Sesselja Gunnarsdóttir fæddist 18. mars 1956 í Hafnarfirði. Hún lést 5. mars 2014 á líknardeild Landspítalans í Kópavogi.

Foreldrar hennar voru hjónin Gunnar Kristján Jónsson vélstjóri, f. 24.5. 1925, d. 20.4. 1997, og Margrét Eyþórsdóttir húsmóðir, f. 10.1. 1921, d. 25.1. 2011. Systur Sesselju eru Ástríður, f. 9.10. 1953, og Ingibjörg Jóna, f. 18.7. 1958.

Sesselja giftist hinn 5. júní 1976 Eggert Kristinssyni gullsmið, f. 31.5. 1953. Foreldrar Eggerts voru Hildur Eggertsdóttir, f. 24.11. 1930, d. 28.4. 1988, og Kristinn Steingrímsson, f. 4.8. 1923, d. 28.11. 1992. Dóttir Sesselju og Eggerts er Hildur, fædd 17.8. 1978. Börn hennar eru a) Aron Ingi Ásgeirsson, f. 25.4. 2000; b) Maríanna Mist Björnsdóttir, f. 6.4. 2005; c) Eiður Snær Einarsson, f. 4.2. 2006; d) Eggert Snær Einarsson, f. 4.2. 2006; e) Silja Emilía Einarsdóttir, f. 28.11. 2008.

Sesselja ólst upp í Lækjarkinn 18 í Hafnarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Sesselja og Eggert bjuggu í Hafnarfirði til ársins 2000 er þau fluttu í Garðabæ. Sesselja starfaði frá 17 ára aldri í Búnaðarbanka Íslands, síðar Arionbanka, þar til hún varð að hætta störfum í maí 2013 vegna veikinda.

Sesselja verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 14. mars 2014, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku besta systir mín, ég sit hér með tárin í augunum og er yfirbuguð af sorg og söknuði, en styrkur þinn og æðruleysi var engu líkt og það eitt að hugsa til þín gefur styrk. Það var svo fjarri þér að kvarta og þú vildir ekki að neinn færi dapur frá þér. Að tala um þig í þátíð er gríðarlega erfitt, að segja var í stað er. Þú ert og verður alltaf fyrirmyndin mín.

Þú varst stórfengleg manneskja, dásamleg systir, traust, góð og skemmtileg vinkona. Það var aldrei þinn stíll að láta mikið á þér bera en hvar sem þú komst tók fólk eftir fallega svipnum þínum. Þú elskaðir að ferðast og fórum við margar ógleymanlegar ferðir saman. Þú hafðir mjög gaman af því að vinna í höndunum og bútasaumsteppin, dúkarnir, diskamotturnar og barnapeysurnar eftir þig eru listaverk. Ég er svo heppin að eiga nokkra hluti sem þú hefur unnið og lít á þá sem dýrgripi.

Þú sýndir öllum virðingu og fékkst hana svo sannarlega til baka. Þrátt fyrir hvað þú varst orðin mikið veik var alveg fram á síðasta dag stutt í blikið í augunum þínum og glettnina. Ég mun aldrei gleyma öllum góðu stundunum okkar og öllu því sem við höfum brallað saman í gegnum tíðina. Við létum eins og fífl saman, skemmtum okkur saman, hlógum saman, grétum saman, þögðum saman og reyndum að ráða lífsgátuna saman.

Elsku góða og yndislega systir mín, ég sakna þín og elska óumræðilega mikið. Ég er stolt yfir að hafa verið systir þín og enginn hefur kennt mér meira um lífið en þú. Þú skilur eftir stórt skarð sem aldrei verður fyllt. En þú og mamma og pabbi verðið alltaf í hjarta mínu. Þið eruð englarnir mínir.

Við andlátsfregn þína,

allt stöðvast í tímans ranni.

Og sorgin mig grípur,

en segja ég vil með sanni,

að ósk mín um bata þinn,

tjáð var í bænunum mínum,

en Guð vildi fá þig,

og hafa með englunum sínum.

(B.H.J.)

Guð veri með þér, elsku besta mín, þar til við sjáumst að nýju.

