Unnur Árnadóttir fæddist í Teigi í Grindavík 28. apríl 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi 5. mars 2014.

Foreldrar hennar voru Árni Guðmundsson, f. 4. júní 1891, d. 29. apríl 1991, og Ingveldur Þorkelsdóttir, f. 14. desember 1891, d. 21. janúar 1971. Systkini Unnar voru: Margrét, f. 1915, Vilborg, f. 1916, Dagmar, f. 1918, Guðmundur, f. 1920, Laufey, f. 1921, Þorkell, f. 1923, Jón, f. 1925, Ingi Ármann, f. 1926, Vilberg Magnús, f. 1930, og Ingi Ármann, f. 1934. Þau eru öll látin. Unnur giftist Óskari Böðvarssyni frá Hópi í Grindavík 9. apríl 1950. Hann lést 4. nóvember 2011. Börn þeirra eru: 1) Steinþór, f. 2. apríl 1952, maki Valgerður Anna Guðmundsdóttir, f. 23. apríl 1964. Börn þeirra eru Guðmundur, f. 27. maí 1985, sambýliskona Guðrún Anna Lúðvíksdóttir, f. 8. júní 1989, þau eiga tvo syni, Aron Leó og Alex Leví, og Unnur Ósk, f. 10. september 1990, sambýlismaður Bjarki Már Elísson, f. 16. maí 1990. Einnig á Steinþór synina Inga þór, f. 9. maí 1972, maki Sigrún Anna Jónsdóttir, f. 17. maí 1972, og eiga þau þrjú börn, Jakob Breka, Elvar Áka og Heklu Maríu, og Friðrik Má, f. 29. apríl 1976, sambýliskona Halla Sjöfn Ágústsdóttir, f. 29. desember 1979, eiga þau soninn Birki Má. 2) Hörður, f. 14. maí 1958. Börn hans eru Sigríður Ósk, f. 23. júní 1981, hún á einn son, Henry James Pew, og Birgir Örn, f. 9. júlí 1991. 3) Ingvar Árni, f. 14. maí 1961, sambýliskona Ásdís María Jónsdóttir, f. 9. september 1959. Börn Ingvars eru Davíð Már, f. 11. febrúar 1987, Unnur Inga, f. 19. maí 1989, sambýlismaður Kristján Mar Svavarsson, f. 14. maí 1987, og Þröstur Snær, f. 22. febrúar 1996. 4) Margrét, f. 22. apríl 1968.

Unnur ólst upp í Teigi í Grindavík. Hún gekk í Barnaskóla Grindavíkur. Eftir útskrift úr barnaskólanum starfaði Unnur við fiskvinnslu en einnig fór hún til eldri systra sinna og aðstoðaði þær við heimilishald og barnagæslu. Síðar fór hún í Húsmæðraskólann á Laugarvatni eitt sumar. Unnur flutti með Óskari á Selfoss 1949 þar sem þau hófu búskap. Fyrst eftir komuna á Selfoss vann hún við þjónustustörf á Hótel Selfossi en eftir að börnin fæddust var hún heimavinnandi. Samhliða húsmóðurstörfunum bakaði hún flatkökur og seldi í verslun Kaupfélags Árnesinga og á fleiri stöðum. Unnur starfaði mikið að félagsmálum og var virkur félagi í Kvenfélagi Selfoss. Unnur var einn af stofnendum Foreldrafélags þroskaheftra barna sem nú heitir Þroskahjálp á Suðurlandi og sat hún í stjórn þess félags um margra ára skeið.

Útför Unnar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 14. mars 2014, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Eftir þrjátíu ára samfylgd kveð ég í dag tengdamóður mína, Unni Árnadóttur. Mér er þakklæti efst í huga fyrir að hafa fengið að njóta leiðsagnar hennar og vináttu. Unnur var góður leiðbeinandi og vinur, vandvirk, þolinmóð, ákveðin, sanngjörn, hlý og traust. Ég er betri manneskja fyrir að hafa fengið að þekkja hana og umgangast.

Ein af annarri birtast

okkar samfylgdar stundir

hlýjar í huga mér.

(Jakobína Sigurðardóttir)

Hafðu þökk fyrir allt og allt kæra Unnur. Guð geymi þig.

Þín tengdadóttir,

Valgerður Anna.

