Samþykktu reglur Þingmenn á Evrópuþinginu greiða atkvæði um hertar tóbakssölureglur á þingfundi í Strassborg á miðvikudag.
Samþykktu reglur Þingmenn á Evrópuþinginu greiða atkvæði um hertar tóbakssölureglur á þingfundi í Strassborg á miðvikudag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Drífa Viðarsdóttir drifavidars@gmail.com Evrópuþingið samþykkti í vikunni nýjar og hertar reglur um tóbaksneyslu sem gert er ráð fyrir að taki gildi nú í maí. Hafa aðildarríki Evrópusambandsins þá tvö ár til að innleiða löggjöfina.

Fréttaskýring

Drífa Viðarsdóttir

drifavidars@gmail.com

Evrópuþingið samþykkti í vikunni nýjar og hertar reglur um tóbaksneyslu sem gert er ráð fyrir að taki gildi nú í maí. Hafa aðildarríki Evrópusambandsins þá tvö ár til að innleiða löggjöfina.

Gert er ráð fyrir að þessar reglur muni einnig gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið, að sögn Viðars Jenssonar, verkefnisstjóra tóbaksvarna hjá embætti landlæknis.

700 þúsund manns deyja árlega í Evrópu vegna reykinga

Yfirlýst markmið með nýju reglunum er að fækka evrópskum reykingamönnum um 2% á næstu fimm árum. Innan Evrópusambandsins er talið að um 700 þúsund manns látist árlega af völdum reykinga. Þrátt fyrir tilraunir sambandsins til úrbóta er fjöldi reykingamanna enn nokkuð mikill, en um þriðjungur íbúa ESB reykir að staðaldri.

Þá er með nýju reglunum sérstaklega reynt að sporna við því að ungt fólk byrji að reykja, meðal annars með því að draga úr vöruframboði.

Stórar viðvaranir

Samkvæmt reglunum verða viðvaranir og myndir sem sýna afleiðingar reykinga að þekja að minnsta kosti 65% hvers sígarettupakka og einnig verða prentaðar viðvaranir á lok pakkanna. Þá mega merkingar á pökkunum ekki gefa til kynna, að varan sé á einhvern hátt skaðlausari en aðrar tóbakstegundir eða að hún innihaldi ekki aukaefni.

Bannað verður að selja mjóar sígarettur, sem hafa einkum verið markaðssettar fyrir konur og sömuleiðis verður bannað að selja tóbak með bragð- og lyktarefnum. Falla mentolsígarettur undir þann flokk, en talið er að þær höfði frekar til ungs fólks og þá sérstaklega ungra kvenna.

Framleiðendur hafa allt að fjögur ár til að bregðast við reglunum og geta á þeim tíma selt birgðir, sem þeir kunna að eiga á lager.

Tonio Borg, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, lýsti yfir mikilli ánægju með nýju reglurnar eftir samþykkt Evrópuþingsins og sagði ljóst, að þær myndu stuðla að því að draga úr reykingum barna og unglinga.

Ekki eru þó allir jafn ánægðir með reglurnar. Danskir stjórnmálamenn segja m.a. að bann við mentolsígarettum muni missa marks. Þeir sem reyki mjóar sígarettur með mentolbragði séu ekki unga kynslóðin, heldur einkum sú eldri. Í sama streng tók Simon Clark, framkvæmdastjóri samtakanna Forest, sem berjast gegn takmörkunum á reykingum.

Þá hafa aðildarríki Evrópusambandsins sem framleiða tóbak mótmælt breytingunum á þeim grundvelli að margir framleiðendur verði gjaldþrota og að svartur markaður muni skapast með þær vörur sem til stendur að banna.

Framfylgt hér á landi

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að þessum reglum Evrópusambandsins verði framfylgt hér á landi þegar þær taka gildi, hvort sem um er að ræða auknar merkingar á tóbaki eða bann við sölu á vissum tóbakstegundum.

Reglur um rafsígarettur

Evrópuþingið samþykkti í vikunni reglur um svonefndar rafsígarettur en sala á þeim hefur aukist mikið að undanförnu.

Samkvæmt reglunum, sem aðildarríki Evrópusambandsins þurfa nú að staðfesta, verður bannað frá miðju ári 2016 að auglýsa rafsígarettur í ríkjunum. Þá verður framleiðendum einnig gert skylt að setja viðvaranir á umbúðir og loks verða settar reglur um nikótínmagn í vörunni.

Mikil umræða fer nú fram víða um rafsígarettur. Búist er við að bandarísk yfirvöld setji innan skamms reglur um notkun þeirra en í nokkrum bandarískum borgum er notkun þeirra bönnum á opinberum stöðum.