14. mars 1948 Jóhannes S. Kjarval lagði til í grein í Morgunblaðinu að Íslendingar létu byggja hvalafriðunarskip. Listmálarinn spurði: „Er nokkuð frjálsara, óháðara og hlutlausara en sjá hvali fara stefnur sínar á flötum hafsins?

14. mars 1948

Jóhannes S. Kjarval lagði til í grein í Morgunblaðinu að Íslendingar létu byggja hvalafriðunarskip. Listmálarinn spurði: „Er nokkuð frjálsara, óháðara og hlutlausara en sjá hvali fara stefnur sínar á flötum hafsins?“ Þetta hefur verið talin ein fyrsta hugmyndin um hvalaskoðunarferðir.

14. mars 1958

Borgin hló, fyrsta ljóðabók Matthíasar Johannessen kom út. „Snjallar svipmyndir úr lífi borgarbarnsins,“ sagði einn ritdómari og annar sagði: „Nýliði sem fagna ber og gerðar verða kröfur til.“

14. mars 1969

Fiðlarinn á þakinu var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu. Róbert Arnfinnsson fór með aðalhlutverkið, Tevje. „Man ég ekki dæmi þess að leikari hafi verið hylltur jafn innilega að leikslokum,“ sagði leikdómari Alþýðublaðsins. Fleiri sóttu sýningar á þessu verki en nokkru öðru í húsinu til þess tíma.

14. mars 1981

Veitingastaðurinn Tomma-hamborgarar var opnaður við Grensásveg í Reykjavík. Tommaborgari kostaði 22 krónur og franskar kartöflur 9 krónur. Síðar urðu staðirnir fleiri og voru þeir mjög vinsælir í mörg ár.

14. mars 1987

Sif, þyrla Landhelgisgæslunnar, bjargaði níu manns þegar Barðinn strandaði við Dritvík á Snæfellsnesi. Aðstæður voru erfiðar og í Morgunblaðinu var þetta sagt frækilegt björgunarafrek.

14. mars 2013

Elva Lísa Sveinsdóttir, 15 ára nemandi í Njarðvíkurskóla, bætti Íslandsmetið í hreystigreip í Skólahreysti. Elva hékk í rúmar ellefu mínútur á slá og bætti eldra met um fjórar og hálfa mínútu.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson