Guðrún Reimarsdóttir fæddist 4. janúar 1942 á Siglufirði. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 5. mars 2014.

Foreldrar hennar voru Reimar Þórarinn Kristjánsson, f. á Ísafirði 5. október 1906, d. á Landakotsspítala 9. apríl 1978, verkamaður , búsettur á Siglufirði, og Oddný Jakobína Ágústsdóttir, f. á Hofsósi 22. maí 1899, d. á Siglufirði 9. júní 1988. Þau voru í sambúð og bjuggu saman á Siglufirði. Hálfsystir er Vilborg Þórey Reimarsdóttir, f. 30. mars 1933 á Siglufirði, búsett í Reykjavík, móðir hennar var Magnea Vilborg Árnadóttir, f. 18. desember 1912 í Hafnarfirði, d. 12. apríl 1933 á Siglufirði, en ólst upp í Sandgerði. Reimar og Magnea voru í sambúð á Siglufirði.

Sonur Guðrúnar er Reynir Þór Jónsson, f. 9. febrúar 1987, faðir hans er Jón Hallgrímsson, f. 12. janúar 1944. Reynir Þór hefur alist upp með móður sinni. Hann er í sambúð með Kolbrúnu Lilju Torfadóttur.

Guðrún ólst upp á Siglufirði með foreldrum sínum og systur. Gekk í barnaskóla Siglufjarðar, stundaði nám við Iðnskóla Siglufjarðar, lauk þaðan námi 1959. Starfaði við síldarvinnu á sumrin. Hún flutti til Reykjavíkur árið 1960. Var í málaskóla sumarlangt í Brighton, vann síðan í framhaldinu sem au pair um eins árs skeið í London. Ári síðar fór hún til Kaupmannahafnar, vann þar hótelstörf, ásamt því að vera í dönskunámi. Guðrún starfaði við afgreiðslustörf hjá Búnaðarbanka Íslands, Austurstræti, Verslunarbankanum og Tollstjóranum í Reykjavík. Eftir að sonur hennar komst á leikskólaaldur fór hún að starfa hjá leikskólum Reykjavíkurborgar og starfaði þar til margra ára, einnig við Lindaskóla sem skólaliði. Árið 2002 fór systurdóttir hennar í framhaldsnám til Guildford, Surrey, Bretlandi, með tvö lítil börn, þá fór hún þangað með henni til að gæta barnanna en sonur hennar fór í gagnfræðaskóla þar.

Útför verður frá Fossvogskirkju í dag, 14. mars 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku mamma mín, það hlýtur að vera til sérstakur staður á himnum fyrir konu eins og þig, þú varst svo hjartahlý og falleg manneskja, full af kærleika og heiðarleika, með gullfallega ljósa hárið, sem einkenndi þig alla þína tíð.

Tengsl okkar urðu sterk strax á fæðingardeildinni, þegar við horfðumst í augu þar sem ég lá í súrefniskassanum fæddur fjórum mánuðum fyrir tímann. Þegar ég rifja upp ævi okkar saman koma upp í hugann svo ótal margar minningar, of margar til að minnast á í fáum orðum.

Þú varst sterkur einstaklingur, sama hvað á bjátaði, þá gafstu aldrei upp, þrátt fyrir að hafa áður misst barn varstu staðráðin í því að halda lífinu í mér svo lengi sem þú lifðir. Þú lifðir fyrir mig og ég fyrir þig. Ekki varstu aðeins móðir mín, heldur varstu líka besti vinur minn.

Þú kenndir í brjósti um þá sem áttu bágt, sama hvað var, varstu til staðar fyrir alla, ef eitthvað var að þá var hægt að leita til þín, þú vissir ráðin við öllu. Hláturinn og gleðin, allar þær skemmtilegu minningar sem við áttum þegar við vorum saman eru ómetanlegar. Ég man svo vel eftir því hvað hamingjan var mikil þegar við fluttum fyrst inn í íbúðina í Grafarvoginum um sumar, þetta sumar einkenndist af skemmtilegum minningum.

