Fjarvera Þorgerður Anna Atladóttir spilar ekki næstu mánuðina.
Fjarvera Þorgerður Anna Atladóttir spilar ekki næstu mánuðina. — Morgunblaðið/Eva Björk
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Þorgerður Anna Atladóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur glímt við erfið meiðsli í öxl.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Þorgerður Anna Atladóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur glímt við erfið meiðsli í öxl. Hún hefur ekkert getað spilað með norska úrvalsdeildarliðinu Flint-Tönsberg síðan í nóvember og ljóst er að hún spilar ekkert meira með liðinu á tímabilinu.

„Ég bara komin til Arnórs bróður míns í Frakklandi og nýti tímann þar til að halda öxlinni í ró og hugsa um eitthvað annað. Ef öxlin verður í lagi í ágúst verð ég áfram með Flint en ef ekki er allt óljóst. Ég þarf að sjá hversu mikið öxlin þolir. Ég fór í aðgerð í maí sem hjálpaði mér lítið. Ég hef prófað allt nema að hvíla til lengri tíma þannig að ég verð að gera það til að eiga einhverja möguleika til að verða betri og byrja að spila og æfa almennilega sem ég hef ekki getað gert í rúmt eitt og hálft ár,“ sagði Þorgerður Anna við Morgunblaðið en hún gekk í raðir Flint-Tönsberg í apríl á síðasta ári frá Val. Liðið er langneðst í deildinni með aðeins 2 stig eftir 18 leiki en Brynja Magnúsdóttir leikur einnig með liðinu.

Þorgerður verður því ekki með íslenska landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins en liðið á eftir að spila fjóra leiki. Ísland mætir Frakklandi tvívegis í næsta mánuði og mætir síðan Slóvakíu og Finnlandi í júní.