Þín elskandi systir,

Ingibjörg Jóna.

Ástkær systir mín varð að láta í minni pokann hinn 5. mars fyrir óvægnum sjúkdómi sem hún hefur barist við undanfarin ár.

Á tímabili leit út fyrir að hún ætlaði að hafa betur í þessari baráttu, en svo dundu áföllin yfir hvert af öðru en lífsviljinn og æðruleysið var hvílíkt að læknar og hjúkrunarfólk áttu ekki orð.

Það var sama hversu veik Systa var, ef hún var spurð hvernig hún hefði það þá var svarið ævinlega „bara fínt“.

Systa hitti hann Egga sinn þegar hún var 17 ára og þar með var byrjað að huga að hreiðurgerð.

Alltaf var Systa jafndugleg, hvort sem var að rífa niður gamla skápa, mála, skafa mótatimbur við húsbyggingu í Klausturhvammi eða elda mat og baka svo ekki sé talað um handavinnuna sem hún hafði mikið yndi af. Þau eru ófá bútasaumsteppin, peysurnar, vettlingarnir og svo mætti lengi telja sem hún gerði, og allt hefði fengið fullt hús stiga fyrir vandvirkni og fagurt handbragð.

Ótal ómetanlegar stundir höfum við Trausti átt með Systu og Egga. Gönguferðir, utanlandsferðir, margar ferðir um Ísland þvert og endilangt og ekki síst allar heimsóknirnar þeirra til okkar vestur í Dali síðastliðin 40 ár. Þetta hafa verið yndislegar samverustundir, mikið hlegið, eldað, spilað og notið þess að vera saman.

Alltaf var tilhlökkunin jafnmikil þegar þau voru lögð af stað til okkar, litið á klukkuna og reiknað út hvenær þau ættu að vera komin.

Systa og Eggi eignuðust eina dóttur, hana Hildi, sem er augasteinninn þeirra, svo ekki sé talað um börnin hennar fimm sem voru lífið í brjósti hennar, vakandi og sofandi voru þau í huga hennar.

Hún þráði að fá að fylgjast með þeim vaxa úr grasi og hlúa að þeim en Guð hefur haft önnur verkefni fyrir hana á öðrum stað, þótt við skiljum það ekki.

Við drúpum höfði með sorg í hjarta og kveðjum yndislega konu og biðjum Guð að blessa fjölskyldu hennar á þessum erfiðu tímum.

Eftir stendur minning um frábæra konu sem aldrei gleymist.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín systir,

Ástríður og Trausti.

Í dag kveð ég hana Systu frænku sem lést langt um aldur fram. Ég get ekki litið aftur til æskuáranna nema upp komi fjöldinn allur af minningum um hana Systu. Það var, jú, þannig að foreldrar mínir og Systa og Eggi gerðu nánast allt saman og voru Systa og Eggi eins og mínir aðrir foreldrar á uppvaxtarárunum. Minnisstæð eru ferðalög vítt og breitt um landið þar sem slegist var um að sitja í bílnum þeirra því það var einhvern veginn öðruvísi stemning í kringum þau en alla aðra og hefur alla tíð verið.

Það er þessi einkennilega afslappaða ró og þægilega fas sem hefur alla tíð einkennt nærveru þeirra, þeirra segi ég því að einingin Systa eða Eggi hefur ekki verið til í sitthvoru lagi, það hefur bara verið Systa og Eggi.

Það var ósjaldan sem ég hafði helgarvist í Klausturhvammi í Hafnarfirði þar sem við Hildur vorum að bralla eitthvað saman, alltaf fylgdu með í kaupunum alveg frábær kósíkvöld. Ég er sannfærður um að Systa hafi fundið þau upp; grái sófinn í Klausturhvammi, stóra Sanyo-túputækið sem var undur síns tíma, popp, böggles, nammi og gos eins og allir gátu í sig látið og svo vaknað eldsnemma til að missa ekki af teiknimyndunum um morguninn.

