Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur komið til móts við óskir Landssambands smábátaeigenda með því að afnema tímabilaskiptingu á VS-afla ýsu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur komið til móts við óskir Landssambands smábátaeigenda með því að afnema tímabilaskiptingu á VS-afla ýsu. Breytingin rýmkar til fyrir útgerðum varðandi ýsu sem meðafla með því að hafa allt árið undir, en ekki að miða heimildina við heildarafla hvers ársfjórðungs.

Af VS-afla renna 80% til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins, en 20% til áhafnar og útgerðar. Nú má tilgreina ýsu sem VS-afla allt að 5% ofan á heildarafla ársins án tillits til tímabila kjósi skipstjóri að nýta VS-aflaheimild skipsins þannig, segir á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda, LS. Ársfjórðungs-tímabilin gilda áfram fyrir aðrar tegundir ef undan er skilin grásleppuveiði. Þar miðast heimildin einnig við heildarafla innan ársins líkt og nú gildir um ýsu.

LS fór þess á leit við ráðherra fyrr í vetur að aflaheimildir í ýsu yrðu auknar um fimm þúsund tonn, en við því hefur ráðherra ekki orðið. Ýsa hefur á síðustu árum í auknum mæli fært sig norður fyrir land, en á því svæði eiga margar útgerðir lítið af aflaheimildum í tegundinni.