Áræðin Esther Viktoría Ragnarsdóttir brýst í gegnum vörn Gróttu í gær. Hún skoraði þrjú marka Stjörnunnar sem mætir Val í úrslitaleik bikarsins.
Áræðin Esther Viktoría Ragnarsdóttir brýst í gegnum vörn Gróttu í gær. Hún skoraði þrjú marka Stjörnunnar sem mætir Val í úrslitaleik bikarsins. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Höllinni Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Stjarnan þurfti að hafa fyrir því að tryggja sér sæti í úrslitaleik Coca Cola-bikarkeppni kvenna í handknattleik í gær, en liðið vann þá sprækt lið Gróttu með þriggja marka mun, 29:26.

Í Höllinni

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Stjarnan þurfti að hafa fyrir því að tryggja sér sæti í úrslitaleik Coca Cola-bikarkeppni kvenna í handknattleik í gær, en liðið vann þá sprækt lið Gróttu með þriggja marka mun, 29:26.

Stjarnan lenti undir á fyrstu mínútum leiksins en eftir að þær komust yfir litu þær aldrei til baka. Munurinn var þrjú mörk í hálfleik, 16:13, og þrátt fyrir að ná sex marka forskoti í síðari hálfleik komu Gróttustúlkur grimmar til baka undir lokin og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk á ný. Þá var það hins vegar orðið heldur seint að ætla að koma með draumaendurkomuna.

Þær geta sannarlega þakkað markverði sínum, henni Írisi Björk Símonardóttur, fyrir að halda sér inni í leiknum. Hún fór á kostum og það ekki í fyrsta sinn á ferlinum, varði 23 skot í markinu og var þeirra besti leikmaður. Stalla hennar í marki Stjörnunnar, Florentina Stanciu, var hins vegar enginn eftirbátur og varði 19 skot. Það var líkt og þær væru að espa hvor aðra upp þvert yfir völlinn. Íris hafði betur í þeirri orustu en Florentina í stríðinu sjálfu.

Stjarnan var skrefinu framar ef frá eru taldar fyrstu mínúturnar. Liðið refsaði grimmt fyrir minnstu mistök með Sólveigu Láru Kjærnested fremsta í flokki, en hún skoraði níu marka liðsins. Heilsteypt vörn allan tímann skipti líka sköpum fyrir framan Florentinu og það er ekki að undra að liðið sé á toppi deildarinnar. Reynslan innan liðsins er gífurleg og hún skildi liðin að í leiknum. Þær verða að teljast líklegar í úrslitaleiknum á laugardag enda einungis tapað einum leik í vetur og stefna klárlega á alla þá titla sem eru í boði. Annað væri líka ekki hægt með þennan leikmannahóp.

Leikmenn Gróttu geta þó alveg borið höfuðið hátt eftir leikinn. Þær misstu dampinn á slæmum tíma um miðbik leiksins þar sem illa gekk að halda boltanum innan liðsins en fyrir utan það létu þær baráttuna aldrei af hendi. Viljinn var fyrir hendi en það vantaði kannski svolítið upp á reynsluna. Það kemur allt saman. Gróttuliðið er ungt en gríðarlega efnilegt og getur sannarlega byggt á þessum leik fyrir framhaldið.