Elsku amma. Þú varst einstök kona. Alveg ótrúlega góð amma sem hafðir endalausan tíma fyrir okkur barnabörnin. Þú kenndir okkur svo margt með því að leyfa okkur að taka þátt í því sem þú gerðir. Hvort sem það voru húsverkin, matargerð, bakstur, handavinna, spilamennska eða bara samræður um daginn og veginn við eldhúsborðið, alltaf vorum við velkomin að taka þátt og þú kenndir okkur mörg handtökin. Fyrir þetta erum við svo þakklát.

Hús ykkar afa var alltaf opið og alltaf var maður jafnvelkomin þegar maður kom. Við sóttumst mikið í að vera á heimili ykkar því þar leið okkur alltaf vel. Þú varst einstaklega góð og hjartahlý kona. Alltaf svo skilningsrík við okkur og studdir okkur í einu og öllu.

Þegar flatkökuilmurinn tók á móti manni þegar maður nálgaðist húsið ykkar þá gaf maður í og flýtti sér inn til ykkar til að ná sér í eina volga. Flatkökurnar ykkar voru það besta sem við fengum og það var mikið sport að vera viðstaddur baksturinn. Þau handtök verða seint leikin eftir. Það gekk mikið á og þetta var mikil keppni við tímann og það vinnulag kenndir þú okkur. „Þetta þarf að ganga!“

Það er svo ótrúlega sárt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur. Þú hefur alltaf verið svo stór hluti af lífi okkar. Við viljum þakka þér fyrir allt sem þú kenndir okkur og allt sem við fengum að upplifa með þér. Við eigum óendanlega margar minningar sem við munum geyma í hjarta okkar allt okkar líf.

Þessar minningar fá okkur til að brosa og gera okkur svo stolt því við höfum alltaf litið upp til þín.

Við kveðjum þig með sorg í hjarta en geymum minninguna um einstaka ömmu, sem alltaf var til staðar, í hjarta okkar og vitum að nú ertu komin til afa.

Þín barnabörn

Sigríður Ósk, Guðmundur, Unnur Ósk og Birgir Örn.

Í dag kveð ég Unni mágkonu mína hinstu kveðju. Með henni hverfur síðasta systkinið frá Teigi í Grindavík, 9 þeirra komust upp. Ég er svo heppin að hafa átt samleið með þeim í tæp 70 ár, sem kona Guðmundar. Öll hafa þau reynst mér tryggðatröll í blíðu og stríðu og þá ekki síst tengdaforeldrarnir, merkis- og sómahjónin í Teigi. Nú halda yngri kynslóðir uppi merki þeirra með artarsemi og vináttu í minn garð.

Unnur var mér nánust af mágfólki mínu. Aðstæður höguðu því til að hún fluttist hingað að Selfossi 5 árum seinna en ég og við byggðum húsin okkar í sömu götu, andspænis hvort öðru. Þetta var um miðja 20. öldina, híbýlin ekki fullfrágengin. Það biðu okkar ekki rafmagnsheimilistæki eða músíkgræjur.

T.d. þvoðum við þvottinn með berum höndum á glerbrettum og enginn hlutur var keyptur fyrr en peningurinn hafði verið sparaður fyrir honum. Þarna strax sýndi Unnur manngildi sitt og verklagni og að mér fannst ofurdugnað. Það var sama hvaða verki hún snéri sér að, heimilisstörfum, saumaskap, matargerð eða vinnu í húslóðinni. Allt unnið af lagvirkni með fullkomnun að takmarki. Mér fannst hún vera margra manna maki í verkum sínum, enda voru þau hjónin samtaka í snyrtimennsku og góðri umgengni og bar heimilið þess vott.

Unnur var glaðsinna og skemmtileg kona, eins og þau bæði hjónin. Höfðingjar heima að sækja og tryggðatröll vinum sínum og ættingjum. Eftir að hagur þeirra fór að batna og húsbyggingar að baki var Unnur hjálparhella ættingja sinna og vina, örlát og hjálpfús og vinsæl meðal smáfólksins.

Tilgangur þessara fáu orða er ekki að gera úttekt á persónu Unnar Árnadóttur. Það munu aðrir gera mikið betur. En ég vil aðeins þakka henni farsæla og ljúfa samveru þar sem fjölskyldur okkar studdu hvor aðra og deildu gleði og sorgum þegar ástæður gáfu tilefni til þess. Það voru sterk og góð tengsl milli okkar.

Teigsfjölskyldan stendur alltaf sterk saman. Þar gilda ættarbönd í blíðu og stríðu.

Ástvinum Unnar sendi ég einlæga samúðarkveðju, alveg sérstaka kveðju fær Margrét, hennar missir er mikill. Friður sé með þessari góðu konu.

Auður.