Þannig að það er ekki okkar að tjá okkur um það hvað okkur finnst um afstöðu viðkomandi ríkis. Vilji það ganga í Evrópusambandið þá sendir það umsókn og heldur áfram viðræðuferlinu.

Þannig að það er ekki okkar að tjá okkur um það hvað okkur finnst um afstöðu viðkomandi ríkis. Vilji það ganga í Evrópusambandið þá sendir það umsókn og heldur áfram viðræðuferlinu. Ef það vill ekki ganga í sambandið þá annaðhvort hefur ríkið ekki viðræður eða stöðvar þær.“

Þannig komst Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins, að orði á blaðamannafundi í Brussel í lok ágúst síðastliðins, spurður um stöðuna á umsókn Íslands um inngöngu í sambandið. Þessi ummæli eru í fullu samræmi við annað sem komið hefur frá Evrópusambandinu í þessum efnum allt frá því að umsóknin var send til Brussel sumarið 2009 af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Og fyrir þann tíma. Forsenda slíkrar umsóknar er vilji til þess að ganga í sambandið. Bæði pólitískur og almennur.

Þegar umsóknin var send sumarið 2009 var þessi forsenda ekki uppfyllt. Ekki var raunverulegur meirihluti fyrir því á Alþingi að ganga í Evrópusambandið og ekki á meðal þjóðarinnar. Enda kom það ófáum innan sambandsins, ekki sízt stjórnmálamönnum, mjög á óvart þegar þeir smám saman komust að því á hversu veikum grunni umsóknin væri byggð. Evrópusambandið lýsti fyrir vikið ítrekað yfir áhyggjum sínum á síðasta kjörtímabili af því að þáverandi ríkisstjórn væri klofin í málinu og pólitískur stuðningur við umsóknina af skornum skammti. Með öðrum orðum að nauðsynlegar forsendur fyrir umsókninni væru ekki til staðar.

En það er aldrei of seint að leiðrétta mistök og það hyggst núverandi ríkisstjórn gera. Umsóknin sem aldrei átti að senda verður dregin til baka enda ljóst að hvorki ríkisstjórnin, meirihluti þingsins né meirihluti þjóðarinnar vill ganga í Evrópusambandið. Þar með verður Ísland ekki lengur formlega umsóknarríki. Að öðrum kosti yrði málið áfram á dagskrá og áframhaldandi deilur um það fyrir vikið miklum mun líklegri. Þá yrði örugglega um kosningamál að ræða í næstu þingkosningum.

Það er skiljanlegt að Samfylkingin vilji alls ekki að umsóknin verði dregin til baka enda vandséð að flokkurinn hafi mörg önnur stefnumál. Í öllu falli virðist um að ræða einhvers konar allsherjarlausn hans á öllu. Björt framtíð gæti hins vegar grætt á því á kostnað Samfylkingarinnar enda hefur flokkurinn markað sér mun breiðari málefnalega stöðu.

Hvað VG varðar er einnig skiljanlegt að flokkurinn vilji ekki draga umsóknina til baka. Áframhaldandi tilvist hennar eykur möguleikana á vinstristjórn. Mun erfiðara yrði fyrir VG að samþykkja að standa að nýrri umsókn um inngöngu í Evrópusambandið eftir allt sem á undan er gengið en einungis að dusta rykið af umsókn sem þegar væri formlega fyrir hendi og flokkurinn hefði hvort sem er staðið að í byrjun. hjortur@mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson