Á verðlaunapalli Kristófer tekur við verðlaunum fyrir besta árangur í stórsvigi.
Á verðlaunapalli Kristófer tekur við verðlaunum fyrir besta árangur í stórsvigi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Mér finnst allt skemmtilegt við að skíða; snjórinn, fara hratt, vinirnir og auðvitað er alltaf gaman að vinna,“ segir Kristófer Berglindarson, þrettán ára skíðakappi í Frakklandi.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Mér finnst allt skemmtilegt við að skíða; snjórinn, fara hratt, vinirnir og auðvitað er alltaf gaman að vinna,“ segir Kristófer Berglindarson, þrettán ára skíðakappi í Frakklandi. Hann er mjög efnilegur á skíðum, hefur náð góðum árangri á erlendri grundu og sankað að sér fjölda verðlauna. Um síðustu helgi vann hann til átta verðlauna á enska meistaramótinu í Bormio á Italíu. Þar var hann einnig bestur keppenda yngri en 14 ára og deildi þeim verðlaunum með öðrum sem var jafnhár að stigum. Þá er hann í hópi 130 drengja í Frakklandi sem eru með þátttökurétt á stórmótum.

Glímt við meiðsli

Meiðsli hafa þó sett strik í reikninginn hjá Kristófer. Fyrir nokkrum árum handleggsbrotnaði hann illa. Þá töldu læknar að jafnvel myndi handleggurinn hætta að vaxa. En betur fór en á horfðist. Þá viðbeinsbrotnaði hann fyrir tæpu ári en hefur nú náð fullum styrk enda duglegur að borða hollan mat og er einbeittur í að koma sér í gott form.

Kristófer hefur verið búsettur utan landsteinanna frá þriggja ára aldri. Á sumrin býr hann í Englandi og á veturna í Frakklandi þar sem hann æfir með skíðaklúbbi. Hann æfir stíft til að verða betri á skíðum. Fjölskyldan ákvað að flytjast yfir vetrartímann til Frakklands, m.a. með það fyrir augum að Kristófer gæti stundað skíðaíþróttina af kappi. Hann situr á frönskum skólabekk yfir vetrartímann. „Þetta er mjög erfitt því ég tala ekki frönsku en ég geri mitt besta. Hlusta á kennarana, geri fleiri verkefni til að ná mér upp og það virkar mjög vel.“

Íslenskar skíðabrekkur góðar

Í fyrra kom hann til Íslands og keppti í fyrsta skipti á íslensku skíðamóti með prýðisárangri. „Það kom mér á óvart hversu góðar skíðabrekkurnar voru á Íslandi. Það var rosalega gaman að keppa á Andrésar andar-leikunum,“ segir Kristófer. Hann langar mikið að taka þátt í þeim næstu. Þrátt fyrir ungan aldur er Kristófer kominn með styrktaraðila sem eru að stórum hluta íslensk fyrirtæki með starfsemi sína í Englandi. Þetta eru m.a.: Samskip, Seagold, Lýsi, Atlantic Fresh, jhs, Northcoast Seafood, Samskip, Wow og Lopi.

Skíðaáhuginn ristir djúpt. Hann segir að ef hann verði ekki í fullri vinnu við að skíða í framtíðinni langi hann að verða læknir. „En ég þarf ekki að hugsa um það núna, bara að hugsa um að skíða eins hratt og vel eins og ég get og vona að það takist hjá mér.“

Kristófer fór í fyrsta skipti á skíði 7 ára gamall og það var fyrir hreina tilviljun. „Ég fór með ömmu og frænku minni sem var á snjóbretti. Um leið og ég kom á skíðasvæðið og prufaði að skíða þá elskaði ég þetta og vissi að ég vildi bara skíða,“ segir hann glaðlega.

Kristófer gat ekki gefið sér lengri tíma til að spjalla því hann þurfti að haska sér á æfingu. Hann lofaði þó að fara varlega í brekkunum því að hans sögn þá er þetta nokkuð hættulegt sport en algjörlega þess virði.