Skúli Eggert Þórðarson
Skúli Eggert Þórðarson
Eftir Skúla Eggert Þórðarson: "...að kostnaður vegna starfsmanns séu ekki lögmæt ríkisútgjöld blasir við að greiðslan verður þá endurkræf enda ekki um rekstrargjöld hjá ríkissjóði að ræða"

Í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins 13. mars 2014 var þeirri fyrirspurn beint til ríkisskattstjóra hvað embættið hefði í hyggju að gera varðandi greiðslu Seðlabanka Íslands á málskostnaði bankastjóra. Fram kemur hjá bréfritara að hann telji sjálfur hafið yfir vafa að um sé að ræða skattskyldar greiðslur og tekur fyrirspurnin mið af því.

Af þessu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram að um hlunnindi og skattskyldu einstakra greiðslna gilda ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Um þau atriði sem bréfritari spyr um hefur embættið þegar tjáð sig opinberlega bæði í Morgunblaðinu og víðar. Í tilvitnuðu tölublaði er einnig fjallað um mögulega skattskyldu á greiðslum af þessu tagi af fræðimanni í skattarétti þar sem reifuð eru helstu álitamál. Í þessu samhengi skiptir meginmáli hvort greiðsla launagreiðanda og ákvörðun um greiðsluna teljist vera í þágu launagreiðandans sjálfs vegna hagsmuna sem hann hefði af slíku, eða ekki. Þannig skapast um leið álitamál hvort greiðslur af þessu tagi teljist vera beinn rekstrarkostnaður í skilningi 31. gr. tilvitnaðra laga þegar skattskyldur lögaðili á í hlut. Sé komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé um rekstrarkostnað að ræða og frádráttur greiðslunnar frá tekjum byggist því ekki á rekstrarkostnaðarhugtaki tilvitnaðrar 31. gr. reynir á hvort og með hvaða hætti skattskylda skapast vegna slíkra greiðslna. Kemur þá venjulega tvennt til álita: Að fella niður frádrátt frá skattskyldum tekjum launagreiðandans eða bæta greiðslu útlagðs kostnaðar við laun og líta á greiðsluna sem hlunnindi og ákvarða skatt á þeim grunni.

Þegar launagreiðandi telst undanþeginn skattskyldu tekjuskatts samkv. 4. gr. tilvitnaðra laga eiga önnur sjónarmið við að hluta. Þar kemur m.a. til skoðunar hvort Ríkisendurskoðun telji að um sé að ræða kostnað sem falla skuli undir ákvæði laga um fjárreiður ríkisins, þ.e. að útgjöldin teljist vera kostnaður sem t.a.m. ríkissjóður eigi að bera. Komist þar til bær yfirvöld að þeirri niðurstöðu að kostnaður vegna starfsmanns séu ekki lögmæt ríkisútgjöld blasir við að greiðslan verður þá endurkræf enda ekki um rekstrargjöld hjá ríkissjóði að ræða. Fellur þá hugmynd um skattlagningu sjálfkrafa niður þar sem greiðslan hlýtur þá að hafa gengið til baka.

Ríkisskattstjóri hefur ekki stöðu að lögum til að tjá sig opinberlega um málefni einstakra skattaðila og mun því ekki gera það enda standa ekki lög til þess að ákvörðun um skattlagningu einstakra manna eða lögaðila verði ákveðin opinberlega af embættinu. Því er ekki heimilt að upplýsa fyrirspyrjanda um fyrirætlanir embættisins í einstökum málum.

Höfundur er ríkisskattstjóri.

Höf.: Skúla Eggert Þórðarson