Heimili hennar verður mér ávallt hugleikið fyrir þær góðu stundir sem við höfum átt þar í gegnum árin. Systa skipar stóran sess í hjarta mínu um ókomna tíð fyrir stríðnisglottið sitt og þá góðmennsku, gestrisni og hlýju sem hún sýndi mér alla tíð. Ég er einn af þeim heppnu sem Systa hefur snert við á lífsleið sinni, ég er betri maður fyrir það að hafa þekkt hana.

Nú er hins vegar svo komið eftir langa og harða baráttu að sú gríðarlega ást sem Systa bar í hjarta sér til fjölskyldu sinnar og viljinn til að fylgja þeim lengra inn í lífið þurfti að lúta í lægra haldi.

Missir fjölskyldunnar og barnabarnanna er mikill, það veit ég þar sem ég naut þeirra forréttinda að eiga yndislega æsku þar sem Systa spilaði stórt hlutverk. Elsku Eggi og Hildur, hugur minn og fjölskyldu minnar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.

Bjarki Traustason.

Þakklæti og virðing er það sem kemur upp í hugann þegar við kveðjum Systu, kæra vinkonu og fyrrverandi vinnufélaga. Leiðir okkar lágu saman 1979 þegar við unnum allar í Háaleitisútibúi Búnaðarbanka Íslands. Þar tókst með okkur góð vinátta og fljótlega ákváðum við að stofna saumaklúbb og hittast mánaðarlega utan vinnu. Þessar samverustundir okkar voru tilhlökkunarefni alla tíð og alltaf glatt á hjalla. Fljótlega fórum við að safna í ferðasjóð sem við notuðum til að skoða heiminn saman og njóta samverunnar.

Þar fór Systa fremst í flokki og hélt hún utan um sjóðinn, eða fellesinn eins og við kölluðum hann og sá til þess að hann ávaxtaðist vel. Á þessum árum fórum við í fimm ógleymanlegar utanlandsferðir og nokkrar ferðir innanlands. Þessar ferðir styrktu vinskap okkar og skilja eftir góðar minningar sem við munum geyma. Fellesinn og Systa munu fylgja okkur í ferðum okkar um ókomin ár.

Við dáðumst að því hvernig Systa tókst af æðruleysi og stillingu á við erfið verkefni sem mættu henni. Systa var heilsteypt og glaðlynd og einstaklega umhyggjusöm. Hún var mikil fjölskyldukona og naut þess með Egga að sinna barnabörnunum fimm sem mikið sóttu til ömmu og afa

Við erum afar þakklátar fyrir að hafa átt hana að sem vinkonu og þökkum henni samfylgdina. Við vottum Egga, Hildi, barnabörnum og öðrum aðstandendum samúð okkar. Hennar verður sárt saknað.

Loks beygði þreytan þína dáð,

hið þýða fjör og augnaráð;

sú þraut var hörð – en hljóður nú

í hinsta draumi brosir þú.

Svo hvíl þig, vinur, hvíld er góð,

– vor hjörtu blessa þína slóð...

(Jóhannes úr Kötlum)

Silvía, Þuríður (Þurý), Ragna, Ragnheiður (Ransý), Björg, Kristín, Anna,

Hrafnhildur, Una, Helga

og María (Mæja).

Við þökkum þér, elsku Systa mín, fyrir yndislega samveru sem við munum búa að alla ævi.

Lífið, – hefur okkar hjörtu sært,

heimurinn sem ekkert eftir gefur.

Þú varst blómið, saklaust, blítt og tært,

blómið sem nú löngum svefni sefur.

Að vori færist leikur lífsins nær,

líf í moldu okkar fósturjarðar.

Á vetrar skugga sólarljósið slær

og skarti fyllir brekkur Hafnarfjarðar.

Skartið eru börn og blóm sem þú,

blóm, – sem minning okkar nú mun geyma.

Okkar, guð nú gefi styrk og trú

og gæfu til að muna, Systu –, heima.

(Örn Þórisson)

Elsku Eggi, Hildur og börn, Addý og Inga Jóna, við biðjum góðan Guð að veita ykkur styrk og megi minningin um þessa duglegu perlu, sem tók veikindum sínum af svo miklu æðruleysi að aðdáun vakti, ylja ykkur á þessum sorgartímum.

