Rúmgóður Júlíus Vífill segir salinn bæði glæsilegan og hentugan.
Rúmgóður Júlíus Vífill segir salinn bæði glæsilegan og hentugan. — Morgunblaðið/Kristinn
Sjálfstæðismenn í borginni vilja kanna þann möguleika hvort nýta megi borgarstjórnarsalinn í Ráðhúsi Reyjavíkur sem sýningarsal fyrir fornrit þjóðarinnar yfir sumartímann.

Sjálfstæðismenn í borginni vilja kanna þann möguleika hvort nýta megi borgarstjórnarsalinn í Ráðhúsi Reyjavíkur sem sýningarsal fyrir fornrit þjóðarinnar yfir sumartímann. „Það er alveg ljóst í mínum huga að það er ekkert því til fyrirstöðu af hálfu borgarinnar að bjóða fram salinn,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti sjálfstæðismanna, um hugmyndina.

Í tillögu sjálfstæðismanna, sem Júlíus Vífill lagði fram á borgarráðsfundi í gær, er lagt til að Reykjavíkurborg bjóði salinn endurgjaldslaust fyrir sumarsýningu á handritunum þá mánuði þegar borgarstjórnarfundir falla niður og jafnvel lengur, enda geti borgarstjórn haldið fundi sína tímabundið á öðrum stað, ef svo ber undir.

Bókmenntaborg

„Ég verð mjög var við það að talað sé um að það sé mjög undarlegt að þjóð sem byggir arfleifð sína á handritunum og sögunum skuli hvergi sýna þau. Og auðvitað tek ég undir það. Mjög stór hluti ferðamanna sem hingað koma er meðvitaður um þessa sögu,“ segir Júlíus Vífill og bætir því við að líklega hafi alltof fáir Íslendingar barið handritin augum.

Júlíus Vífill segir eðlilegt að Reykjavíkurborg leitist við að standa undir því að vera bókmenntaborg UNESCO. Borgarstjórnarsalurinn sé bæði glæsilegur og hentugur, t.d. hvað varðar öryggi, og sjálfsagt að skoða þann möguleika að nota hann undir sýningar á menningararfinum. holmfridur@mbl.is