28. febrúar 1986 „Glæsilegasti sigur íslensks handknattleiksliðs,“ segir í fyrirsögn Morgunblaðsins eftir að Ísland vinnur fjórfalda heimsmeistara Rúmeníu, 25:23, í ævintýralegum leik á heimsmeistaramóti karla í Sviss.

28. febrúar 1986

„Glæsilegasti sigur íslensks handknattleiksliðs,“ segir í fyrirsögn Morgunblaðsins eftir að Ísland vinnur fjórfalda heimsmeistara Rúmeníu, 25:23, í ævintýralegum leik á heimsmeistaramóti karla í Sviss. Einar Þorvarðarson ver vítakast undir lokin og Guðmundur Þ. Guðmundsson tryggir sigurinn með marki úr hraðaupphlaupi. Atli Hilmarsson og Kristján Arason skora 6 mörk hvor og Ísland kemst áfram í milliriðil á mótinu.

28. febrúar 1988

Daníel Hilmarsson hafnar í 24. sæti af 107 keppendum í svigi karla á vetrarólympíuleikunum í Calgary í Kanada. Það er besti árangurinn hjá þeim þremur Íslendingum sem taka þátt í leikunum.

28. febrúar 1998

Vala Flosadóttir fær bronsverðlaun í stangarstökki á Evrópumótinu í frjálsíþróttum innanhúss í Valencia á Spáni. Hún stekkur 4,40 metra en nær ekki að verja Evrópumeistaratitilinn og missir heimsmetið í síðasta stökki mótsins þegar Anzhela Balakhonova frá Úkraínu fer yfir 4,45 metra.