Ellý og Örn.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Við munum varðveita dýrmætar minningar um Systu okkar og sendum öllum ástvinum innilegustu samúðarkveðjur.

Margrét, Tómas, Tristan Arnar og Katla Björg.

Nú er Systa mín búin að kveðja eftir langa og harða baráttu við krabbamein. Vinátta okkar Systu hófst þegar við vorum tveggja ára og við mötuðum hvor aðra á sandi þegar við vorum settar saman í sandkassa. Við vorum svo lánsamar að foreldrar okkar bjuggu hið við hlið í Lækjarkinninni. Mamma og fjölskyldan mín senda kveðjur og þakklæti fyrir þá góðu nágranna. Þessi góða vinátta hefur haldist alla tíð síðan. Ég tel mig einstaklega lánsama manneskju að hafa átt Systu sem vin. Systa var einstök. Hún var hvers manns hugljúfi og sá það góða og jákvæða í flestum aðstæðum. Það kom svo vel í ljós í hennar veikindum hvað hún var æðrulaus. Hún var alltaf að hugsa um að öðrum liði vel þótt hún væri sjálf sárþjáð en sagðist alltaf hafa það gott ef hún var spurð um eigin líðan. Hún var alger hetja og sínum góða húmor hélt hún alltaf. Systa átti yndislega foreldra sem báðir voru búnir að kveðja þennan heim og tvær eftirlifandi systur sem hlúðu vel að henni í hennar löngu veikindum. Systa var ung þegar hún og Eggert kynntust. Þau voru samhent og dugleg að koma sér upp fallegu heimili og síðar að byggja sér hús. Þau eignuðust Hildi og var hún ljósgeisli þeirra og síðar börnin hennar. Systu fannst einstaklega gaman að fylgjast með framförum barnabarna sinna og hafa þau öll misst mikið. Nú kveð ég kæra vinkonu með sárum söknuði en minningin lifir að eilífu í hjarta mínu. Guð blessi þig Systa mín.

Kæri Eggert, Hildur og börn, Inga Jóna, Addý og fjölskyldur og aðrir ástvinir, hugheilar samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur og allar minningarnar um Systu.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði.

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Bergdís Guðnadóttir.

Núna er Systa farin. Það er skrítið að hugsa um þetta, en það rifjast stöðugt upp góðar minningar frá bernsku- og unglingsárunum.

Ég eyddi miklum tíma hjá Systu, Egga og Hildi fram á unglingsárin og hugsa oft til þess hversu skemmtilegur sá tími var. Ég fékk oft að gista hjá þeim og hafði mikið gaman af. Það voru mörg ævintýrin sem við lentum í öll systkinabörnin. Mér er sérstaklega hugleikið þegar fyrsta tölvan kom í Klausturhvamm. Mikið fannst mér það frábært tæki, síðan þegar fyrsta tölvan með litaskjá kom á heimilið hjá þér, þá rann upp fyrir mér hvað ég ætti að leggja fyrir mig.

Ég man eftir því að vera uppi á efri hæðinni í Klausturhvammi og skoða þar skjöld einn sem á stóð „Minningin lifir þótt menn deyi“, á þeim tíma þótti mér þetta skrítið, því þá hafði enginn látist sem ég þekkti náið. En í dag er fullkomið vit í þessu, Systa var algjörlega frábær manneskja. Af þeim sökum er þetta svona sárt, en við höfum allar þessar góðu minningar til að ylja okkur við.

Fjölskyldurnar okkar og Systu og Eggi ferðuðust mikið saman og ég á margar minningar frá þeim ferðalögum. Mikið af góðum minningum úr sveitinni, Sléttuhlíð.

Ég man líka eftir því að bíða úti í glugga fyrir vestan í sumarbústaðnum og fylgjast með bílaumferðinni uppi á Skógstagli og bíða eftir bílnum þeirra. Eggi blikkaði alltaf ljósunum þegar hann var þar og þá var kominn tími til að hlaupa og opna hliðin fyrir þeim og Hildi. Því að alltaf þegar þau komu þá var gaman, þau komu með snakk og eitthvað spennandi með sér.

