Sterk Selma með krökkum sem hún heimsótti í Ingunnarskóla, en hún nær mjög vel til barnanna.
Sterk Selma með krökkum sem hún heimsótti í Ingunnarskóla, en hún nær mjög vel til barnanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þær vilja breyta tungutakinu og hætta að tala um einstaklinga sem eru lagðir í einelti sem þolendur, þær vilja frekar tala um þá sem virka gerendur sem hafa hæfni til að bregðast við einelti og takast á við það á uppbyggilegan hátt.

Þær vilja breyta tungutakinu og hætta að tala um einstaklinga sem eru lagðir í einelti sem þolendur, þær vilja frekar tala um þá sem virka gerendur sem hafa hæfni til að bregðast við einelti og takast á við það á uppbyggilegan hátt. Þær vilja snúa umræðunni við, vegna þess að gerendurnir eru í raun þolendur.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við erum sjö vinkonur sem höfum hist á hverjum einasta fimmtudegi í tólf ár. Við erum allar með bakgrunn í skólamálum og okkar helsta áhugamál er skólamál, líðan og velferð barna og unglinga. Við stofnuðum fagfélagið erindi.is sem hefur staðið fyrir fyrirlestrum í grunnskólum,“ segir Svandís Sturludóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Ingunnarskóla. „Selma Hermannsdóttir er frábær stelpa, en hún fæddist með skarð í vör og hefur orðið fyrir miklu einelti. Hún hefur á okkar vegum heimsótt grunnskóla og sagt frá reynslu sinni, hvernig hún vinnur úr eineltinu og hvernig hún leggur til að krakkarnir svari fyrir sig. Hennar leið er að svara hatri með ást.“

Viljum virkja feður

Fagfélag þeirra vinkvenna býður einnig upp á fyrirlestur fyrir foreldra, þar sem Hermann, faðir Selmu, segir frá sinni reynslu, en hann sem uppalandi leggur áherslu á að Selma sé sigurvegari en ekki fórnarlamb. „Við viljum breyta tungutakinu og hætta að tala um einstaklinga sem eru lagðir í einelti sem þolendur, við viljum frekar tala um þá sem virka gerendur sem hafa hæfni til að bregðast við einelti og takast á við það á uppbyggilegan hátt. Við viljum snúa umræðunni við, vegna þess að gerendurnir eru í raun þolendur, þeir eru með slaka sjálfsmynd. Við viljum styðja gerendur við að komast út úr hlutverki sínu með reisn og byggja upp styðjandi viðhorf til þeirra í stað þess að líta á þá sem meinsemd í hópi jafnaldra sinna. Við viljum líka virkja feður, að þeir séu meira sýnilegir í aðgerðum gegn einelti.“ Svandís segir að þær vilji líka bjóða upp á fyrirlestra Hermanns fyrir foreldra barna á leikskólastigi. „Því fyrr því betra. Allskonar viðhorf mótast hjá börnum strax í leikskólum, sem þau taka með sér í grunnskólann.“

Að svara fyrir sig

Svandís segir að við þurfum að kenna börnum okkar að svara fyrir sig með því að standa með sér. „Ekki með því að valta yfir næsta mann. Þau þurfa að marka sér stað og gefa skýr skilaboð um að þau láti ekki valta yfir sig. Það er hægt að svara fyrir sig á kurteislegan hátt, það þarf ekki að fara niður á sama lága planið og sá sem leggur í einelti er á.“ Svandís leggur áherslu á að foreldrar eigi ekki að standa fyrir framan börn sín til að verja þau. „Þeir þurfa að standa við hlið þeirra eða fyrir aftan þau, styrkja þau og byggja þau upp svo þau geti tekist á við einelti eða annað sem þau verða fyrir,“ segir Svandís og nefnir dæmi um hvernig hún hefur kennt börnum í Ingunnarskóla að „taka Selmu á þetta“ og svara fyrir sig. „Ef einhver segir til dæmis við barn: „Þú ert með ömurlegt hár,“ þá er best að svara: „Já, finnst þér það? Mér finnst þitt hár svo flott.“ Þannig geta þau afvopnað hinn einstaklinginn og hann hættir þessari hegðun.“

Rafrænt einelti er eitt af því sem tilheyrir tæknivæddum nútíma. „Síminn er nánast fastur við börn og unglinga, en foreldrar vita alltof lítið um hvernig þetta virkar allt saman og því ætlum við að bjóða upp á námskeið fyrir foreldra til að læra um smáforrit eins og snapchat, instagram, Facebook og fleira. Það eru krakkar allt niður í tíu ára með þessi forrit í símunum sínum eða tölvunum, og þarna fer fram allskonar einelti í formi athugasemda. Hermann Jónsson mun sjá um þessi námskeið með okkur.“

Fyrir foreldra

Netið er spennandi heimur, en þar leynast hættur sem foreldrar verða að vera meðvitaðir um og undirbúnir í að fræða börnin um.

Námskeiðið er fyrir þá foreldra sem vilja kynnast þeim vefsíðum og þeim forritum sem unglingar sækja og nota mest í dag. Þetta er ekki kennsla í að loka á vefsíður og setja upp varnir, heldur er markmiðið að foreldrar séu betur í stakk búnir að ræða við börnin sín um þær hættur sem leynast á þessum síðum og í þessum forritum. Hvaða þjónustu býður vefsíðan upp á? Hvert er aðdráttarafl barna og unglinga? Hver er hættan við þessa vefsíðu/forrit? Hvað getum við gert sem foreldrar?

Farið verður m.a yfir eftirfarandi vefsíður og forrit:

Facebook

Talkd.me

Ask.fm

Chatroulett

Omegle

Snapchat

Instagram

Tumblr

Vine

Foursquare

Twitter

Einnig er rætt um hugtökin Catfishing og Oversharing, farið inn á hættulegar vefsíður og mismunandi vafrar skoðaðir og hvernig börn og unglingar geta falið slóð sína á þeim.

Námskeiðið verður haldið 25. og 26. mars í HR og skráning er á erindi@erindi.is

Hægt er að senda fyrirspurnir og beiðni um fyrirlestur á netfang: astgegnhatri@outcome.com Facebooksíða: Ást gegn hatri.