudag. Til samanburðar má nefna að á „venjulegum degi“ mælist svifryk undir 20 míkrógrömm á rúmmetra. Í Peking mældist svifrykið hæst 524 míkrógrömm á rúmmetra.

25-30% náttúrulegt svifryk

Loftgæði teljast mikil þegar sólarhringsgildi svifryks mælist 50 míkrógrömm eða minna á rúmmetra, þau eru sögð miðlungs séu þau 50-100 míkrógrömm og ef talan fer yfir 100 eru loftgæði sögð lítil. Verði styrkurinn meira en 150 míkrógrömm geta einstaklingar sem ekki eiga við vandamál í öndunarfærum að stríða fundið fyrir óþægindum.

Að sögn Kristínar er ástæða þess að svifryksmengun mældist svo mikil hinn 19. febrúar sú að mikið hefur verið saltað og sandborið í borginni miðað við undanfarin ár og að auki hafi verið mikil þurrkatíð.

Svifryksmengun er ólík eftir því hvort hún er náttúrulegs eðlis eða af mannavöldum. Því minni sem agnirnar eru því meiri er skaðsemin. Í stórum dráttum má segja að fínni svifryksagnir séu flestar af mannavöldum (frá bruna eldsneytis), en þær grófari frá náttúrulegum uppsprettum á borð við ösku úr eldgosum. Svifryksagnir eru ekki aðeins ólíkar hvað stærð varðar. Eiginleiki agnanna er breytilegur eftir uppruna þeirra. Könnun á samsetningu svifryks sýnir að að öllu jöfnu komi 25-35% svifryks í Reykjavík frá náttúrulegum uppsprettum. Svifryk af mannavöldum kemur frá allri starfsemi, en mest frá eldsneytisbruna, umferð og iðnaði.

Svifryk

2.113

Hæsta gildi svifryks í Reykjavík

í míkrógrömmum /m 3 19. febrúar.

524

Hæsta gildi svifryks í Peking

í míkrógrömmum /m 3 19. febrúar.

20

Meðalsólarhringsgildi í Reykjavík

í míkrógrömmum /m 3 .