Tryggvi Gunnarsson fæddist í Reykjavík 20. júlí 1931. Hann lést á sjúkrahúsi í Þrándheimi 4. mars 2014.

Forfeður Tryggva í föðurætt voru Salomon Sigurðsson, óðalsbóndi í Drápuhlíð, f. 1896, síðar bóndi í Mávahlíð og síðar á Laxárbakka í Miklaholtshreppi þar sem hann dó árið 1908. Eiginkona hans var Lárusína Lárusdóttir Fjeldsted, f. 1. nóvember 1873, d. 1942. Faðir Tryggva var Gunnar Salomonsson „Úrsus“, f. á Laxárbakka í Miklaholtshreppi 15. júlí 1907, d. 3. janúar 1960. Móðir Tryggva var Jóhanna Ólafsdóttir frá Butru í Fljótshlíð, f. 19. júlí 1908, d. 6. september 2000.

Þau Gunnar og Jóhanna eignuðust saman sex börn en svo skildi leiðir þeirra. Jóhanna eignaðist síðar sex börn til viðbótar og Gunnar þrjú. Af stórum systkinahópi eru nú fjögur látin. Tryggvi eignaðist sjö börn, fimm syni og tvær dætur, auk þess að ganga tveimur börnum seinni konu sinnar í föðurstað.

Útför Tryggva fer fram í Noregi í dag, 14. mars 2014.

Tryggvi bjó í Noregi í yfir 30 ár. Hann fékkst við ýmis störf, lengst af við trésmíðar.

Tryggvi er eineggja tvíburi Ólafs, mannsins míns, og voru þeir bræður svo líkir í útliti þegar þeir voru yngri að ekki var hægt að þekkja þá í sundur. Þessu fylgdu auðvitað bæði kostir og ókostir. Hann var fjallmyndarlegur og glæsilegur maður enda kepptu ungu stúlkurnar um athygli hans á árum áður.

Tryggvi var einnig afburða laghentur maður og ólatur. Það lék allt í höndunum á honum. Ekki tók hann þátt í lífsgæðakapphlaupinu, hann var sáttur við sinn hlut. Hann var rammur að afli en fór vel með það.

Tryggvi lést í Noregi og verður jarðsunginn þar. Ólafur saknar hans með sárum trega og er missir hans mikill. Ég óska Tryggva velfarnaðar á hinum fagra stað í sumarlandinu, þar sem við öll munum hittast þegar lífsklukkan okkar hættir að slá.

Við sendum samúðarkveðjur fjær og nær.

Elísabet Gunnarsson.

Nú er hann elskulegi Tryggvi frændi minn, sem mér þótti svo vænt um, farinn. Hann kvaddi þennan heim hinn 4. mars sl. og er nú kominn á betri stað.

Ég sakna hans sárt.

Fyrsta minningin mín um Tryggva er þegar ég var átta ára og bjó í Union City í Kaliforníu. Hann kom í heimsókn til okkar og ég ætlaði ekki að þekkja hann frá pabba. Hann var mér mjög góður og ég man að hann fór með mig út í Seven eleven-sjoppuna og sagði að ég mætti fá hvað sem mig langaði í. Í heimsóknum okkar til Íslands var ég alltaf mjög spennt yfir því að hitta uppáhaldsfrænda minn hann Tryggva.

Tryggvi bjó í Noregi síðustu áratugina en var alltaf duglegur að hringja heim, bæði í tvíburabróður sinn, hann Ólaf föður minn, og einnig stundum í mig. Hann vildi fá fréttir af Íslandi og sérstaklega af fólkinu sínu. Stundum urðu þessi símtöl einkar skemmtileg. Minnist ég sérstaklega í eitt sinn er ég átti afmæli, þá hringdi Tryggvi og bauð mér upp á tónleika í gegnum símann. Það var Randí, konan hans, sem spilaði á harmonikkuna af mikilli innlifun svo ég varð djúpt snortin.

Hinn 20. júlí 2011 urðu þeir tvíburabræður áttræðir. Af því tilefni kom Tryggvi til landsins ásamt konu sinni og hluta fjölskyldunnar. Þeirra fyrsti stans á Íslandi var á heimili mínu þar sem fyrir var heilmikil móttökunefnd. Það urðu fagnaðarfundir enda langt um liðið frá því Tryggvi hafði séð flesta. Sérstaklega var gaman að sjá tvíburabræðurna hittast því þeir hafa alla tíð þótt mjög líkir og verið einstaklega tengdir í gegnum tíðina þótt úthöf hafi skilið þá að. Það þarf vart að taka það fram að sjálf afmælisveislan var einstaklega skemmtileg og verður lengi í minnum höfð. Ég varð þeirra forréttinda aðnjótandi að fá að hafa tvær dætur Tryggva ásamt barnabarni í gistingu á heimili mínu meðan á dvöl þeirra stóð en þau hafði ég aldrei hitt áður. Þegar komið var að heimför Tryggva og fjölskyldu komu þau við hjá mér til að kveðja og sækja dæturnar. Eftir mörg faðmlög og nokkur tár var tími kominn til að fara. Það var þegar Tryggvi gekk út um dyrnar hjá mér út í sólskinið og eftir stéttinni í áttina að bílnum að hann stoppaði. Hann sneri sér við í áttina að mér þar sem ég stóð í dyrunum, veifaði til mín og brosti. Þá fékk ég þessa stingandi tilfinningu að þetta væri ef til vill í síðasta skiptið sem ég sæi hann. Tryggvi minn, takk fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar í gegnum tíðina. Ég veit við munum hittast á ný fyrir handan þegar sá tími kemur.

Guð blessi minningu þína.

Jóhanna Ólafsdóttir.