Skráð um jól N1 var skráð á markað um síðustu jól. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, hringdi félagið inn á markað, líkt og venja er.
Skráð um jól N1 var skráð á markað um síðustu jól. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, hringdi félagið inn á markað, líkt og venja er. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Stjórn N1 leggur til við aðalfund, sem haldinn verður eftir mánuð, að félagið greiði 2,7 sinnum meiri arð á árinu en sem nam hagnaði félagsins á liðinu ári. Lagt er til að greiddur verði út 1.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Stjórn N1 leggur til við aðalfund, sem haldinn verður eftir mánuð, að félagið greiði 2,7 sinnum meiri arð á árinu en sem nam hagnaði félagsins á liðinu ári. Lagt er til að greiddur verði út 1.650 milljóna króna arður en hagnaður liðins árs var 637 milljónir króna. N1 er að mestu í eigu lífeyrissjóða. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu 2011 hefur arðgreiðslubann verið í gildi en tillaga þessi er samkvæmt núverandi stefnu um eiginfjárstýringu. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var 56,5% og eigið fé var 15,2 milljarðar króna við lok árs.

Í takt við það sem sagt var

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, segir í samtali við Morgunblaðið að tillagan að arðgreiðslunni sé í takt við það sem lagt hafi verið upp með við skráningu félagsins í Kauphöll í desember, en þá hafi verið bent á að ráðrúm væri til að greiða út arð. Arðgreiðslan sé skref í að færa félagið nær þeirri eiginfjárstefnu sem hafi verið kynnt og hljóði upp á 40% eiginfjárhlutfall. Hann segir að ef þessi arður verði greiddur út muni eiginfjárhlutfallið lækka í tæp 50% sé miðað við ársreikning við áramót. Hann segir enn fremur að uppgjörið sé í takt við það sem lagt var upp með við skráningu félagsins á markað.

Tekjur N1 voru lítillega minni en hagfræðideild Landbankans hafði spáð og námu þær 58,1 milljarði á árinu, en deildin reiknaði með að þær myndu nema 58,9 milljörðum króna. Rekstrarhagnaðurinn fyrir afskriftir (EBITDA) án einskiptis kostnaðar vegna skráningar á markað og sölu Bílanausts var betri en hagfræðideildin gerði ráð fyrir. Reyndin var 2,6 milljarðar en spáin hljóðaði upp á tvo milljarða. Aftur á móti ef ekki er tekið tillit til téðs einskiptiskostnaðar var EBITDA 1,8 milljarðar króna.

Mikill kostnaður féll til á árinu vegna einskiptisliða. Þannig er bókfærður kostnaður vegna skráningar félagins og sölu Bílanausts 372 milljónir króna. Þetta litar einkum afkomu fjórða ársfjórðungs. N1 hagnaðist um 637 milljónir króna samanborið við spá hagfræðideildar um 914 milljón króna hagnað. Alla jafna birta greiningardeildir ekki afkomuspár sínar opinberlega en Morgunblaðið hefur spá Landsbankans undir höndum.

Skráð 19. desember

N1 var skráð á hlutabréfamarkað 19. desember að undangengnu almennu útboði á 28% hlut Framtakssjóðs Íslands og Íslandsbanka. Rekstur Bílanausts var skilinn frá rekstri félagsins í byrjun síðasta árs og var félagið selt í maí. Salan einfaldar vöruframboð N1 og minnkar fjárbindingu í birgðum og viðskiptakröfum hjá félaginu, en sölunni fylgdi töluverður einskiptiskostnaður á árinu 2013, segir í tilkynningu.
Arðgreiðslubanni aflétt
» Stjórn N1 leggur til við aðalfund að greiddar verði 1.650 milljónir króna í arð. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu 2011 hefur arðgreiðslubann
verið í gildi.
» N1 hagnaðist um 637 milljónir króna á liðinu ári, því er arðgreiðslan 2,7 sinnum hærri en hagnaðurinn ársins. Félagið situr á miklum fjármunum.