Faxaflóahafnir Hækkun vörugjalda frá sl. áramótum var frestað en skipagjöld og tengd þjónustugjöld hækka um 2,5% í stað 3,8%.
Faxaflóahafnir Hækkun vörugjalda frá sl. áramótum var frestað en skipagjöld og tengd þjónustugjöld hækka um 2,5% í stað 3,8%. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkti á fundi sínum 7. febrúar sl. að fresta hækkun á vörugjöldum frá og með 1. janúar.

Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkti á fundi sínum 7. febrúar sl. að fresta hækkun á vörugjöldum frá og með 1. janúar. Hins vegar var hækkun skipagjalda og tengdra þjónustugjalda miðuð við 2,5%, það er verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, í stað 3,8% hækkunar. Um mitt ár verður gjaldskráin tekin til endurskoðunar með hliðsjón af þróun verðlags. Þá var hafnarstjóra falið að gera viðeigandi tillögu að breytingum rekstrargjalda miðað við nýjar verðlagsforsendur. Einnig að svara erindum frá ASÍ og Eimskipafélagi Íslands.

ASÍ skrifaði Faxaflóahöfnum sf. 14. janúar sl. vegna þess að fyrirtækið hafði hækkað verð í upphafi ársins. Í bréfinu var minnt á að ein helsta forsenda kjarasamninganna 21. desember sl. hefði verið lág verðbólga. Skoraði ASÍ á Faxaflóahafnir sf. að draga verðhækkanir til baka.

Eimskipafélag Íslands hf. skrifaði Faxaflóahöfnum 16. janúar sl. og skoraði á Faxaflóahafnir sf. að draga til baka hækkanir á gjaldskrá sem tóku gildi 1. janúar. Hækkunin nam 3,8%. Eimskip kvaðst þola illa hækkanir á kostnaði aðfanga og aðkeyptrar þjónustu í ríkjandi efnahagsástandi. Þrátt fyrir þörf fyrir verðhækkanir ákvað Eimskip að hækka ekki gildandi verðskrá í millilandaflutningum og annarri flutningatengdri þjónustu. Það var gert til að sýna samstöðu með átaki SA og ASÍ til að halda niðri verðbólgu og tryggja stöðugleika.

gudni@mbl.is