ESB Gunnar Bragi Sveinsson fylgist með Katrínu Jakobsdóttur í ræðustól.
ESB Gunnar Bragi Sveinsson fylgist með Katrínu Jakobsdóttur í ræðustól. — Morgunblaðið/Golli
María Margrét Jóhannsdóttir mariamargret@mbl.is Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu sinni um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu sinni um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Gunnar Bragi sagði meðal annars í ræðu sinni að ómögulegt væri fyrir ríkisstjórnina að halda aðildarviðræðum við ESB áfram og að þjóðin vildi ekki ganga í ESB. Þá væri nokkuð í það að hægt væri að uppfylla Maastricht-skilyrðin.

Gunnar Bragi sagði einnig að heimurinn væri stærri en Evrópa og færði rök fyrir því að Íslandi væri betur borgið utan Evrópu. Þá hefði honum verið tjáð af stækkunarstjóra ESB að Ísland væri velkomið í sambandið þegar og ef það væri tilbúið til þess. Einnig taldi hann ótal sóknarfæri vera fyrir Ísland í alþjóðasamningum og fríverslunarsamningum víðs vegar um heiminn. Þá lagði hann jafnframt áherslu á mikilvægi þess að viðhalda góðum samskiptum við Evrópu.

Ítrekaði ásakanir um svik

Að lokinni ræðu Gunnars Braga tók Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, til máls og gagnrýndi asann á þessari ákvörðun. Þá ítrekaði hann einnig ásakanir í garð stjórnarflokkanna um að hafa svikið þá stefnu sem þeir boðuðu fyrir síðustu þingkosningar. Gunnar Bragi vildi hins vegar ekki fallast á þessi sjónarmið.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hvatti utanríkisráðherra til þess að draga þingsályktunartillöguna til baka þar sem hún væri vond. Því hafnaði ráðherrann.

Þá hefur Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, lagt fram skriflega fyrirspurn til utanríkisráðherra þar sem hún spyr að því hvaða gögn búi að baki staðhæfingum hans um að ekki hafi verið meirihlutavilji fyrir þingsályktun sumarið 2009 um að sækja um inngöngu í Evrópusambandið.

Tillögunni vísað til nefndar

Umræður um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu hófust í gær eftir að samkomulag náðist á milli þingflokksformanna um áframhald málsins. Fram að því hafði þingfundi ítrekað verið frestað, en hann hófst klukkan 10.30 og tóku margir til máls undir liðnum fundarstjórn forseta.

Samkomulagið á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðunnar gekk út á að umræða um skýrslu Hagfræðistofnunar um Evrópusambandið yrði frestað og skýrslunni vísað til utanríkismálanefndar Alþingis. Í framhaldi myndi Gunnar Bragi Sveinsson mæla fyrir þingsályktunartillögu sinni um að aðildarumsóknin að ESB yrði dregin til baka. Umræðu yrði síðan frestað og þingsályktunartillagan færi í framhaldinu til utanríkismálanefndar. Þingfundi var frestað klukkan rúmlega 19 í gær en umræðu verður haldið áfram 10. mars að loknum nefndadögum í næstu viku.