Ég kynntist Margréti Heiðu, konunni minni, einmitt heima hjá þeim. Það virðist nú vera þannig að Systa, Eggi og Hildur hafi haft áhrif á mínar stærstu ákvarðanir.

Eggi hefur alla tíð staðið við hlið Systu og voru þau ætíð órjúfanleg heild, það er alltaf talað um Systu og Egga. Svo samrýnd voru þau.

Systa var yndisleg, barngóð, hjartahlý og góð í alla staði. Hún var virkilega mikil barnagæla, hún var umvafin börnum, barnabörnum og systkinabörnum. Það var alltaf mikið líf og fjör þar sem Systa var.

Ég og Margrét Heiða (konan mín) hugsum oft til hennar og þeirra ljúfu stunda sem við áttum með henni og fjölskyldunni hennar.

Þegar ég var að kveðja hana Systu uppi á líknardeild þá rifjuðust upp margar góðar minningar en það rann líka upp fyrir mér að við þurfum að vera dugleg að rifja upp góðar minningar, því af nógu er að taka. Einnig sá ég mikið af Systu í honum Aroni Inga á þessari kveðjustund, hann var mælskur, sterkur og duglegur á þessum tímamótum. Því Systa var sterk, alveg ótrúlega sterk.

Elsku Systa, þú átt sérstakan stað í hjörtum okkar allra og munum við ávallt minnast þín fyrir óbilandi styrk, hugrekki, staðfestu og hjartahlýju. Við þökkum þér fyrir samveruna, það voru forréttindi að þekkja þig.

Okkar samúðarkveðjur til allra sem sakna hennar, Eggi og Hildur og barnabörnin eiga alla okkar samúð.

Gunnar Ingi, Margrét Heiða og fjölskylda.

Þegar ég hugsa um hana Systu hugsa ég um mjög sterka konu. Konu sem neitaði að láta langvinn erfið veikindi hafa áhrif á sig. Síðastliðin sex ár hafa einkennst af veikindum hennar en aldrei kvartaði hún né kenndi sér meins og í hvert skipti sem maður heimsótti hana brosti hún til manns og spurði hvernig maður sjálfur hefði það.

Systa var gangandi kraftaverk og afstaða hennar til veikinda sinna, sem manni fannst hún ekki leiða hugann að, ætti að vera hverjum manni innblástur til að njóta hvers dags til fullnustu, því hún gerði það svo sannarlega! Mér eru minnisstæð nokkur skiptir þar sem hún var keyrð í snatri upp á bráðamóttöku vegna verkja, en var svo eftir örfáa daga útskrifuð og farin í bíó, sumarbústað eða haustlitaferð á Þingvelli.

Ég sendi Egga og Hildi mínar innilegustu samúðarkveðjur en hugga mig við þá vissu að elsku Systu líði loksins betur á himnum í faðmi foreldra sinna.

Blessuð sé minning þín.

Hlynur og Erla.

Hér sitjum við fyrrverandi og núverandi samstarfsfélagar og rifjum upp minningar um Systu. Okkar kæru samstarfskonu og vinkonu sem fallin er frá langt fyrir aldur fram.

Systa hefur kennt okkur öllum að taka lífinu eins og það er og vera ekki að kvarta yfir smámunum. Hún var yndisleg manneskja og vinur. Hún var ósérhlífin, jákvæð, hjálpsöm og drífandi.

Það er margt skemmtilegt sem við höfum gert saman í gegnum tíðina, útilegur, óvissuferðir, göngutúrar, bæjarferðir og margt fleira og voru Systa og Eggi þar fremst í flokki í gleðskapnum. Eitt árið þegar bankinn ákvað að hafa ekki árshátíð opnuðu þau hjón sitt fallega heimili upp á gátt og héldu árshátíð og úr varð þessi flotta veisla og frábæra skemmtun.

Systa var mikil handavinnukona og átti allar græjur og efni og við samstarfsfélagar fengum að njóta þess þegar kom að handavinnustund. Þolinmæði Systu var einstök við að kenna okkur sem öll vorum með þumalputta á öllum.

