Mikilvægt er að Ísland hafi sem greiðastan aðgang að sem flestum mörkuðum heimsins. Sú áherzla sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur lagt á frekari fríverzlunarsamninga er því fagnaðarefni.

Mikilvægt er að Ísland hafi sem greiðastan aðgang að sem flestum mörkuðum heimsins. Sú áherzla sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur lagt á frekari fríverzlunarsamninga er því fagnaðarefni. Ljóst er að slíkt var ekki ofarlega á blaði hjá fyrri ríkisstjórn vinstriflokkanna þó þáverandi utanríkisráðherra hafi tekið þátt í því ári fyrir síðustu þingkosningar að taka upp þráðinn á ný í fríverzlunarviðræðum við Kínverja. Viðræðurnar, sem hafnar voru formlega árið 2007 í tíð þáverandi ríkisstjórnar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, höfðu þá legið niðri í á fjórða ár. Einkum vegna þess að vinstriflokkarnir ákváðu að sækja um inngöngu í Evrópusambandið.

Meðal þess sem innganga ríkja í Evrópusambandið hefur í för með sér er að fríverzlunarsamningar sem þau hafa gert við ríki eða ríkjasambönd utan þess falla úr gildi. Þá eru þau svipt frelsi sínu til þess að gera fríverzlunarsamninga á eigin vegum. Það vald fer þess í stað til sambandsins. Ísland er í dag aðili að Fríverzlunarsamtökum Evrópu (EFTA) og getur bæði samið um fríverzlun í gegnum þau eða beint á eigin vegum eftir því hvað hentar. Þannig sömdum við Íslendingar beint við Kínverja en til að mynda við Kanada í gegnum EFTA. Ísland hefur í dag aðgang að fríverzlunarsamningum við vel á fjórða tug ríkja um allan heim, annaðhvort beint eða í gegnum EFTA, fyrir utan aðgengið að innri markaði Evrópusambandsins og þeim 28 ríkjum sem tilheyra honum. Þá eru fríverzlunarviðræður við 11 ríki til viðbótar í gangi á vettvangi EFTA. Gert er ráð fyrir því að tvennum viðræðum ljúki á þessu ári. Við Indland annars vegar og Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan hins vegar. Í báðum tilfellum er um að ræða afar mikilvæga samninga. Þá var á dögunum greint frá ferð Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra, til Japans þar sem hann ræddi við þarlenda ráðamenn og aðila í viðskiptalífi landsins um mögulegar fríverzlunarviðræður á milli landanna.

Þannig má sjá að hagsmunir Íslands eru vel og í vaxandi mæli tryggðir í þessum efnum. En sóknarfærin eru fleiri og því er sem fyrr segir fagnaðarefni að ríkisstjórn Íslands skuli leggja áherzlu á að fjölga fríverzlunarsamingum sem landið á aðild að. Það er ekki síður mikilvægt til þess að tryggja að Ísland sé ekki of háð einum eða fáum mörkuðum ef samdráttur verður á þeim eða ef ríki eða ríkjasambönd ákveða af einhverjum ástæðum að beita viðskiptaþvingunum gegn Íslandi eða hóta slíku. Líkt og Evrópusambandið hefur gert í makríldeilunni. Sömuleiðis er mikilvægt fyrir Ísland að halda frelsi sínu til þess að semja um viðskipti við önnur ríki á eigin vegum ef hagsmunir annarra ríkja sem landið er í samfloti með koma í veg fyrir að slíkir samningar náist við önnur ríki eða ríkjasambönd. Það er nefnilega mikilvægt að halda öllum leiðum opnum. hjortur@mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson