Guðrún Halldórsdóttir, forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur, fæddist í Reykjavík 28.2. 1935 og ólst upp í Bjarmahlíð í Laugarásnum. Foreldrar hennar voru Halldór Jónsson trésmiður og k.h., Þorbjörg Jónsdóttir húsfreyja.

Guðrún Halldórsdóttir, forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur, fæddist í Reykjavík 28.2. 1935 og ólst upp í Bjarmahlíð í Laugarásnum. Foreldrar hennar voru Halldór Jónsson trésmiður og k.h., Þorbjörg Jónsdóttir húsfreyja.

Halldór var sonur Jóns Ólafs Ólafssonar, bónda á Másstöðum í Vatnsdal, bróður Ingibjargar Óskar Ólafsson, aðalframkvæmdastjóra KFUM og K á Norðurlöndum. Móðir Halldórs var Guðrún Ólafsdóttir, systir Maríu, langömmu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrv. borgarstjóra og ráðherra.

Guðrún lauk stúdentsprófi frá MR 1955, las íslensk fræði, lauk kennaraprófi frá KÍ 1962 og BA-prófi í dönsku og sagnfræði frá HÍ 1967.

Guðrún starfaði við Landsbankann um árabil, var kennari við Lindargötuskóla í 10 ár og forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur 1972-2005.

Guðrún styrkti mjög Námsflokkana og beitti sér fyrir starfsmenntun og réttindum ýmissa láglaunastétta, m.a. á sviði heilbrigðisþjónustu. Þá vann hún mikið starf í þágu flóttafólks og nýbúa. Hún var sannkallaður menntafrömuður og einlægur málsvari þeirra sem minnst mega sín.

Guðrún átti þátt í stofnun Félags dönskukennara, Skálholtsskólafélagsins og Íslenska dyslexíufélagsins, starfaði í Soroptimistaklúbbi Reykjavíkur, Delta-Kappa-Gamma – félagi kvenna í fræðslustörfum, tók þátt í störfum Kvennaframboðsins og Kvennalistans og var alþm. Kvennalistans 1990-91 og 1994-95 en sat auk þess á þingi sem vþm., alls á átta þingum.

Guðrún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu, hinni dönsku Dannebrogorðu, hlaut verðlaun Íslensku menntasamtakanna og heiðursverðlaun Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins. Henni til heiðurs var svonefndur Guðrúnarsjóður stofnaður af Reykjavíkurborg við starfslok hennar 2005.

Æviminningar Guðrúnar, Að opna dyr, komu út 2006, skráðar af Hildi Finnsdóttur. Guðrún lést 2.5. 2012.