Um haustið byrjaði ég í sex ára bekk, þú fylgdir mér, til þess að sýna mér leiðina í skólann. Ég hugsaði alla leiðina hvað mér fannst ég vera orðinn stór strákur með Chicaco Bulls-töskuna á bakinu. Þótt ég væri orðinn stór strákur hugsaði ég að ég myndi aldrei verða of stór strákur fyrir hana mömmu mína. Eftir skóladaginn kom ég svo hlaupandi heim til þín þar sem þú beiðst í spenningi að heyra frá ævintýrum fyrsta dagsins. Þú kenndir mér að vanda mig í skólanum og sinna náminu vel, ég man hvað ég var ánægður þegar þú sagðir mér hvað þú værir stolt af mér þegar ég lauk stúdentsprófinu, þú vildir mér alltaf allt það besta, að ég yrði ánægður og hefði áhuga á því sem ég tæki mér fyrir hendur, mér fannst gaman að sýna þér árangurinn.

Þegar þú varst ung fékkstu snemma áhuga á að skoða heiminn, læra eitthvað nýtt, til þess þurftir þú að leggja hart að þér svo að það yrði að veruleika. ímarnir sem þú bjóst í Englandi voru þér sérstaklega kærir, þú fórst oft þangað bæði á yngri árum og í seinni tíð. Þegar þér gafst tækifæri til að flytja þangað og taka mig með greipstu það samstundis því þú vissir hvað það myndi reynast mér gott veganesti út í lífið.

Fyrstu dagarnir eftir að þú féllst frá hafa verið tómlegir, ég er hálflamaður án þín, ég sakna þess að geta ekki komið heim þar sem þú tekur á móti mér með opinn faðminn, en ég hugga mig með því að hugsa um allar fallegu, og góðu stundirnar sem við áttum saman. Þú skipaðir stærsta hlutverk í lífi mínu og kenndir mér svo ótalmargt um sanngirni og réttlæti. Fyrir allan þann stuðning sem þú veittir mér í gegnum samveru okkar er ég þér ævinlega þakklátur, allan þann skilning, alla þá hvatningu sem þú hefur sýnt mér.

Þú gerðir allt hvað þú gast og í þínu valdi stóð, til að hjálpa mér að ná markmiðum mínum. Þú kenndir mér að vera heiðarlegur, koma rétt fram, ég mun aldrei gleyma því. Réttlætiskennd þín var svo sterk að kjarkur þinn skein í gegn, hvatti þig áfram í gegnum súrt og sætt.

Elsku mamma, ég kveð þig með sárum söknuði, nú ertu komin á betri stað. Ég finn fyrir nærveru þinni, það hjálpar mér í gegnum þessa erfiðu tíma. Ég mun alltaf elska þig, elsku mamma mín.

Þinn elskandi sonur.

Reynir Þór.

Með þakklæti og söknuði kveðjum við Gunnu móðursystur okkar í dag, sem hefur verið órjúfanlegur þáttur í lífi okkar systkina frá því við komum í þennan heim. Hún bjó á æskuheimili okkar þar sem hún vakti yfir velferð okkar alla daga. Hún passaði og spjallaði við okkur, hlustaði og ráðlagði, kenndi og lærði með okkur, huggaði og kyssti á bágtið. Gunna var nánast okkar stóra systir, sem við áttum öruggt skjól hjá alla tíð.

Einnig var gott að hafa skilningsríkt eyra þegar unglingsárin tóku við, Gunna var góður og skilningsríkur hlustandi sem var ómetanlegt fyrir óstýriláta unglinga og oftar en ekki leystust málin með hennar ráðleggingum.

Þegar við systkinin eignuðumst sjálf okkar eigin börn passaði hún þau öll á einhverju aldursskeiði, dekraði við þau og fylgdist með þeim vaxa og dafna. Þeim þótti öllum afar vænt um Gunnu frænku. Fyrir alla þessa umhyggju hennar, sem spannar vel yfir 50 ár, þökkum við í dag – þetta skarð verður vandfyllt.

Gunna fæddist og ólst upp á Siglufirði, stolt af sínum heimabæ, uppruna og talaði ávallt um sig sem Siglfirðing með stóru S-i. Gunna var myndarleg kona með sitt ótrúlega mikla og fallega hár, svo eftir var tekið.

