Íslenskan er ólíkindatól og oft er vandlifað í nágrenni málsins. Þetta hefur stundum verið áberandi í Vesturheimi, þar sem beinar þýðingar hafa valdið miskilningi.

Íslenskan er ólíkindatól og oft er vandlifað í nágrenni málsins. Þetta hefur stundum verið áberandi í Vesturheimi, þar sem beinar þýðingar hafa valdið miskilningi. Margur Íslendingurinn, sem hefur verið að leita að ættingja og fengið það svar að hann lifði í næstu dyrum, hefur orðið kjaftstopp og ekki hætt sér frekar út á þessa hálu braut.

Á dögunum heyrði Víkverji sögu sem staðfesti enn frekar að menn skyldu virða málið og fara varlega, því annars væri hætta á að einhver missti sig algerlega.

Yfirmaður í virtu íslensku fyrirtæki erlendis vildi auka samkenndina og kenna erlendum starfsmönnum sínum einfalda setningu á íslensku. Tvö orð urðu fyrir valinu: Góðan daginn.

Ungur maður tók málið alvarlega og ávarpaði konu í fyrirtækinu á íslensku á hverjum morgni. Hún leit á hann með stingandi augnaráði í fyrsta sinn og með hverjum deginum sem leið kólnaði andrúmsloftið þegar ungi maðurinn kastaði glaðlega kveðju á konuna.

Innan skamms þoldi konan ekki lengur við og óskaði eftir fundi með íslenska yfirmanninum. Hún var vægast sagt mjög reið og sagðist ekki þola framkomu unga mannsins öllu lengur. Hann væri með dónaskap og hún hefði aldrei upplifað aðrar eins svívirðingar.

Íslenski yfirmaðurinn róaði konuna, sagði að öllum gæti orðið á og bað hana að útskýra nánar í hverju dónaskapur og svívirðingar unga mannsins fælust.

Þessi ungi maður kemur brosandi inn á skrifstofuna á hverjum morgni, ruggar sér í lendunum, slær sér á lær og segir við mig: Go-on-a-diet (gó-ð-a-n da-ginn), farðu í megrun!