Bergþétting Unnið í Vaðlaheiðargöngum í gærdag.
Bergþétting Unnið í Vaðlaheiðargöngum í gærdag. — Ljósmynd/Valgeir Bergmann
Sprengingar og útgröftur á efni úr Vaðlaheiðargöngum liggur niðri vegna vinnu við að þétta vatnssprungu sem komið var að. Aðeins vantaði 9 metra í 2.000 metra áfangann þegar vinnan stöðvaðist.

Sprengingar og útgröftur á efni úr Vaðlaheiðargöngum liggur niðri vegna vinnu við að þétta vatnssprungu sem komið var að. Aðeins vantaði 9 metra í 2.000 metra áfangann þegar vinnan stöðvaðist.

Vegna vatnsæða sem áður hafa opnast við gangagerðina eru boraðar könnunarholur langt inn fyrir sprengiholur. Því vissu verktakarnir af vatnssprungunni nokkru áður en þeir komu að henni. Eftir að stór vatnsæð opnaðist 120 metrum utar var ákveðið að loka öllum sprungum til að auðvelda verkið. Það var gert í síðustu viku og er gert nú.

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., segir áætlað að vatnsrennslið sé um 70 lítrar á sekúndu af 52 stiga heitu vatni. Það er talsvert heitara en í stóru sprungunni þar sem vatnið er 46 stiga heitt.

Bergþéttingin getur tekið einn til tvo sólarhringa og ekki lengjast göngin á meðan. Þau standa í 1.991 metra.

Einnig hefur hægst á hraðanum við gerð Norðfjarðarganga vegna þess að nú er verið að vinna í berglagi með lausara efni, svokölluðu rauðu bergi, sem annað slagið verður á vegi gangamanna. Rauða lagið er í Eskifjarðarleggnum. Góður gangur var í verkinu þangað til enda er einnig byrjað að sprengja Norðfjarðarmegin. Á sunnudagskvöld stóðu göngin í 882 metrum svo 1.000 metra áfanginn nálgast hægt en örugglega. helgi@mbl.is