Gunna eignaðist sólargeislann sinn hann Reyni Þór árið 1987, duglegan og myndarlegan strák, sem hún var óendanlega stolt af. Reynir Þór stundar nú nám við Konunglegu listaakademíuna í Haag, Hollandi, og býr þar ásamt Kolbrúnu Lilju Torfadóttur, kærustu sinni, sem er búin að reynast honum stoð og stytta á þessum erfiðu tímum.

Á sínum yngri árum hafði Gunna búið og starfað í Bretlandi og átti bresk menning vel við hana og mat hún allt sem breskt var. Það gladdi hana mikið þegar henni og Reyni stóð til boða að flytja tímabundið með systurdóttur sinni og fjölskyldu hennar til Bretlands. Hún taldi að það væri gott veganesti fyrir lífið, að Reynir fengi að upplifa aðra menningu og fara í breskan skóla. Við erum viss um að þessi tími hafi verið Gunnu einn sá ánægjulegasti í hennar lífi í seinni tíð. Hún gætti barna systurdóttur sinnar, þeirra Vikars og Kolfinnu, einnig þegar þau sneru aftur til Íslands, þá aðstoðaði hún þau við að aðlagast íslensku skólakerfi á nýjan leik, með sinni alkunnu alúð og umhyggju. Þau minnast þau hennar með miklu þakklæti.

Gunna frænka stóð fyrir gömul og góð gildi og hafði hún ríka réttlætiskennd. Hún var brosmild og stutt í kátínu hjá henni en það var líka stutt í áhyggjur af öllu mögulegu og þá meira í seinni tíð.

Við biðjum Guð að geyma Gunnu frænku okkar, þökkum fyrir umhyggjuna og allt það sem hún gerði fyrir okkur. Nú er komið að okkur að hugsa vel um hann Reyni og vaka yfir velferð hans.

Styrkár, Magnea og Viðar.

Hvað þurfa margar konur að deyja með fulla tösku af vöðvaslakandi lyfjum áður en læknar fara að trúa því að konur geta líka fengið hjartaáfall. Guðrún vinkona mín andaðist í síðustu viku nokkrum dögum eftir að hafa farið til læknis, reyndar út af öðru, en hún nefndi við lækninn að hún væri með verk fyrir brjósti og upp í háls, hnakka og aðeins út í handlegg en fékk eins og margar konur bólgueyðandi töflur með þeim orðum að trúlega væri þetta slæm vöðvabólga, því miður álíta margir læknar að konur séu með vöðvabólgu eða stoðkerfisvandamál. Ég tala af reynslu þar eð ég fékk hjartaáfall fyrir rúmum tveimue árum og vöðvaslakandi lyf og sagt að taka það rólega. Ég var heppin, ég er lifandi í dag en það er meira en hægt er að segja um hana Guðrúnu.

Ég kynntist Guðrúnu fyrir 25 árum, við vorum báðar einar með drengi á sama aldri, „fullorðnar“ mæður, og tengdi það okkur saman, við höfðum félagsskap hvor af annarri á meðan drengirnir okkar höfðu félagsskap hvor af öðrum.

Tíminn leið og drengirnir okkar uxu úr grasi og fóru hvor í sína áttina en við héldum alltaf kunningsskap og komu þau stundum í mat og þá voru rifjuð upp skemmtileg atvik úr fortíð. Guðrún var glöð kona og stutt í hláturinn þrátt fyrir að lífið hefði ekki alltaf hampað henni. Ég sá Guðrúnu í síðasta mánuði er hún kom til mín í mat og áttum við góðar stundir saman, aldrei hvarflaði að mér að ég ætti ekki eftir að hitta hana aftur. Þegar systir hennar hringdi í mig á laugardaginn til að segja mér að Guðrún væri fallin frá fékk ég fyrst áfall og síðan kom sorgin og reiðin.

Reynir minn, ég veit hvað mamma þín var stolt af þér og dugnaði þínum, við Alvar sendum þér okkar innilegustu samúðarkveðjur í sorg þinni.

Hugrún og Alvar.

HINSTA KVEÐJA

Þakka þér kærleikann, hjartalag hlýtt,
af gæsku þú gafst yl og hlýju.
í heimi guðsenglanna hafðu það blítt,
uns hittumst við aftur að nýju.
(Höf. ók.)

Kolbrún Lilja
Torfadóttir.