Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: "Þýðing menntunar, hvort sem hún á sér stað innan vinnustaðar eða skóla, er mikilvægari en nokkru sinni fyrr, hvort sem litið er til atvinnulífsins eða samfélagsins í heild."

Menntadagur atvinnulífsins verður haldinn mánudaginn 3. mars n.k á Hótel Hilton Nordica. Er það í fyrsta sinn sem SI, SAF, SVÞ, Samorka, LÍU, Sf og SFF standa sameiginlega að slíkum degi en þau eru öll aðildarfélög að Samtökum atvinnulífsins. Kannski tímanna tákn því hagsmunir alls atvinnulífsins til menntakerfisins eru í grunninn sameiginlegir og ríkir.

Stóra myndin um öflugt menntakerfi sem býður upp á sveigjanleika og fjölbreytni á öllum skólastigum, kröftuga framhaldsfræðslu og nám við hæfi fyrir einstaklinga og fyrirtæki, er sameiginlegt baráttumál. Öflugri leskunnátta barnanna okkar, sterkari kennaramenntun, minna brottfall og öflug iðnmenntun er liður í þessu og styður við atvinnulífið, svo fátt eitt sé nefnt.

Sama er hvort rætt er um fyrirtæki í sjávarútvegi, iðnaði, verslun, ferðaþjónustu eða fiskvinnslu, þá skiptir miklu að nýta tækifærin til að hækka menntunarstig innan fyrirtækjanna sjálfra en einnig að til staðar verði menntakerfi sem komi til móts við sífellt fjölbreyttari þarfir atvinnulífsins. Mikilvægt er að reynsla og hæfni í atvinnulífinu verði metin með formlegum hætti.

Mörk atvinnugreinanna eru óljósari en áður. Hvenær er t.d. snyrtivara unnin úr sjávarfangi afurð sjávarútvegs, iðnaðar eða hönnunar og hvenær er hún verslunarvara sem ýtir undir fjölbreytt íslenskt vöruúrval fyrir ört vaxandi ferðaþjónustu?

Dagskráin, menntaverðlaun og yfirmaður menntamála hjá OECD

Dagskrá Menntadagsins verður fjölbreytt. Dr. Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá OECD, mun fara m.a. yfir hæfni og þekkingu starfsmanna og hvaða áhrif þeir þættir geta haft á fyrirtækin og líf starfsmanna í samhengi við niðurstöður OECD-könnunar á grunnleikni fullorðinna, nefnd PIAAC. Hann er einnig þekktur fyrir að kynna löndum PISA niðurstöður og álykta út frá þeim; ályktanir sem mikilvægt er að hið opinbera ásamt Kennarasambandinu og atvinnulífinu fari vel yfir með framtíðarhagsmuni að leiðarljósi.

Á Menntadeginum verður einnig kynnt rannsókn sem gerð var af hálfu Rannsóknar og greiningar um vilja unga fólksins og áhrifavalda á námsvali nemenda. Forystufólk úr atvinnulífinu mun m.a. fjalla um samspil menntakerfis og atvinnulífs, mikilvægi iðn- og verkmenntunar og hvernig markviss menntastefna hefur eflt fyrirtæki eins og innan ferðaþjónustunnar. Á Menntadegi atvinnulífsins verða í fyrsta sinn veitt menntaverðlaun atvinnulífsins. Annars vegar verður Menntafyrirtæki atvinnulífsins útnefnt og hins vegar verður Menntasproti atvinnulífsins veittur. Samtals eru átta fyrirtæki tilnefnd til verðlauna en þau koma úr ólíkum atvinnugreinum. Verðlaunin afhendir nýsköpunar- og atvinnuvegaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir. Í mörgum íslenskum fyrirtækjum fer fram gríðarlega mikið fræðslustarf og uppbygging menntunar. Er ánægjulegt að fylgjast með miklum metnaði af hálfu fyrirtækja vítt og breitt um landið á þessu sviði. Þeirri uppbyggingu er vert að veita eftirtekt og styðja.

Þýðing menntunar, hvort sem hún á sér stað innan vinnustaðar eða skóla, er mikilvægari en nokkru sinni fyrr, hvort sem litið er til atvinnulífsins eða samfélagsins í heild. Menntaumræðan sem nú fer fram í samfélaginu – og jafnvel kraumar – er fagnaðarefni. Í þeirri umræðu og stefnumörkun mun atvinnulífið leggja sitt lóð á vogarskálarnar, í þeirri sameiginlegu sýn okkar að gera íslenskt atvinnulíf og samfélag fjölbreyttara og samkeppnishæfara.

Höfundur er forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins.

Höf.: Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur