Halldór Gunnar Stefánsson húsgagnasmíðameistari fæddist á Arnarstöðum, Norður-Þing., 11. mars 1923. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 13. febrúar 2014.

Útför Halldórs Gunnars fór fram frá Hallgrímskirkju 21. febrúar 2014.

Hann er látinn hinn mikli öðlingur, vinur minn Halldór, heimilismaður á Hrafnistu. Halldór var sérstaklega ljúfur og góður maður, alltaf hress og kátur, hann kom mér alltaf í mitt besta skap, hvar sem ég hitti hann á göngum Hrafnistu í Reykjavík, en þar vann ég sem vaktmaður. Við horfðum oft saman á sjónvarpið með Sigga tengdasyni hans þegar það var leikur með Manchester United, enda allir aðdáendur þess ágæta félags. Halldór var mikill dansari, gleðimaður og hrókur alls fagnaðar. Honum þótti afskaplega gaman að dansa og naut sín á gólfinu með hattinn sinn við allskonar uppákomur, t.d. þorrablót, bjórkvöld, jólafagnaði og margt fleira á meðan heilsan hans var upp á sitt besta.

Ég gæti skrifað miklu meira um þennan góða mann þótt kynni okkar hafi ekki verið ekki löng.

Um leið og ég votta hans nánustu mína dýpstu samúð, kveð ég þennan góða mann með þessu ljóði. Blessuð sé minning hans.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Baldvin E. Albertsson