Goðsögnin Patti Smith kemur fram á tónleikunum ásamt Eyþóri Gunnarssyni og Guðmundi Péturssyni.
Goðsögnin Patti Smith kemur fram á tónleikunum ásamt Eyþóri Gunnarssyni og Guðmundi Péturssyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er nær uppselt á hina viðamiklu tónleika „Stopp – gætum garðsins!“ í Hörpu á þriðjudagskvöldið kemur.

Nú er nær uppselt á hina viðamiklu tónleika „Stopp – gætum garðsins!“ í Hörpu á þriðjudagskvöldið kemur. Um er að ræða samvinnuverkefni bandaríska leikstjórans Darrens Aronofsky, Bjarkar Guðmundsdóttur, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Dagskráin hefst með frumsýningu stórmyndar Aranofskys, Noah , í Egilshöll klukkan 17.30 en Harpa opnar fyrir gestum klukkan 20. Fram koma bandaríska söngkonan Patti Smith, og með henni leika Eyþór Gunnarsson og Guðmundur Pétursson, sænska söngkonan Lykke Li ásamt hljómsveit, Björk, Of Monsters and Men, Samaris, Highlands, Mammút og Retro Stefson.

Listamennirnir gefa vinnu sína og ágóðinn rennur til Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar.

„Þetta eru átta hljómsveitir sem spilar hver í tíu til 25 mínútur. Á milli verða ýmiskonar atriði þar sem við sýnum hvers vegna við stöndum fyrir þessum tónleikum,“ segir Grímur Atlason sem heldur utan um skipulagninguna. Ekki verður gefið upp í hvaða röð listamennirnir koma fram. „Það verður öllu til tjaldað. Patti Smith kemur fram með tveimur íslenskum listamönnum, Björk kemur fram í flottu formati og Lykke Li mætir með hljómsveit.“

Grímur segir listamennina vera samhenta í baráttu sinni fyrir aukinni náttúruvernd og verndun hálendisins. „Við höfum til að mynda reynt í mörg ár að fá Lykke Li til að koma fram á Airwaves, en það hefur reynst of dýrt, en nú er henni boðið að taka þátt, fyrir ekki neitt, og þá kemur hún!“ segir hann. „Það sama má segja um Patti Smith.“

Grímur kom ásamt Björk og fleiri að skipulagningu tónleika til stuðnings náttúruvernd árið 2006. Hann segir undirbúning þessara tónleika ekki hafa verið langan.

„Það sauð á mér þegar náttúruverndarlögin voru afturkölluð. Að við værum samfélag sem gerði samninga sem þessa sem aldrei halda, hvaða skoðun sem við höfum á hlutunum. Það var gerður samningur og sett lög sem eiga að taka gildi 1. apríl. Ef það þarf að laga þau á einfaldlega að gera það, en þess í stað á að afturkalla lögin og hafa þau gömlu í gildi í að minnsta kosti 14 mánuði. Hvað ætla menn að gera á þeim tíma?“ spyr hann. „Þetta kveikti í mér og við fórum á fullt í undirbúning í janúar.“ efi@mbl.is