Systa og Eggi komu með okkar góða hópi í tvær utanlandsferðir sem voru mjög skemmtilegar og þar tóku þau þátt í öllu. Okkur er sérstaklega minnisstæð síðari ferðin þar sem við áttum öll skemmtilegar og yndislegar stundir saman í Glasgow í apríl 2013.

Systa sýndi öllum áhuga af einlægni og hefur alla tíð fylgst með okkur og fjölskyldum okkar.

Eftir að Systa veiktist þá var hún samt alltaf dugleg að mæta til vinnu.

Hún var sko engin postulínsdúkka og vildi bara að við værum eðlileg við hana líkt og áður en hún veiktist.

Hún mátti aldrei neitt aumt sjá. Ein samstarfskona minnist þess þegar hún var barnshafandi og Systa kom til hennar í vinnunni og spurði hvernig hún hefði það, hún svaraði að hún hefði það ágætt og væri bara nokkuð hress. Þá svaraði Systa því til að þó svo að veikindi hrjáðu hana sjálfa mætti ólétta vinkonan alveg kvarta yfir sýnilegri vanlíðan sinni.

Dóttirin Hildur og barnabörnin hafa alla tíð verið Systu og Egga allt, og kom það vel í ljós þegar hún talaði um þau, því þá ljómaði hún öll.

Alltaf þegar við heimsóttum hana jafnvel undir það síðasta þá sagði hún alltaf „ég hef það fínt“ þegar hún var spurð hvernig hún hefði það.

Systa barðist eins og algjör hetja alveg fram á síðasta dag.

Við erum öll þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Systu, okkar yndislegu perlu. Það er mikill missir að henni.

Við vottum Egga, Hildi, Aroni, barnabörnunum og öllum sem Systu standa næst okkar dýpstu samúð.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Fyrir hönd fyrrverandi og núverandi samstarfsfélaga í Arion banka í Hafnarfirði,

Klara Lísa Hervalsdóttir.

Elsku Systa mín. Mig langar til að skrifa um þig nokkur minningarorð. Þú hafðir alltaf sérstakan sess í hjarta mínu. Við vorum náskyld, mömmur okkar voru systur og pabbar okkar systkinabörn. Þegar ég var lítill strákur dvaldi ég langdvölum heima hjá þér þegar móðir mín þurfti að leggjast á spítala. Ég á mjög góðar minningar um þennan tíma. Mér er það ógleymanlegt þegar þú varst fimm eða sex ára og ég árinu yngri. Þú gast ekki sagt Ágúst Þór og kallaðir mig alltaf Ágúst Por. Einhverju sinni vorum við að leika okkur saman og þú varst mjög sár út í mig vegna stríðni. Þá sagðir þú þessa ógleymanlega setningu: „Ágúst Por, ef þú hættir ekki að stríða mér færðu ekki að sjá mig í nýja afmæliskjólnum mínum.“

Eins á ég mér mjög ánægjulegar minningar þegar fjölskyldur okkar ferðuðust saman um landið þegar við vorum krakkar. Systa mín, í minningunni lifir alltaf hversu góð, traust og hlý manneskja þú varst. Ég mun sakna þín sárt. Þú kvaddir allt of snemma.

Ég votta Eggert og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð.

Ágúst Þór Eiríksson.

Hinsta kveðja
Komið er að kveðjustund. Með söknuði kveð ég Systu vinkonu mína til margra áratuga. Hún kenndi mér svo ótalmargt en hæst stendur æðruleysið. Hún kunni listina að lifa í núinu, hún leit ekki til baka og hún beið ekki eftir morgundeginum, hún nýtti töfra augnabliksins til hins ýtrasta. Sál hennar var heilbrigð, falleg, hugprúð og kjarkmikil. Þannig vil ég geyma minninguna um hana Systu, fallegu vinkonu mína. Frá Flórída sendum við Freysteinn samúðarkveðjur til Eggerts, Hildar og fjölskyldunnar allrar.
Björg Kjartansdóttir.