Reykjavíkurmótið Helgi Ólafsson lét finna fyrir sér og tefldi vel.
Reykjavíkurmótið Helgi Ólafsson lét finna fyrir sér og tefldi vel. — Morgunblaðið/Ómar
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Helgi Ólafsson, stórmeistari í skák, hefur sett stefnuna á ólympíumótið, sem verður í Noregi í sumar. 50.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Helgi Ólafsson, stórmeistari í skák, hefur sett stefnuna á ólympíumótið, sem verður í Noregi í sumar.

50. Reykjavíkurskákmótinu lauk í Hörpu í fyrrakvöld og Helgi Ólafsson, sem hafði ekki tekið þátt í mótinu í 10 ár, sýndi gamla takta og varð í 2.-5. sæti með 8 vinninga af 10 mögulegum, vann sjö skákir, gerði tvö jafntefli og tapaði einni viðureign. „Það var stundum sveifla í stílnum, en ég hef enga ástæðu til annars en að vera ánægður með árangurinn,“ segir Helgi.

Vel stemmdur

„Það getur ýmislegt gerst þegar maður vandar sig og reynir að vera einbeittur,“ heldur hann áfram. „Grunnurinn var að undirbúa sig vel fyrir skákirnar og vera rétt spenntur. Hressleiki var yfirleitt yfir taflmennskunni og hann var rauði þráðurinn í þessu.“

Helgi segir að hann hafi teflt illa í tapskákinni á móti Dananum Simon Bekker-Jensen. „Byrjunin var mjög léleg hjá mér og það er erfitt að skilja hvers vegna ég tefldi byrjunina svona illa. En það er stundum þannig í skák að missi maður þráðinn, þó ekki sé nema eitt augnablik, lendir maður í leiðindaaðstöðu, sem ekki er nokkur leið að klóra sig út úr en ég fór langt með að halda jafntefli. En hann tefldi líka vel og stundum getur verið ágætt að tapa skák í móti, því þá fær maður spark og fer af stað.“

Alþjóðaskáksambandið FIDE birtir nýjan styrkleikalista mánaðarlega. Helgi er með 2.546 Elo-stig og hækkar um 10 stig vegna árangursins í mótinu. „Þessi skákstig halda ekki vöku fyrir mér og hafa aldrei gert,“ segir hann og leggur áherslu á að meta ætti menn eftir því hvað þeir ná langt en ekki draga þá niður, gangi illa.

Undanfarin ár hefur Helgi verið liðsstjóri og þjálfari landsliðsins en hann hefur hug á að tefla á ólympíumótinu í Tromsö í Noregi í sumar. „Ég útiloka ekki að gefa kost á mér í það,“ segir hann.