Þórhallur Bjarnason
Þórhallur Bjarnason
Eftir Þórhall Bjarnason: "Hagkvæmast er eins og nú er gert að niðurgreiðslan komi til frumframleiðanda, í þessu tilviki bónda."

Í ljósi umræðu síðastliðinna daga um innflutning á matvælum vilja íslenskir bændur benda á að það er partur af sjálfstæði þjóðarinnar að framleiða mat og nýta þær matarauðlindir sem við eigum, eins og aðrar auðlindir. Aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru seld á milli ríkja. Hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði. Almennt framleiða þjóðir langmest af sínum mat heimafyrir.

Nægt framboð innlendra matvæla

Stuðningur við landbúnaðarframleiðslu á sér langa sögu hérlendis og hefur verið framkvæmdur með ólíkum aðferðum, en megintilgangurinn hefur verið sá sami: Að stuðla að nægu framboði innlendra matvæla á hóflegu verði fyrir neytendur. Hið opinbera beitir sömu aðferðum við að greiða niður margvíslega aðra starfsemi eða þjónustu svo sem mennta- og menningarstarfsemi, velferðarþjónustu, samgöngur og fjölmargt annað. Notendur greiða þá mun minna fyrir þjónustuna en hún raunverulega kostar og er það tekið úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Það er einfaldlega talið sanngjarnara og hagkvæmara. Innlend matvæli kosta með þessum aðferðum mun minna en þau myndu annars gera. Hagkvæmast er eins og nú er gert að niðurgreiðslan komi til frumframleiðanda, í þessu tilviki bónda. Niðurgreiðslan gerir honum kleift að selja vöruna frá sér á lægra verði en ella. Það hefur svo áhrif í gegnum alla virðiskeðjuna því álagning er jafnan hlutfallsleg bæði á heild- og smásölustigi. Bæði sölustigin myndu því taka meira til sín ef bóndinn þyrfti að selja vöruna frá sér á hærra verði. Ef allar niðurgreiðslur yrðu lagðar af og færu út í vöruverðið má af þeim sökum ætla að neytendur þyrftu að greiða meira fyrir sömu vörur í formi hækkaðs vöruverðs en þeir greiða nú í gegnum skattkerfið.

Einstakar aðstæður hérlendis

Íslenskur landbúnaður hefur náð miklum árangri á undanförnum árum og framleiðslan hefur aukist. Mjólkurframleiðslan hefur þróast hratt, loðdýrabændur hafa náð mjög góðum árangri bæði hvað varðar verð og gæði, ásamt garðyrkjubændum, útflutningur á lambakjöti gengur vel auk þess sem innlend eftirspurn hefur aukist verulega og ferðaþjónustan er ört stækkandi atvinnugrein, svo dæmi séu tekin. Aðstæður okkar til matvælaframleiðslu eru einstakar, þó að þær geti líka verið óblíðar. Gæðin eru á hverju strái eins og einstök náttúra, gott landrými og gnægð af hreinu vatni. Í íslenskri matvælaframleiðslu er notað einstaklega lítið af sýklalyfjum og engin vaxtarhormón. Við erum líka svo lánsöm að hér eru einstaklega fáir dýrasjúkdómar.

Landbúnaður byggist á nýtingu landsins með það að leiðarljósi að landið geti til frambúðar skapað verðmæti án þess að gengið sé á það. Landið er ekki til bara til þess að vera til. Það þarf að hlúa að því, hvort sem vinna á af því jarðargróða, njóta þess til útivistar eða nýta það til orkuöflunar. Það þarf að nýta landið á sem bestan hátt, þannig að það verði betra á eftir og þannig að núverandi kynslóðir geti haft betri not af því.

Matvælaöryggi og gæði

Bændur eru öflugustu fulltrúar sinnar stéttar. Meginhluti innlendrar búvöruframleiðslu kemur frá litlum fjölskyldubúum og fer á innanlandsmarkað. Strangar kröfur eru gerðar til heilbrigðis, hreinleika og rekjanleika matvælanna og fer íslensk matvælaframleiðsla fram undir ströngum stöðlum og því eru vörurnar með þeim bestu í heimi hvað varðar gæði og matvælaöryggi. Neytendur þekkja aðstæðurnar sem varan er framleidd við og gæði afurðanna er eins og best verður á kosið. Mikil vakning hefur orðið meðal neytenda undanfarin ár að kaupa matvæli sem framleidd eru í heimabyggð enda hefur umhverfið gott af því að matvælin hafi ekki ferðast heimshluta á milli áður en þau lenda í íslenskum stórmörkuðum.

Um 12 þúsund störf tengjast landbúnaði

Íslenskur landbúnaður er mikilvægur fyrir efnahagslíf þjóðarinnar og fjöldi starfa tengist landbúnaði. Framleiðsluverðmæti greinarinnar er nú metið á 61,5 milljarða króna, það jafngildir tæpum 170 milljónum á dag, alla daga ársins. Um 4800 störf eru í greininni, þar af um 700 á höfuðborgarsvæðinu. Mun fleiri störf eru þó í tengdum greinum sem byggjast á landbúnaði eins og afurðastöðvar, sölufyrirtæki, vélasalar, fóður- og sáðvörusalar, dýralæknar og fjölmargir aðrir sem þjónusta greinina á einn eða annan hátt. Með þeim meðtöldum má áætla að störfin séu nær 12 þúsund sem tengjast landbúnaði. Það munar um slíkt.

Höfundur er garðyrkjubóndi og stjórnarmaður hjá Bændasamtökum Íslands.