Frumkvöðlar Auðunn Bjarni Ólafsson, Bjarni Tómasson og Svanur Guðmundsson kynna litlar og hagkvæmar íbúðir sem þeir telja að gætu orðið valkostur á leigumarkaðnum. Íbúðirnar eru byggðar inni í gámum.
Frumkvöðlar Auðunn Bjarni Ólafsson, Bjarni Tómasson og Svanur Guðmundsson kynna litlar og hagkvæmar íbúðir sem þeir telja að gætu orðið valkostur á leigumarkaðnum. Íbúðirnar eru byggðar inni í gámum. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þörfin er mikil. Fjöldi fólks er að leita sér að litlum og ódýrum íbúðum til leigu eða kaups þar sem það hefur ekki tryggingar eða tekjur til að leigja stærra,“ segir Svanur Guðmundsson, löggiltur leigumiðlari.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þörfin er mikil. Fjöldi fólks er að leita sér að litlum og ódýrum íbúðum til leigu eða kaups þar sem það hefur ekki tryggingar eða tekjur til að leigja stærra,“ segir Svanur Guðmundsson, löggiltur leigumiðlari. Hann stendur að tilraunaverkefni um notkun á stöðluðu byggingarefni gáma til að byggja litlar og ódýrar íbúðir.

Fyrirtækin PPP Housing ehf. og Smáíbúðir ehf. hafa hannað nýjan valkost á leigumarkaði, í samvinnu við verkfræðistofu og byggingafyrirtæki, og kynntu sýningaríbúð fyrir sveitarstjórnarfólki og fleirum í gær.

Verðlaunatillaga í Sviss

Hugmyndin að innrétta íbúðir innan í gámum kemur frá Högna Auðunssyni sem er að ljúka námi í hótel- og veitingastjórnun í Sviss. Upphaflega var ætlunin að nota gámaeiningarnar til hjálparstarfs í löndum á Balkanskaganum þar sem hann vinnur með föður sínum, Auðuni Bjarna Ólafssyni. Unnið er að þróun verkefnisins úti í Sviss þar sem viðskiptaáætlun sem Högni og félagar hans gerðu hefur verið verðlaunuð.

Auðunn Bjarni er að koma hugmyndinni í framkvæmd hér heima í samvinnu við Svan Guðmundsson leigumiðlara sem sér þetta sem hluta af lausn mikils húsnæðisvanda á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Svanur bendir á að lítið hafi verið byggt af íbúðarhúsnæði frá hruni og nú sé mesti krafturinn í byggingu hótela. Hann bætir því við að sífellt fleiri íbúðir séu leigðar ferðafólki.

„Við fáum 5-6 þúsund ungmenni á hverju ári inn á markaðinn. Það er ekkert húsnæði til fyrir þetta fólk,“ segir Svanur. Hann segir sárt að horfa upp á vandræði fólks sem til hans kemur í leit að húsnæði. Hann bætir því við að þótt strax yrði ráðist í byggingu hefðbundins fjölbýlishúss tæki það að minnsta kosti eitt og hálft ár að koma því í notkun.

„Með smáíbúðunum getum við komið með nokkuð margar íbúðir á fáeinum mánuðum,“ segir Svanur.

Íbúðirnar eru 27 og 35 fermetrar að stærð, eða eins litlar að hægt er að hafa, samkvæmt byggingareglugerð. Raunar þyrfti að fá undanþágu til að hafa snyrtingu heldur minni en reglur kveða á um, til þess að losna við að fara í kostnaðarsamari tilfæringar.

Einingarnar eru byggðar innan í 40 feta gámum og hægt að hífa saman og gera að fjölbýlishúsi, til dæmis 3ja hæða húsi með samtals 34 íbúðum. Gert er ráð fyrir að þau verði með utanáliggjandi stigaganga og lyftuhús.

Vegna lögunar gámanna eru íbúðirnar langar og mjóar en þegar inn er komið er ekkert sem minnir á að þær séu byggðar innan í gámi. „Allt sem við gerum miðast við að þetta er íbúð sem fólk vill búa í. Þetta þarf að vera vel gert og hagkvæmt því við ætlum að leigja þessar íbúðir út og viljum ekki þurfa að standa í stöðugum viðgerðum,“ segir hann. Valið er vistvænt byggingarefni og hugað að orkusparnaði. Ytra byrðið, gámastálið, er vitaskuld úr gámum sem lokið hafa hlutverki sínu við vöruflutninga.

Samstarf við sveitarfélög

Auðunn Bjarni vonast til að samstarf geti tekist við sveitarfélög um að koma upp smáíbúðum þar sem þörfin er mest. Hann bendir á að fjölbýlishús hafi verið byggð með þessum hætti um allan heim og sífellt sé verið að framlengja tímann því íbúarnir og stjórnendur í borgunum vilji ekki missa þær og það mannlíf sem fylgi.

80 þúsund kr. á mánuði

Stefnan er tekin á að leigja 27 fermetra íbúðirnar út á 80 þúsund krónur á mánuði. Svanur Guðmundsson tekur þó fram að stofnkostnaður sé umtalsverður og leiguverðið ráðist að hluta af þeim tíma sem íbúðirnar fái að standa. Hún verði hærri ef afskrifa þurfi stofnkostnaðinn á fáum árum.

Einingarnar eru þannig að hægt verður að færa íbúðirnar til ef aðstæður breytast. Þær er hægt að reisa á skömmum tíma þar sem þörfin er mest, benda stjórnendur PEP Housing og Smáíbúða á. Hentugt getur verið að nota þær á svæðum sem ekki er lokið við að deiliskipuleggja.